Kýrnar í Tröð gera harða hríð að Íslandsmeti

Uppgjör skýrsluhalds nautgriparæktarinnar fyrir október er lokið og standa meðalafurðir á árskú nú í 5.318 kg yfir landið allt. Afurðir eru nokkru meiri hér á Suðurlandi eða 5.431 kg/árskú til jafnaðar. Afurðir eru sem fyrr mestar í Árnesýslu eða 5.504 kg/árskú og síðan 5.486 kg/árskú í Rangárvallasýslu.
Afurðahæsta búið á landinu er hjá Steinari Guðbrandssyni í Tröð í Borgarbyggð eða fyrrum Kolbeinsstaðahreppi. Þar hafa kýrnar mjólkað 7.945 kg/árskú til jafnaðar síðustu 12 mánuði og eru nú komnar mjög nærri Íslandsmeti kúnna í Akbraut frá 2008 en það er 8.159 kg. Hér á Suðurlandi eru afurðir s.l. 12 mánaða mestar hjá Arnari Bjarna og Berglindi í Gunnbjarnarholti þar sem 109,6 árskýr hafa mjólkað að jafnaði 7.618 kg. Þau eru í fjórða sæti á landsvísu. Lífsval ehf. Í Flatey í Hornafirði er í öðru sæti á Suðurlandi og sjötta á landsvísu með 7.530 kg/árskú og þeim fylgir svo fast á hæla góður listi gróinna sunnlenskra afurðabúa. Þar má nefna Reykjahlíð, Kirkjulæk, Ytri-Skóga, Hraunkot, Helluvað, Arakot, Stóra Ármót og Fjall.

Afurðahæsta kýrin á landinu m.v. afurðir síðustu 12 mánuði er Blanda 422 Stígsdóttir 97010 í Keldudal í Hegranesi með 11.864 kg mjólkur. Hún hefur skotist upp fyrir nágranna sinn í Egg í Hegranesi, Örk 166 sem er í öðru sæti með 11.808 kg mjólkur. Af sunnlenskum afurðakúm standa þrjár kýr í Gunnbjarnarholti efstar; Fjara 996 Hersisdóttir 97033 með 11.798 kg, Þura 435 Draumsdóttir 03015 með 11.519 kg og Habbý 371 Þverteinsdóttir 97032 með 11.501 kg.


Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar


back to top