Möguleiki á fyrirframgreiðslu vegna kornræktar – Umsóknarfrestur til 15. júní

Þann 1. júní sl. var opnað fyrir umsóknir um jarðræktarstyrki og landgreiðslur.

Um er að ræða valkvæða fyrirframgreiðslu vegna kornræktar. Þeir sem sækja um, stofna jarðræktarumsókn og skrá upplýsingar um sáningu á korni, í síðasta lagi 15. júní fá fyrirframgreiðslu. Miðast fyrirframgreiðslan að jafnaði við 25% af einingaverði á hektara jarðræktarstyrks ársins á undan. Ekki er greidd fyrirframgreiðsla vegna annarrar ræktunar en kornræktar.

Fyrirframgreiðslan er valkvæð og stefnt er að því að greiða hana út 1. júlí. Kemur hún til frádráttar jarðræktarstyrkjum umsækjanda sem koma til greiðslu í desember.

Þessi breyting er gerð í samræmi við tillögur Landbúnaðarháskóla Íslands í skýrslunni Bleikir akrar til eflingar kornræktar. Tilgangurinn er að koma til móts við kostnað bænda vegna sáningar og áburðargjafar í kornrækt segir í tilkynningu Matvælaráðuneytisins.

Almennur umsóknarfrestur vegna jarðræktarstyrkja og landgreiðslna verður eftir sem áður 1. október en þá á að vera búið að ganga frá endanlegri umsókn. Þeir kornræktendur sem skrá kornrækt á umsókn fyrir 15. júní fá þannig fyrirframgreiðslu en þeir sem gera það eftir þann tíma fá jarðræktarstyrk sem verður greiddur með sama hætti og síðustu ár. Möguleiki á fyrirframgreiðslu er því valkvæður.

Fréttin er tekinn af bondi.is


back to top