Hlaut örorku eftir árás kýr

Hæstiréttur hefur ómerkt dóm héraðsdóms Reykjavíkur í máli unglingsstúlku sem varð fyrir því að nýborin kýr réðst skyndilega á hana. Kýrin stangaði stúlkuna og felldi og traðkaði síðan á andliti hennar. Rétturinn vísaði málinu á ný heim í hérað.

Tildrög slyssins voru þau að í ágúst 2002 fór stúlkan, sem þá var 14 ára, ásamt föður bóndans á tilteknum sveitabæ að reka heim kú, sem var nýbúin að bera. Stúlkunni hafði ekki verið gerð grein fyrir því að nýbornar kýr geti verið fólki hættulegar.


Kýrin  réðst skyndilega og fyrirvaralaust á stúlkuna og stakk höfði í kvið hennar með þeim afleiðingum, að stúlkan féll á bakið á þúfótt undirlag. Kýrin stappaði síðan á höfði stúlkunnar. Faðir bóndans var sjónarvottur að slysinu. Hann var með barefli og tókst að berja kúna frá stúlkunni með þeim afleiðingum að kýrin réðst á hann sjálfan, þó án þess að hann meiddist. Stúlkan slasaðist hins vegar og er í dag metin með 5% varanlega öroku.


Í dómi Hæstaréttar segir að hjá héraðsdómi Reykjavíkur sé því slegið föstu að faðir bóndans hafi sýnt af sér saknæmt gáleysi þegar kýrin var sótt, án þess að nánar sé útskýrt á hverju sú niðurstaða byggðist. Einnig gerir hæstiréttur athugsemd við að ekki hafi verið tekin afstaða til matsgerðar sem lá fyrir í málinu. Dómur Héraðsdóms er því ómerktur og málinu vísað aftur á byrjunarreit heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju.


Ríkissjóður greiðir málskostnað stúlkunnar.

Dómur Hæstaréttar


back to top