Neysla kindakjöts á hvern íbúa í fyrra sú minnsta frá 1983

Neysla á kindakjöti hér á landi var að jafnaði 18,8 kíló á hvern íbúa árið 2011, en það er minnsta neysla frá því að Hagstofan hóf að safna slíkum gögnum árið 1983. Til samanburðar var neysla á kindakjöti 45,3 kíló á hvern íbúa árið 1987. Árið 2007 varð neysla alifuglakjöts í fyrsta sinn meiri en neysla kindakjöts. Í fyrra var neysla á alifuglakjöti að meðaltali 24,2 kíló á hvern íbúa.
Þessar upplýsingar má finna í Landshögum 2012, hagtöluárbók Hagstofu Íslands, sem kemur út í dag, mánudaginn 19. nóvember. Landshagir eru lykilrit um opinbera hagskýrslugerð á Íslandi og er yfirlit tölulegra upplýsinga um flesta þætti efnahags- og félagsmála.

Landshagir eru til sölu í öllum helstu bókaverslunum og kostar einungis 3.500 krónur. Bókin er einnig til sölu í afgreiðslu Hagstofu Íslands að Borgartúni 21a. Þá má panta ritið á vefnum, en einnig má nálgast efni Landshaga endurgjaldslaust á vef Hagstofu Íslands.


Sjá nánar:
Landshagir 2012 – Útgáfa


back to top