Matvælastofnun fái skýrari heimildir til eftilits með áburði

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994. Samkvæmt frumvarpinu fær Matvælastofnun skýrar og ótvíræðar heimildir til eftirlits með áburði. Frumvarpið er flutt í kjölfar gagnrýni á stofnunina vegna kadmíum-málsins í vetur og felur í sér að Matvælastofnun fær skýra heimild til að krefja áburðarfyrirtæki um vottorð um kadmíuminnihald hverrar áburðartegundar fyrir innflutning eða markaðssetningu vörunnar. Stofnunin fær heimild til að afskrá áburð vegna breytinga á hráefnum, efnainnihaldi eða eiginleikum áburðarins.

Í frumvarpinu eru skýr ákvæði þess efnis að stjórnandi áburðarfyrirtækis beri ábyrgð á tilkynningu til Matvælastofnunar ef áburður samræmist ekki kröfum um efnainnihald, eiginleika áburðarins samkvæmt vörulýsingu eða öryggi. Stjórnandinn skal gera ráðstafanir til úrbóta. Ef áburðurinn telst ekki öruggur til notkunar skal taka umræddan áburð af markaði. Samkvæmt ákvæðinu telst áburður ekki öruggur ef notkun hans getur haft áhrif á heilbrigði dýra eða plantna eða orðið þess valdandi að matjurtir eða dýraafurðir verða óhæfar til manneldis. Stjórnandinn skal jafnframt, ef nauðsyn krefur, innkalla vörur sem hafa þegar verið afhentar. Samkvæmt ákvæðinu skal stjórnandi áburðarfyrirtækis án tafar upplýsa notendur áburðarins á skilvirkan og nákvæman hátt um ástæðurnar fyrir því að varan uppfyllti ekki kröfur, var tekin af markaðnum eða innkölluð.


Sjá nánar:
Frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru, nr. 22/1994


back to top