Landssamtök sauðfjárbænda svara Gylfa

Landssamtök sauðfjárbænda hafa sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu vegna ummæla Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ, um að neytendur eigi að sniðganga lambaakjöt hækki það um 25% í haust:
„Gylfi Arnbjörnsson forseti og framkvæmdastjóri ASÍ setur fram stórkarlalegar og öfgakenndar yfirlýsingar í Fréttablaðinu í dag. Hann gengur þar svo langt að hvetja innlenda neytendur til þess að sniðganga lambakjöt. Að sögn er það vegna þess að í gær gáfu Landssamtök sauðfjárbænda (LS) út nýja viðmiðunarverðskrá fyrir lambakjöt þar sem gert er ráð fyrir 25% hækkun frá fyrra ári.

LS telja af því tilefni rétt að vekja athygli á eftirfarandi: Sauðfjárbændur hafa tekið á sig verulegar aðfangahækkanir undanfarin ár. Áburðarverð hefur þrefaldast, olía ríflega tvöfaldast og rekstrarkostnaður í heild hækkað um rúm 170% frá 2005. Þessa hefur ekki gætt í afurðaverði til bænda, né verði til neytenda. Samkvæmt mælingum Hagstofunnar hefur smásöluverð lambakjöts hækkað um 36% en almennt verðlag um 56% á þessu sama tímabili (frá 2005). Raunverð til neytenda hefur því lækkað verulega án þess að ASÍ hafi séð ástæðu til að benda á það.


Sauðfjárbændur selja allt sitt kjöt á einu og sama verðinu í sláturtíðinni á haustin og verðbreytingar sem verða á markaði innanlands eða erlendis fram til þeirrar næstu skila sér ekki til þeirra. Viðmiðunarverðskráin er bara sett fram einu sinni á ári og sú sem birt var í gær gildir fram á haust 2012. Meðalverð sem bændur fengu árið 2010 var rúmar 420 krónur á kíló af lambakjöti en tæpar 120 krónur á kíló fyrir annað kindakjöts. Bændur fá ekkert greitt fyrir gærur, innmat eða sviðahausa en greiða ekki fyrir flutning á sláturfé í staðinn.


Sauðfjárbændur telja sig hafa sett fram málefnalega kröfu um afurðaverðshækkun á komandi hausti. Það er ekki síst vegna þess að vel hefur gengið á erlendum mörkuðum og verð þar farið hækkandi bæði á kjöti, gærum og öðrum hliðarafurðum. Þess vegna teljum við að útflutningurinn geti borið verulegan hluta af þessari hækkun til bænda, en ekki er sjálfgefið að hún þurfi að fara beint út í verðlagið hér innanlands. Hækkunin er ekki sett fram til að reyna að hækka verð innanlands til samræmis við verð til bænda erlendis, enda yrði það talsvert meiri hækkun.


Þá er rétt að ítreka að viðmiðunarverðskrá sauðfjárbænda er ekki bindandi fyrir afurðastöðvar og undanfarin ár hafa bændur ekki fengið greitt í samræmi við hana. Markaðurinn ræður verðinu á öllum stigum. Við setjum verðskrána einfaldlega fram því við teljum kröfuna málefnalega. Við erum að setja fram hvað við viljum fá fyrir okkar vöru, eins og lög heimila, en vald okkar nær ekki lengra. ASÍ teldi það sennilega ósanngjarnt að kjör væru ákveðin þannig að sambandið setti fram launakröfur og síðan væri það atvinnurekenda að ákveða hvort að þeir færu eftir þeim.


Fjölmargir félagsmenn ASÍ vinna við úrvinnslu á lambakjöti og öðrum landbúnaðarafurðum. Ef forseti sambandsins telur þau störf engu máli skipta þá ætti hann e.t.v. að íhuga hvort hann er á réttri hillu. Það er í sjálfu sér ágætt ef forseti ASÍ hyggst láta verðlagsmál meira til sín taka, en það verður að gera kröfu um að það sé ekki gert með þeim öfgakennda, ómálefnalega og ósanngjarna hætti sem hann gerir í Fréttablaði dagsins.“


back to top