Nýtt netvænt farsímakerfi í notkun

Nýtt langdrægt farsímakerfi var prófað í fyrsta sinn hér á landi í gær. Kerfið mun veita fólki hraðan aðgang að netinu á stöðum þar sem slíkt er ekki í boði nú.
Starfsmenn Símans prófuðu í gær nýtt langdrægt farsímakerfi sem leysir gamla NMT-kerfið af hólmi. Þetta er í 1. sinn sem slíkt kerfi er prófað hér á landi.

Settir hafa verið upp 2 öflugir sendar fyrir nýja farsímakerfið í Reykjavík. Kerfið kallast CDMA-450 og er langdræg útgáfa af 3. kynslóð farsímatækni. Linda Waage, upplýsingafulltrúi Símans, segir að sendar kerfisins muni draga 100 kílómetra í góðu veðri og að búnaðurinn sé jafn öruggur og önnur kerfi. Hún segir að nýja kerfið geti flutt gögn 100 sinnum hraðar en hið gamla.


Gamla NMT-kerfið var tekið í notkun í júlí 1986 en nú hefur verið ákveðið að slökkt verði á því í lok næsta árs. Nýja kerfið verður rekið samhliða GSM-kerfinu og verður hægt að fá síma sem tengjast þeim báðum. Linda Waage segir ennþá óvíst hvað þjónustan muni kosta en reynslan frá öðrum löndum sé góð. Kerfið sé útbreitt í Bandaríkjunum og annars staðar á Norðurlöndum; allt að 10 miljón manns noti það nú þegar.


Stefnt er að því að kerfið hafi náð fullri útbreiðslu hér á landi í janúar 2009. 


back to top