Hrafnhetta 153 í Hólmum er fallin

Íslandsmethafinn í æviafurðum, Hrafnhetta 153 í Hólmum í A-Landeyjum, var felld þann 15. maí s.l. eftir sérlega farsæla og langa ævi. Hrafnhetta var fædd í febrúar 1992, dóttir Haka 88021, og var því orðin 18 vetra.
Hún bar fyrsta kálfi sínum 24. október 1994 og hafði mjólkað í 15,2 ár samtals 111.194 kg mjólkur eða 7.315 kg að meðaltali á ári.
Það eru ekki margar kýr sem ná svo háum aldri sem Hrafnhetta gerði og sannarlega er eftirsjón að slíkum grip. Hún náði hins vegar ekki að festa fang eftir að hún bar síðast þann 4. janúar 2009.
Ef æviafurðir Hrafnhettu eru metnar til verðs þá skilaði Hrafnhetta 8.101.500 krónum miðað við núverandi afurðastöðvarverð en meðalefnamagn mjólkur hjá henni var 3,78% fita og 3,52% prótein. Hún skilaði því til jafnaðar rétt tæpum 533 þús. krónum í tekjur á ári.


back to top