KS fær styrk úr minningarsjóði dr. Halldórs Pálssonar

Á Fræðaþingi landbúnaðarins í gær (15.feb.) var Kaupfélagi Skagfirðinga veittur 3ja milljóna króna styrkur úr minningarsjóði dr. Halldórs Pálssonar fyrrverandi búnaðarmálastjóra. Styrkinn fær KS fyrir þróunarstarf sitt í kjötmati með aðstoð tölvutækninnar en búnaðinn flutti KS inn frá Ástralíu á liðnu ári og var hann prófaður hjá kjötafurðastöð KS í síðustu sláturtíð. Búnaðinum er ætlað að meta kjötskrokka á samræmdan hátt og minnka þar með líkur á misjöfnu kjötmati sem alla tíð hefur byggst á huglægu mati kjötskoðunarmanna.
Í máli dr. Ólafs R. Dýrmundssonar, formanns sjóðsstjórnar, kom fram að dr. Halldór Pálsson hefði allan sinn starfsaldur verið óþreytandi í vinnu sinni við að bæta kjötgæði íslensku sauðkindarinnar og því væri við hæfi að veita Kaupfélagi Skagfirðinga styrk úr sjóðnum að þessu sinni. Einnig kom fram að búnaðurinn sem settur var upp á Sauðárkróki væri jafnframt sá fyrsti sem settur væri upp utan Eyjaálfu.

Andrés Viðarsson, forstöðumaður kjötafurðarstöðvar KS tók við styrknum fyrir hönd KS og í þakkarræðu sinni kom fram að verkefnið hefði fengið afar jákvæð viðbrögð meðal forystumanna bænda, ráðunauta og bændanna sjálfra. Þróunarstarfinu væri ætlað að koma öllum sauðfjárbændum landsins til góða.


back to top