Margir kúabændur óánægðir með viðskiptabann á mjólkurkvóta til 1. des.

Margir kúabændur eru ekki alls kostar ánægðir með það ákvæði nýrrar reglugerðar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins sem bannar viðskipti með mjólkurkvóta fram til 1. desember n.k. Þeir kúabændur sem Búnaðarsambandið hefur rætt við telja þetta bann til þess fallið byggja upp spennu á kvótamarkaði sem leiði til hærra verðs á komandi kvótamarkaði. Þá komi þetta sér afar illa fyrir þá bændur sem sjá fram að að framleiða umfram greiðslumark á þessu verðlagsári sem er óvenju langt eða 16 mánuðir. Margir þeirra hafi hugsað sér að reyna að bæta við greiðslumark sitt vegna þess hve lágt verð fæst fyrir umframmjólk núna. Þá bindi þetta hednur þeirra sem ef til vill hafi hugsað sér að bregða búi eða hafa aðilaskipti á greiðslumarki. Margir vilja einnig meina að það að  heimila aðeins viðskipti með greiðslumark tvisvar á ári sé of lítið og kvótamarkað þyrfti að halda ársfjórðungslega.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis, hefur óskar eftir fundi hið fyrsta í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þar sem fjallað verði um reglugerðina. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Framsóknarflokknum. Þar segir að Sigurður Ingi telji nauðsynlegt að boðaðir séu til fundarins auk ráðuneytis, fulltrúar Landsambands kúabænda og Bændasamtakanna. Sigurður Ingi segir nauðsynlegt að ræða hvort nægjanlegt sé að setja reglugerð en ekki breyta almennum lögum og hvort að bann við sölu á mjólkurkvóta til 1. desember, m.a. stöðvun á árstíðarbundnum viðskiptum við lok kvótaárs, séu ekki óþarflega hart inngrip.


back to top