Hrútaverðlaun sauðfjársæðingastöðvanna 2015

Við lok fagráðstefnu sauðfjárræktarinnar á föstudaginn voru veitt verðlaun sæðingastöðvanna fyrir besta lambaföðurinn starfsárið 2013-2014 og fyrir mesta alhliða kynbótahrútinn 2015. Faghópur sauðfjárræktar ákveður hvaða hrútar eru valdir ár hvert. Saumur 12-915 frá Ytri-Skógum fékk verðlaun sem besti lambafaðirinn og Steri 07-855 frá Árbæ fékk verðlaun sem mesti alhliða kynbótahrúturinn. Ræktendur hrútanna, sem verðlaunaðir voru, hlutu farandgripi sem Sigríður Kristjánsdóttir á Grund útbjó þegar þessar verðlaunaveitingar hófust árið 2009. 

Þetta kemur fram á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins rml.is en þar má líka sjá myndir af verðlaunahöfum og verðlaunahrútunum, en umsagnir um hrútana má lesa hér fyrir neðan.

Saumur 12-915 – Besti lambafaðir sæðingastöðvanna starfsárið 2013-2014

Saumur 12-915 fæddist vorið 2012 á Ytri-Skógum undir Austur-Eyjafjöllum. Hann er af sæðingastöðvunum útnefndur „Besti lambafaðirinn“ vegna lamba sem til skoðunar komu haustið 2014. Saumur er úr ræktun Ingimundar Vilhjálmssonar í Ytri-Skógum.
Saumur vakti athygli strax haustið 2012 sem einstaklingur en þá var hann best gerða hrútlambið sem skoðað var í Ytri-Skógum, gríðarlega vel holdfylltur hvar sem á honum var tekið. Að baki Saum standa margir þeir úrvalsgripir sem notaðir hafa verið í Ytri-Skógum undanfarin ár. Af sæðingahrútum koma fyrstir fyrir í ættartré hans Prjónn 07-812, At 06-806 og Bramli 04-952.
Saumur var valinn á sæðingastöð haustið 2013 á grunni afkvæmarannsóknar í Ytri-Skógum. Hann var afgerandi sigurvegari í þeirri rannsókn fyrir alla þá eiginleika sem skoðaðir voru. Hann fékk því gríðarlega mikla notkun fyrsta veturinn á sæðingastöð og gríðarlega stór hópur afkvæma hans kom til skoðunar haustið 2014.

Afkvæmi hans eru þéttvaxin, lágfætt með sívalan vöðvafylltan bol, gríðarþykkan bakvöðva með hóflegri fitu og feikilega breiðar og holdfylltar malir og afbragðslærahold. Saumur gefur hreinhvít lömb með góða ull ásamt því að afkvæmi hans eru prúðar kindur á velli. Þau voru vel í meðallagi væn (119 í einkunn fyrir fallþunga í uppgjöri fjárræktarfélaganna). Sum afkvæmi Saums eru þó full bolstutt en samsvara sér vel á velli og víða mátti finna yfirburðaeinstaklinga undan honum á héraðssýningum haustið 2014. Kynbótamat hans fyrir skrokkgæði er hátt, 123 fyrir gerð og 114 fyrir fitu.

Saumur er því vel að því kominn að hljóta nafnbótina „Besti lambafaðirinn“ árið 2014. Að lokinni afkvæmarannsókninni í Ytri-Skógum 2013 féllu þau orð, að hér væri á ferðinni hinn „nýi“ Raftur og Kveikur. Hvort hann markar sömu spor og þeir hafa gert kemur í ljós á allra næstu árum.

Steri 07-855 – Mesti alhliða kynbótahrúturinn 2015

Mesti alhliða kynbótahrútur stöðvanna 2015 er að þessu sinni kollóttur hrútur, hvítur að lit sem fæddur er í Reykhólasveitinni. Hrúturinn heitir Steri 07-855 og kemur úr ræktun Þórðar Jónssonar bónda í Árbæ. Þórður seldi Stera, lambið, norður að Bæ í Árneshreppi haustið 2007 og þaðan lá hans leið inn á sæðingastöðvarnar fjórum árum síðar.
Steri er af heimakyni í föðurætt, en föðurfaðir hans er Frakksson 03-974 frá Árbæ. Móðurættin er að hluta frá Heydalsá, en Ægir 01-916 er móðurfaðir hans.
Norður á Ströndum fékk Steri mikla notkun enda kom fljótt í ljós að þar fór mikill kynbótagripur. Að aflokinni afkvæmarannsókn í Strandasýslu haustið 2011 hófst hans ferill sem sæðingastöðvahrúts. Hann þjónaði sameiginlegu ræktunarstarfi sem stöðvarhrútur í þrjá vetur en vorið 2014 varð að fella hann sökum barkabólgu. Þá hafði hann verið notaður á 1.969 ær og eftir haustið skilað 530 fullstiguðum lambhrútum, þar af fjölda af toppum. Tveir afkomendur Stera hafa þegar verið teknir í hóp stöðvahrúta. Þeir eru sonur hans Kroppur 10-890 frá Bæ og sonarsonur hans Sproti 12-936 frá Melum.

Afkvæmi Stera eru yfirleitt breiðvaxin, þéttvaxin og þroskamikil. Kostir þeirra geta hins vegar blekkt augað því þessi lágfættu vel gerðu lömb eru oft ullarstutt og láta fyrir vikið ekki mikið yfir sér í hjörðinni en skerast fádæma vel. Fullyrða má að Steri sé einn athyglisverðasti kollótti hrúturinn sem stöðvarnar hafa átt og einn öflugasti alhliðakynbótahrúturinn sem boðinn hefur verið fram á síðustu árum. Hann hefur ekki verið í hópi mestu fituleysishrúta en stendur þar um meðallag samkvæmt kynbótamati með einkunnina 100. Kynbótamat hans fyrir frjósemi hefur verið stígandi og stendur í dag í 107 stigum. Yfirburðir hans liggja í geysilega góðri gerð afkvæma og mikilli mjólkurlagni dætra. Hann stendur í 115 stigum fyrir gerð og 116 fyrir mjólkurlagni. Samkvæmt núgildandi kynbótamati er enginn stöðvahrútur, hvorki lifandi né dauður, sem nær einkunninni 115, bæði fyrir gerð og mjólkurlagni. Þungaeinkunn samkvæmt skýrslum fjárræktarfélaganna var á bilinu 127 til 131 þau ár sem Steri var á stöð.

Steri er hrútur sem markað hefur spor í íslenskri sauðfjárrækt og er vel að því kominn að hljóta heiðursnafnbótina „kynbótahrútur stöðvanna 2015“.


back to top