Ný heimasíða bssl.is

Við bjóðum ykkur velkomin á nýja heimasíðu Búnaðarsambands Suðurlands. Það er von okkar að nýja heimasíðan verði ykkur notadrjúg. Upplýsingar á síðunni eiga að vera aðgengilegar og leitast verður við að vera með það sem er efst á baugi hverju sinni á starfssvæði Búnaðarsambands Suðurlands.

Gamla heimasíðan var búin að þjóna vel hagsmunum bænda og má þar þakka óeigingjörnu starfi Guðmundar Jóhannessonar. Hann var óhræddur við að koma með nýjunar og var vakandi fyrir upplýsingum sem gætu nýst bændum. Heimasíðan var víðlesin og þótti jafnan einföld og þægileg í notkun. Mikið af efni gömlu heimasíðunnar var flutt yfir á nýju heimasíðuna en mögulega gæti eitthvað efni hafa tapast í þessum gjörningi. Við viljum því biðja lesendur um að láta okkur vita ef þið saknið einhvers sem hefur nýst ykkur vel.

Eins og flestir vita urðu miklar breytingar um síðustu áramót á starfsemi Búnaðarsambands Suðurlands, þegar Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins tók til starfa og allir ráðunautar BSSL fluttust yfir í þetta nýja fyrirtæki. Við breytingarnar kom upp sú spurning hvort halda ætti áfram með heimasíðuna og var það niðurstaða stjórnar BSSL að halda áfram. Ýmsar upplýsingar sem voru á gömlu heimasíðunni pössuðu ekki lengur við nýtt hlutverk Búnaðarsambandsins og sömuleiðis var heimasíðan ekki lengur að uppfylla þarfir nútímatækni eins og snjallsíma og spjaldtölva.

Með nýrri heimasíðu er ósk okkar að hún nýtist bændum vel til að fylgjast með því sem efst er á baugi hverju sinni. Það er jafnframt von okkar að lesendur heimasíðunnar úti í héruðum verði duglegt að senda til okkar upplýsingar um fréttir og uppákomur og ábendingar eða hugmyndir um hvað betur megi fara á síðunni. Heimasíðan er með beina tengingu við heimasíðu Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is og Bændablaðið, www.bbl.is og því geta bændur fylgst vel með.

Með ósk um gott samstarf og von um að ný heimasíða þjóni hagsmunum bænda,
Helga Sigurðardóttir, vefstjóri www.bssl.is (helga@bssl.is)


back to top