Nýr búnaðarlagasamningur og búvörusamningar framlengdir

Nýr búnaðarlagasamningur var undirritaður í dag af hálfu Bændsamtakanna og ríkisvaldsins. Við sama tilefni voru núverandi búvörusamningar um framleiðslu sauðjárafurða, mjólkur og samningur um starfsskilyrði garðyrkjuframleiðenda framlengdir um tvö ár.
Í nýjum búnaðarlagasamningi eru staðfest framlög til leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði, til búffjárræktar og jarðræktar, til lífrænnar ræktunar og Framleiðnisjóðs sem má segja að sé endurreistur í nýjum samningi. Heildarupphæð samningsins fyrir árið 2013 nemur 558,5 milljónum króna. Nýr búnaðarlagasamningur er að mörgu leyti áþekkur fyrri samningum en þó eru þar ýmsar breytingar. M.a. er sérstök áhersla lögð á eflingu kornræktar og þá er tekið tillit til uppstokkunar og endurskipulagningar á leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði sem stendur fyrir dyrum.

Búvörusamningarnir fela í sér breytingar á núverandi samningum þannig að ekki ganga í gildi ákvæði upphaflegra búvörusamninga frá því fyrir 2009 heldur eru samningar framlengdir miðað við núverandi fjárhæðir samkvæmt fjárlögum. Með þessu er bændum tryggður stöðugleiki þar sem að samningarnir framlengjast um tvö ár.


Breytingar á búvörusamningunum miða að því að eftirstöðvar verðbóta vegna fyrri ára komi ekki að fullu til framkvæmda heldur verði framlög vegna búvörusamninga lækkuð um 1% en hækka síðan um sömu prósentutölu og verðlagsforsendur fjárlaga gera milli áranna 2012 og 2013 (3,9%).
 
Í mjólkursamningi kemur fram að samningsaðilar séu sammála um að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfni og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. Starfshópurinn skal skila niðurstöðu sinni í síðasta lagi 31. desember 2013.

Haraldur Benediktsson, formaður BÍ, sagði við undirritunina að þessir samningar teldust til verulegra tíðinda fyrir bændur og að þeir mörkuðu sókn landbúnaðar á nýjan leik eftir mögur ár eftir Hrun. Hann þakkaði fjármálaráðherra og atvinnuvegaráðherra fyrir þeirra þátt í að gera þetta samkomulag við bændur og samtök þeirra. Næstu skref væru að samningarnir færu til kynningar og atkvæðagreiðslu meðal bænda.

„Samningur um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða er nú framlengdur og er heit okkar að hefjast þegar handa við gerð á nýjum og lengri samningi fyrir þá mikilvægu búgrein. Samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu og sauðfjárafurða treysta búgreinarnar verulega til lengri tíma. Eins og flestir vita þarf stöðugleika og framtíðarsýn í öllum rekstri svo hægt sé að gera áætlanir, byggja upp og sækja fram. Endurnýjaðir samningar fela í sér fyrirheit um ýmsar breytingar sem allar miða að því að bændur geti þróað sinn búskap enn frekar,“ sagði Haraldur.

Hann kvaðst jafnframt ánægður með að fjármagn væri nú tryggt fyrir Framleiðnisjóð landbúnaðarins en 70 milljónir renna til hans á næsta ári og 85 milljónir árið 2014. Framlög til sjóðsins fara stighækkandi og verða 140 milljónir árið 2017. „Þar er markaður ákveðinn rammi sem miðar að því að auka verðmæti framleiðslu sveitanna, að fjölga atvinnutækifærum, styðja við rannsóknir og nýsköpun. Ekki er síður lögð áhersla á sókn og nýsköpun innan hefðbundinna greina landbúnaðarins.“

„Að þessu sinni fylgjast allir grunnsamningar landbúnaðarins að. Það tel ég ótvíræðan kost en með því mörkum við samfelldari og sterkari landbúnaðarstefnu í samvinnu við stjórnvöld. Landbúnaðarstefnan er lifandi og hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum. Það mun hún áfram gera og jafnvel á enn meiri hraða en áður,“ sagði Haraldur Benediktsson.

Samningarnir verða birtir á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins innan tíðar.


back to top