Neytendasamtökin sökuð um að brjóta trúnað

Neytendasamtökin voru sökuð um að brjóta trúnað á Alþingi í dag en þau birtu í gær frétt um að fulltrúar bænda hefðu gengið út af fundi starfshóps sem er að móta samningsafstöðu Íslands í aðildarviðræðum við ESB um landbúnaðarmál. Neytendasamtökin hafa sent frá yfirlýsingu vegna þessa þar sem segir:„Neytendasamtökin rufu ekki trúnað því frétt þessa efnis birtist á vef Evrópuvaktarinnar nú á þriðjudaginn og því voru þessi mótmæli þegar orðin opinber. Alþingismenn verða að kynna sér málin betur áður en þeir fara fram með tilhæfulausar ásakanir.“

Í frétt Evrópuvaktarinnar um málið kemur fram að fulltrúar bænda gengu af fundi ESB-viðræðuhóps Íslands um landbúnaðarmál sem haldinn var föstudaginn 9. nóvember 2012 af því að þeir töldu að ætlunin væri að brjóta í bága við skjalfesta afstöðu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að ekki verði fallið frá tollvernd íslensks landbúnaðar. Sigurgeir Þorgeirsson, formaður viðræðuhópsins, sagði að fyrir lægi ákvörðun um að krefjast ekki áframhaldandi tollverndar fyrir landbúnaðarvörur og það væri því hlutverk samningahópsins að finna aðrar leiðir til að bæta tollverndina upp, svo sem í auknum beinum stuðningi, en áskilinn væri réttur til að víkja að málinu síðar.


Ágreiningurinn innan viðræðuhópsins um 11. kafla ESB-viðræðnanna um landbúnaðarmál snýst um umboð hópsins. Fulltrúar Bændasamtakanna vísa til bréfs sem þeim barst frá Jóni Bjarnasyni, þáv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, 22. júní 2011. Þar sagði ráðherra að teldi samninganefnd Íslands að hún þyrfti að gefa eftir tollvernd íslensks landbúnaðar til að verða við kröfum Evrópusambandsins í viðræðunum væri nefndinni væntanlega skylt að leita eftir nýju umboði frá alþingi. Afstaða sín væri meðal annars reist á sjónarmiðum sem komið hefðu fram í áliti meirihluta utanríkismálanefndar frá því í júlí 2009. Í bréfinu kemur fram að „telji samninganefnd Íslands við ESB aftur á móti að gefa þurfi eftir tollvernd eða aðra lykilþætti í stuðningi við landbúnaðinn, að kröfum ESB, er henni væntanlega skylt að leita eftir umboði til þeirrar málafylgju hjá Alþingi.“


Fulltrúar Bændasamtakanna þeirri skoðun sinni að efnislegt forræði þess sem lagt væri fram af Íslands hálfu gagnvart ESB væri á hendi ráðherra viðkomandi málaflokks. Þeir hefðu undir höndum bréf ráðherrans frá 22. júní 2011 sem ekki hefði verið afturkallað eða breytt með nýju bréfi og teldu þeir því að viðræðuhópnum bæri að starfa í samæmi við það. Þeir áréttuðu jafnframt eigið umboð, þeir gætu ekki tekið þátt í viðræðum sem brytu í bága við það og yrðu að ræða við umbjóðendur sína. Að óbreyttu hefðu þeir því ekki umboð til að taka þátt í umræðum af þessu tagi og yfirgáfu fulltrúar bændasamtakanna við svo búið fundarherbergið.


Á 30. fundi viðræðunefndar Íslands vegna ESB-aðildarumsóknarinnar sem haldinn var í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg fimmtudaginn 19. maí 2011 gerði Sigurgeir Þorgeirsson, þáv. ráðuneytisstjóri sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og formaður viðræðuhópsins um landbúnaðarmál, grein fyrir takmörkuðu umboði fulltrúa ráðuneytisins í viðræðunum. Þá var bókað í fundargerð viðræðunefndarinnar:
„Fulltrúar í samninganefnd lýstu áhyggjum af þessum takmörkunum á umboði og töldu mikilvægt að leitað yrði lausna þar á. Einn samninganefndarmanna taldi að líta mætti svo á að með slíkri yfirlýsingu væri verið að stöðva viðræðurnar.“


Fyrir bændur er málið grafalvarlegt en komi til þess að Ísland gangi í ESB eru allar líkur á að íslenskur landbúnaður muni ekki njóta þeirrar tollverndar sem hann hefur notið. Það þýðir væntanlega að hingað munu flæða inn ódýrar landbúnaðarvörur sem aðrar þjóðir eru tilbúnir að afsetja á lágum verðum þar sem um er að ræða framleiðslu umfram innanlandsneyslu. Það er hins vegar mjög brýnt að gera sér grein fyrir að aðgengi að þessum vörum á lágum verðum er algjörlega háð framleiðslu- og markaðsaðstæðum í viðkomandi löndum. Framboð þeirra og verð er því ekkert sem menn geta gengið að sem vísum hlut.


back to top