LK vill að breytingar á búvörulögum verði samþykktar

Landssamband kúabænda skilaði í gærkvöldi inn umsögn um frumvarp til breytinga á búvörulögum, til Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis. Þar kemur fram að LK vill að frumvarpið verði að lögum hið fyrsta. Umsögnin fer hér á eftir í heild sinni:

„Landssamband kúabænda fagnar því að fram sé komið frumvarp til breytinga á búvörulögum nr. 99/1993, sem gerir mögulegt að fylgja eftir gildandi ákvæðum laganna um forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði. Afar mikilvægt er að eytt verði óvissu varðandi þau réttindi og skyldur, er fylgja greiðslumarki til mjólkurframleiðslu. Í búvörulögum hafa frá upphafi, árið 1985, verið ákvæði um að mjólk sem framleidd er utan greiðslumarks skuli flutt á erlendan markað, á ábyrgð viðkomandi framleiðanda og afurðastöðvar. Frumvarpið gerir eftirfylgni með útflutningsskyldunni loks mögulega.

Vorið 2009 voru samþykktar á Alþingi Íslendinga breytingar á búvörusamningum milli bænda og ríkisins, þar sem fjárframlög vegna þeirra voru skert verulega. Þessar skerðingar standa nú í tæpum 2 milljörðum króna skv. útreikningum  Bændasamtaka Íslands. Jafnframt voru samningarnir framlengdir og gildir mjólkursamingurinn til 31. desember 2014.

Í aðdraganda að gerð núverandi samnings um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar árið 2004, var unnin ítarleg skýrsla til landbúnaðarráðherra um „Stöðumat og stefnumótun í mjólkurframleiðslu“. Að skýrslunni kom fjöldi aðila, m.a. frá ASÍ, BSRB og SA. Samningur um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar var síðan unninn á grundvelli þessarar skýrslu. Hann er einn af hornsteinum greinarinnar og byggir á framangreindum búvörulögum nr. 99/1993. Kúabændur samþykktu  síðan framangreindar breytingar á samingnum vorið 2009 í trausti þess að lagagrunnur hans stæðist, enda grundvallaratriði að sömu lög gildi fyrir alla mjólkurframleiðendur.

Undangengin misseri hefur verið í gangi stefnumótunarvinna af hálfu Landssambands kúabænda, þar sem ekki er síst horft til aukinnar samkeppnishæfni nautgriparæktarinnar á komandi árum. Í þeirri vinnu er allt rekstrarumhverfi greinarinnar undir, þar með talið kvótakerfi mjólkurframleiðslunnar. Samkvæmt samningum milli ríkisins og bænda verður það í gildi a.m.k. til 31. desember 2014. Ef gera á breytingar, er nauðsynlegt að greinin fái aðlögunartíma og bændur geti treyst því að lagaumhverfi sem þeim er sett, haldi.

Í flestum þeim löndum,  þar sem mjólkurframleiðsla er undir kvótakerfi, liggja sektarákvæði við innlendri markaðssetningu mjólkur sem framleidd er umfram framleiðslukvóta. Í því samhengi má benda á reglugerð ESB 1234/2007 um sameiginlegt skipulag landbúnaðarvörumarkaða, en 78. grein hennar er svohljóðandi:

A surplus levy shall be payable on milk and other milk products marketed in excess of the national quota as established in accordance with Subsection II.


The levy shall be set, per 100 kilograms of milk, at EUR 27,83.


Hliðstæð ákvæði eru í gildi í Noregi. Í þarlendri reglugerð 1999-06-09 nr. 763 um sjóðagjöld vegna búvöruframleiðslu og sektargreiðslur vegna framleiðslu mjólkur umfram kvóta, segir í 3. grein:

For mjølk som blir omsett ut over bruket si kvote eller uten fritak fra overproduksjonsavgift skal det i tillegg til omsetningsavgift svarast ei overproduksjonsavgift.


Satsen for overproduksjonsavgift for mjølk er 320 øre pr. liter kumjølk, og 320 øre pr. liter geitemjølk.


Verðlagsnefnd búvöru ákveður lágmarksverð mjólkur til bænda hér á landi. Jafnframt ákveður nefndin hámarks heildsöluverð helstu vöruflokka mjólkurafurða, sem gildir jafnt um allt land. Þetta er gert til að gæta hagsmuna neytenda og bænda gagnvart milliliðum í ferlinu. Þetta fyrirkomulag heldur ekki án tilvistar kvótakerfisins. Eigi hinsvegar að gera breytingar  á þessu kerfi, er lykilatriði að það sé gert að undangenginni aðlögun og að allir framleiðendur hafi þar jafna möguleika.

Mikilvægt er að koma í löggjöf ákvæðum varðandi heimavinnslu mjólkur. Landssamband kúabænda tekur undir þau sjónarmið, að heimavinnsla mjólkurafurða auki fjölbreytni á markaði, sé jákvæður valkostur fyrir neytendur og geti skapað dýrmæt sóknarfæri fyrir mjólkurframleiðendur. 

Landssambandið er jafnframt þeirrar skoðunar að sú ívilnun, 15.000 lítra framleiðsla árlega sem ekki telst til greiðslumarks, sem gert er ráð fyrir að veita heimavinnsluaðilum í frumvarpinu, sé veruleg og með henni komið mjög til móts við þá sem hana vilja stunda. Ekki er mögulegt að ganga lengra í þeim efnum, án þess að gengið verði á gerða samninga um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar, sem nú þegar hefur verið raskað verulega. Að mati Landssambandsins er forsenda þessarar ívilnunar sú, að umrædd mjólk sé framleidd, unnin og afurðirnar seldar beint frá býli.

Varðandi framkvæmd laganna, þá er það grundvallaratriði af hálfu Landssambands kúabænda, að heimavinnsluaðilum verði gert skylt að halda utanum og skila skýrslum um framleiðslu sína, líkt og öðrum afurðastöðvum í mjólkuriðnaði er skylt að gera.

Landssamband kúabænda óskar eftir því að frumvarpið fái vandaða þinglega meðferð við þriðju umræðu og verði að lögum hið fyrsta. Gert er ráð fyrir að mögulegt verði að fylgja umsögn þessari eftir á fundi með sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.



F.h. Landssambands kúabænda
Baldur Helgi Benjamínsson
Framkvæmdastjóri LK“
 


back to top