Kynbótasýning á Gaddstaðaflötum við Hellu

Á morgun, þriðjudaginn 15. maí, verður byrjað að taka við skráningum á kynbótasýninguna á Gaddstaðaflötum við Hellu. Tekið er við skráningum í síma 480-1800 eða á heimasíðu Búnaðarsambandsins www.bssl.is. Síðasti skráningar- og greiðsludagur er 18. maí. Reiknað er með að sýningin standi frá 29. maí til 8. júní. Lokað er fyrir skráningu um leið og sýning er fullbókuð þó svo skráningafrestur sé ekki útrunninn.
Hafi hross verið fulldæmt á almanaksárinu getur eigandi valið að láta nýjasta byggingardóm úr fullum dómi standa við endursýningu. Ekki er hægt að koma með hross í byggingardóm og ætla síðan að koma á næstu sýningu með hrossið í reiðdóm.

Sýningargjald á hvert hross er 18.500 kr. Ef hross er einvörðungu skráð í byggingardóm eða hæfileikadóm er sýningargjaldið 13.500 kr. Það skal hins vegar skýrt tekið fram að nauðsynlegt er að geta þess um leið og hrossið er skráð að það eigi einungis að mæta í byggingardóm eða hæfileikadóm, ef það er ekki gert er litið svo á að það eigi að fara í fullnaðardóm. Hafi greiðsla ekki borist í síðasta lagi í lok síðasta skráningardags er viðkomandi hross ekki skráð í mót.

Sýningargjöld er hægt að greiða á skrifstofu Búnaðarsambandsins að Austurvegi 1 á Selfossi eða inn á reikning  nr. 0152-26-1618, kt: 490169-6609. Ef greitt er í banka er mikilvægt að biðja bankann um að faxa strax greiðslukvittun til Búnaðarsambandsins, faxnúmerið er 480-1818. Mjög brýnt er að merkja greiðslu með númeri og nafni hrossins. Ef greitt er í gegnum netbanka vinsamlegast sendið greiðslukvittun á netfangið helga@bssl.is. Hægt er að greiða sýningargjöld með kreditkorti. Endurgreiðsla á sýningargjöldum kemur aðeins til greina ef látið er vita um forföll fyrir kl. 16:00 síðasta virka dag fyrir sýningu. Þannig ef sýning hefst á mánudegi þarf að vera búið að afskrá hrossið á föstudegi fyrir lokun skrifstofu. Ekki er um fulla endurgreiðslu að ræða heldur einungis 11.000 kr fyrir hross sem hefur verið skráð í fullnaðardóm en 8.000 kr fyrir þau hross sem hafa einungis verið skráð í byggingar- eða hæfileikadóm. Slasist hross eftir að sýning hefst er hægt að framvísa læknisvottorði til að fá endurgreiddan hluta af sýningargjaldi.

Munið að kynna ykkur reglur um einstaklingsmerkingar, járningar, blóðsýni, DNA-sýni og spattmyndir á heimasíðunni www.bssl.is. Á sömu heimasíðu verður röðun hrossa birt þegar búið er að raða niður á dagana.


Búnaðarsamband Suðurlands


back to top