Klaufskurðarbásinn er kominn

Klaufskurðarbás Kynbótastöðvar Suðurlands er kominn og tilbúinn að takast á við verkefni. Kynbótastöðin mun annast rekstur básins og klaufskurðarmeistari Kynbótastöðvarinnar verður Guðmundur Skúlason (Mummi) sem sunnlenskir bændur þekkja sem afleysingamann í sæðingum. Ekki er boðið upp á að bændur fái básinn leigðan til að annast klaufskurðinn sjálfir.
Mummi sótti námskeið í klaufskurði í Danmörku sl. vor ásamt nafna sínum Guðmundi Hallgrímssyni á Hvanneyri sem sjá mun um klaufskurð á samskonar bás á Vesturlandi.

Fljótlega mun koma til landsins danskur klaufskurðarmeistari og verður þá höfð kynning fyrir áhugasama bændur á Stóra-Ármóti. Það verður nánar auglýst síðar.

Næstu daga og vikur mun Mummi nota tímann til að læra vel á básinn í raunverulegri notkun. Endanleg ákvörðun um verðlagningu básins mun ekki liggja fyrir fyrr en nokkur reynsla verður komin á notkun hans og afköst verða ljós. 

Fyrsta verkefni básins verður innt af hendi í dag í Hrunamannahreppi. Tekið er á móti pöntunum á skrifstofu BSSL í síma 480-1800.


back to top