Hjákátlegt að tala um 128 Kb/s flutningsgetu sem alþjónustu

Vegna fréttar um framlag úr jöfnunarsjóði alþjónustu til Símans er ekki laust við að manni finnist hjákátlegt að tala um 128 Kb/s eða ISDN sem alþjónustu fyrir þá íbúa landsins sem búa í dreifbýli. Slík tenging getur í dag alls ekki talist ásættanleg og setur fólki og atvinnulífi í dreifbýli miklar skorður og takmarkar mjög samkeppnishæfni þeirra sem við slíkt búa.
Á sama tíma og einstaklingum í þéttbýli býðst t.d. af hendi Símans allt 12 Mb/s sítenging verða aðrir íbúar landsins að sætta sig við að hámarki eitthvað sem kallast ISDN+ með hámarksflutningsgetu upp á 128Kb/s.
Þetta er ástand sem að ekki getur talist sanngjarnt og vont að búa við. Það er því mjög brýnt að skilgreiningu á alþjónustu verði breytt og mörkin hækkuð frá því sem er í dag, þ.e. lágmarksflutningsgeta sem allir búi við verði mun hraðari en 128 Kb/s.


back to top