Hlutfall dauðfæddra kálfa lækkar milli ára

Lokahnykkurinn í uppgjöri skýrsluhalds nautgriparæktarinnar stendur nú yfir. Meðal þeirra niðurstaðna sem úr skýrsluhaldinu er að finna eru afdrif  kálfa á s.l. ári. Hér á Suðurlandi eru alls skráðir fæddir 8.477 kálfar, 4.524 naut (53,4% og 3.953 kvígur (46.6%). Af þessum 8.477 kálfum eru 1.101 skráðir fæddir dauðir eða 13,0% sem er tveimur prósentustigum minna en á árinu 2005. Þetta er ótvírætt ánægjuleg þróun þó tíðni dauðfæddra kálfa sé eftir sem áður mun hærri en eðlilegt getur talist. Ásetningur nautkálfa heldur áfram að aukast. Þannig voru 2.606 eða 58% allra nautkálfa settir á eða seldir milli búa samanborið við 2.231 eða 52% árið á undan. Það er því ekki annað að sjá en framboð á nautakjöti muni aukast á næstu tveimur árum a.m.k.

Á síðasta ári dró úr förgun kúa. Samtals er skráð förgun á 2.557 kýr samanborið við 2.970 árið áður. Sala milli búa er svipuð og árið áður en alls skiptu 178 kýr um heimilisfang á árinu 2006 en 189 árið áður. Helsta förgunarástæðan er sem fyrr júgurbólga en 42,5% kúnna hverfa yfir móðuna miklu af þeirri ástæðu. Þetta er ívið hærra hlutfall en árið 2005.

Burðartími kúnna breytist lítið milli ára þó greina megi örlitla breytingu í átt til jafnari burðartíma yfir árið. Sem fyrr bera flestar kýr á haustmánuðum, þ.e. í sept.-des. Kúm sem bera á sumarmánuðum (júní-ágúst) fjölgar umtalsvert milli ára sem og í apríl. Hins vegar fækkar burðum í janúar-mars lítillega.

GJ


back to top