Meðalbúið stækkar mikið milli ára

Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarfélaganna fyrir árið 2006 eru nú komnar á vefinn. Á árinu 2006 skiluðu alls 234 bú skýrslum og hefur þeim fækkað um sex milli ára. Þátttaka í skýrsluhaldi eykst samt hutfallslega og er nú 90,1% miðað við magn innlagðrar mjólkur en var 88,5% árið áður. Fjöldi kúa á skýrslu eykst þó nokkuð og t.d. fjölgar árskúm úr 7.571,9 í 8.185,8 og heilsárskúm fjölgar í 5.124 í 5.570. Skýringin er áreiðanlega sú staða sem uppi er í framleiðslu- og sölumálum en sú vöntun sem verið hefur mjólk verður til þess að menn farga kúm síður nú en áður.
Eins og áður hefur komið fram jukust afurðir eftir árskú um 90 kg milli ára og enduðu í 5.578 kg. Þetta eru mestu afurði frá upphafi. Sem fyrr eru afurðir mestar í Rangárvallasýslu eða 5.724 kg/árskú og hafa aukist um 91 kg milli ára. Næst kemur Árnessýsla með 5.581 kg/árskú og 84 kg aukningu, þá A-Skaft. með 5.511 kg/árskú og 22 kg aukningu og V-Skaft. rekur lestina með 4.999 kg/árskú en mesta aukningu milli ára eða 145 kg.
Meðalbústærð eykst mikið milli ára og telur meðalbúið nú 36,3 árskýr og meðalinnlegg upp á 190.084 kg mjólkur eða 184.548 lítra. Meðalskýrslubúið hefur þannig stækkað um 3,3 árskýr og 22.066 kg innlagðrar mjólkur milli ára. Ef meðalbústærð allra búa, þ.e. búa í og utan skýrsluhalds, er reiknuð kemur í ljos að meðalinnlegg er 176.260 kg eða 171.126 lítrar sem er stækkun upp á 20.921 kg. Rétt er að taka fram að í meðalstærðum eru einungis bú með innlegg allt árið reiknuð.
Mjólkurnýting batnar milli ára og er nú 93,9% miðað við 92,9% árið áður.
Athygli vekur að efnahlutföll mjólkur eru mun lægri á austurkanti svæðisins, þ.e. í Skaftafellssýslunum, þar sem fitu% er um og undir 3,90% í innleggsmjólk og prótein% niður undir 3,30%. Í Árnes- og Rangárvallasýslum eru þessar tölur sýnu hærri eða fitu% í rétt tæpum 4% og prótein% í kringum 3,35%.
Fleiri niðurstöður úr skýrsluhaldinu eins og förgunarástæður og afdrif kálfa verða birtar hér á vefnum innan tíðar.

GJ


back to top