Haustfundur HS 2012

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands


Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn í félagsheimili hestamannafélagsins Sleipnis, miðvikudaginn 17. október 2012.

Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Sumarexem ónæmismeðferð og meðhöndlun, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir
3. Hrossarækt –staða og framtíðarsýn, Guðlaugur Antonsson
Kaffihlé
4. Skýrsla starfshóps, aðkoma kynbótahrossa að landsmótum, Þórdís Erla Gunnarsdóttir
5. Önnur mál


1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og bauð fundarmenn og frummælendur velkomna á hinn árlega haustfund samtakanna. Hann lýsti ánægju sinni með góða fundarsókn. Kynnti frummælendur Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur, Guðlaug Antonsson og Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur. Kom með tillögu um að Hrafnkell Karlsson yrði fundarstjóri og Halla Eygló Sveinsdóttir fundarritari. Engar mótbárur komu fram við því. Að því búnu fór hann yfir dagskrá fundarins og minnti menn á forsögu þess að HS ákvað að styrkja rannsókn á sumarexemi um 6.000.000 kr. á aðalfundi sínum 31. mars 2011.


2. Sumarexem ónæmismeðferð og meðhöndlun, Sigurbjörg Þorsteinsdóttir
Sigurbjörg þakkaði fyrir að fá að koma á fundinn til að kynna verkefnið sem enn er í fullum gangi. Hún fór stuttlega yfir hvað veldur sumarexemi. Sumarexem er ofnæmi gegn próteinum sem berast í hross við bit mýflugna af ættkvíslinni Culicoides en tegundir af þeirri ættkvísl  lifa ekki hér á landi. Sumarexem er dýravelferðarmál og mikið vandamál í hrossaútflutningi. Tíðni sumarexems í útfluttum hrossum er 35%  og getur farið upp í 50%. Meðan tíðni sjúkdómsins er 5-10% í íslenskum hestum fæddum erlendis. Hvers vegna er þessi munur? Kenningin sú að hryssur sem bitnar eru á meðgöngu myndi mótefni sem síðan berst með broddmjólkinni í folöldin.

 Rúmlega fjórðungur fólks í vestrænum ríkjum þjáist af ofnæmi, það eru því miklir peningar lagðir í rannsóknir á því, samt hefur lækning ekki fundist. Afnæming hefur verið stunduð í  100 ár með því að sprauta ofnæmisvökvum í smáum skömmtum undir húð yfir langan tíma. Nú horfa menn hins vegar til þess að reyna afnæmingu í gegnum slímhúð en það er mun einfaldara fyrir sjúklinginn þar sem hann þarf ekki að sprauta sig. Gallinn reyndar sá að það þarf mun meira magn af ofnæmisvakanum. Rannsóknir eins og þessar eru langtíma rannsóknir og kosta gríðarlega fjármuni. Grunnrannsóknir á sumarexemi hafa staðið í 12 ár og enn er niðurstaða ekki fengin.
Verið er að reyna þrjár leiðir til að þróa ónæmismeðferðir gegn sumarexemi;

1) Nota hreina ofnæmisvaka, borið saman sprautun í eitla og í húð. Þessi rannsókn er að klárast og lofar góðu.

2) Nota ofnæmisvakagen í veiruferjum. Veirubóluefni eru notuð í hross gegn inflúensu. Nota á tvær veirur Equine gammaherpesvirus 2 og Baculoveiru. Þessi rannsókn er að hefjast.

3)  Nota bygg sem tjáir ofnæmisvaka til að fóðra hross og afnæma um slímhúð.

 Sigurbjörg Þorsteinsdóttir sagði að í raun hefði ekki mikið gerst síðan hún kom síðast á fund hjá HS, enda væru rannsóknir af þessu tagi tímafrekar. Verkefnið hefði hins vegar stoppað ef ekki hefði komið til þessi fjárstuðningur frá HS og hann hefði því verið gríðarlega mikilvægur. Þakkaði hún Hrossaræktarsamtöku Suðurlands kærlega fyrir stuðninginn og sagði að samtökin fengju senda skýrslu um stöðu rannsóknarinnar um áramótin.

Umræður:
Nokkrar umræður urðu um erindi Sigríðar þar sem meðal annars kom fram að enn sér ekki fyrir endann á verkefninu og mjög erfitt að segja til um hvenær hægt verður að fara að bólusetja hross við sumarexemi. Hins vegar verður hugsanlega fljótlega hægt að meðhöndla veik hross. Spurt var út í fjármögnun á rannsókninni og Sigurbjörg svaraði því til að það væru allir peningar að verða búnir en vonandi tækist að halda áfram að fjármagna þessar rannsóknir. Einnig kom fram að þegar búið verður að finna bóluefnið þá verður að enda rannsóknina á því að sanna virkni þess og það kemur til með að taka nokkur ár. Það þyrfti að bólusetja um 20 hross og flytja þau út og sjá hvernig þeim reiddi af á sama tíma þyrfti að senda út önnur 20 hross sem ekki hefðu verið meðhöndluð til samanburðar. Bólusetningar og afnæmingartilraunir, sem verður að gera í hestum, eru langdýrasti og flóknasti hluti verkefnisins.


3. Hrossarækt og hestamennska –staða og framtíðarsýn, Guðlaugur Antonsson
Hrossarækt og hestamennska, staða og framtíðarsýn. Það er umfangsmikið málefni sem vart verður gert skil í stuttu erindi. Málefnið er líka hægt er að nálgast frá fjölmörgum hliðum.
Ef við snúum okkur fyrst að hrossaútflutningi þá má segja að nokkuð nýr veruleiki blasi við hrossaræktendum í dag miðað við það sem var á árum áður hvað varðar markaðsmál og sölu hrossa. Það er staðreynd að þegar best lét í útflutningi á íslenskum reiðhrossum fyrir alllöngu síðan var verið að flytja úr landi allt að 4500 hross árlega. Síðustu árin þar sem útflutningurinn fór yfir 2000 hross voru árin 1995, 1996 og 1997 þ.e. fyrir um fimmtán til sextán árum. Á árunum 2001 til og með 2009 varð útflutningurinn mestur 2008 1776 hross. Nú síðustu ár hefur útflutningurinn verið talsvert minni; 2010, 1158 hross; 2011, 1136 hross og nú í ár eru farin út 860 hross sem er þó meira en á sama tíma 2010 og 2011. Auðvitað vitum við líka að þó hrossin séu umtalsvert færri nú en áður var þá eru þau mun verðmeiri þannig að tekjurnar hafa langt í frá minnkað í hlutfalli við færri hausa. Þetta dugir þó ekki til ef hrossunum fjölgar jafnt og þétt sem sett eru á. 

Það er mitt álit að ásetningur hrossa á Íslandi sé kominn yfir þolmörk. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum fæðast nú árlega hátt í 11000 folöld á Íslandi og verið er að setja á hátt í 7000 þeirra. Heildarfjöldi hrossa í landinu samkvæmt forðagæsluskýrslum er um 80 þúsund hross sem er talsvert meira en þörf er fyrir til að anna eftirspurn og halda uppi þokkalegum gangi í hrossaræktinni. Á árunum 2001–2005 voru hrossin á milli 71 og 74 þúsund þannig að þeim hefur fjölgað um nokkur þúsund bara síðan þá. Ljóst er að bæði fyrr og nú er hnífurinn sterkasta ræktunartækið á Íslandi. Gæfa okkar Íslendinga er að við getum með ágætu móti afsett gagnslaus hross. Því er ekki til að dreifa víða erlendis og ef hægt er, þá gegn greiðslu.

Án efa er það þó ekki bara offramboð sem hrjáir markaðinn, efnahagsástandið, ekki bara á Íslandi heldur um allan heim á mikinn þátt í samdrættinum. Íslenski hesturinn á í mikilli samkeppni við önnur hrossakyn varðandi áhuga og iðkendur. Við Íslendingar þurfum líka alltaf að standa vörð um þá kenningu að íslenskur hestur fæddur og uppalinn á Íslandi sé hinn „original“ íslenski hestur og hafi ákveðna sérstöðu sem slíkur. Allt samstarf á vettvangi FEIF þarf að vera með þeim formerkjum að við höldum þar okkar forystu á öllum sviðum en jafnframt að hinar þjóðirnar meti það ekki svo að vegna drottnunartilburða sé rétt að gefa okkur upp á bátinn.

Sumir hafa nefnt að ekki sé verið að rækta rétta hestgerð, ekki sé verið að rækta fjölskylduhross. Þegar málin eru skoðuð nánar kemur hinsvegar í ljós að það eru helst góð hross, keppnishross og kynbótahross sem eftirspurnin er eftir.  Víða erlendis er það nokkuð útbreidd skoðun að rækta eigi markvisst mismunandi tegundir íslenska hestsins eftir fyrirhugaðri notkun. Það liggur í hlutarins eðli að stórlega myndi draga úr erfðaframförum í stofninum við slíka uppskiptingu ræktunarmarkmiða. En hvers vegna kemur þessi umræða upp öðru hvoru að venjulegir reiðhestar fáist ekki á markaðnum. Getur verið að að hestar séu skemdir í tamningu af því það sé verið að reyna að gera úr þeim keppnishest?  Mjúkir töltarar með meðal fótaburð eru ekki keppnishestar nema með einhverjum tilfæringum og látum.

Brennandi áhugi er á ræktunarstarfinu og ánægjulegt hversu mikið kemur af  hrossum til kynbótadóms. Hvernig notum við best þann hryssustofn sem við búum við? Að mínu mati eru of margir stóðhestar í landinu. Ég er sannfærður um að ef hæst dæmdu hestarnir, afkvæmasýndir hestar með fyrstu- og heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og þeir hæst dæmdu í einstaklingsdómi væru betur nýttir mætti hraða erfðaframförinni. Sérstaklega held ég að of mikil notkun uppkjaftaðra ungfola hafi skaðað okkur í samanburði við önnur lönd og hægt á erfðaframförinni. Hryssurnar dreifast á of marga hesta.

Einn þáttur nátengdur hrossafjöldanum eru beitarmál. Enginn vafi er að nóg gras er til í landinu til að framfleyta öllum þeim hrossum sem til eru. Hinsvegar er einnig ljóst að við hestamenn þurfum að passa okkur á að jafna beitina meira en gert er í dag. Til eru einstaka jarðir sem eru í orðsins fyllstu merkingu uppnagaðar. Mér finnst menn líka alltof viðkvæmir fyrir því þegar bent er á hvað megi betur fara í beitarmálum. Ofbeit er þáttur sem tiltölulega auðvelt er að ráða bót ef vilji er fyrir hendi. 

Því hefur verið haldið fram af sumum að ríkisvaldið hafi ekki stutt nógsamlega við hrossarækt og hestamennsku og því sé svo komið sem raunin er t.d. í markaðsmálum. Ef aðeins er skoðað í þann frumskóg kemur þó ýmislegt í ljós. Framleiðnisjóður landbúnaðarins veitti á sínum tíma umtalsverðum fjármunum til verkefna sem snúa að hestageiranum. Hestamiðstöð Íslands og Átak í hrossarækt voru tímabundin verkefni til fimm ára á árunum 2000-2004 og voru þau fjármögnuð af stjórnvöldum. Síðar var fyrirkomulaginu breytt og frá árinu 2008 hefur styrkjum til fjölbreyttra verkefna á sviði hrossaræktar; kynbóta og meðferðar hrossa, hestamennsku og markaðsmála verið úthlutað af þróunarfjárnefnd hrossaræktarinnar sem starfar á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins. Merkasta framlag hins opinbera á síðari árum til greinarinnar er svo án efa sá stuðningur sem fékkst til byggingar reiðhalla. Þær hafa reynst gríðarleg lyftistöng fyrir hestamennskuna.

Landsmót hestamanna er sér kapítuli út af fyrir sig. Ekki er nokkur spurning að landsmót og raunar heimsmeistaramót eru einhverjir stærstu auglýsingagluggar íslenskrar hrossaræktar. Hvernig nýtum við þann auglýsingaglugga á sem bestan hátt eru skiptar skoðanir um, eins og dæmin sanna. Landsmótin hafa ekki verið að reka sig og er það stóralvarlegt mál. Við gerum kröfur um þetta eða hitt sé til staðar á landsmóti, ákveðinn fjöldi hrossa, vellir af bestu gerð, ákveðnar keppnisgreinar, sýningargreinar, risaskjáir, nýjungar o.s.frv.  En þegar upp er staðið reka mótin sig ekki og á því þarf að finna lausnir, hestageirinn mun ekki geta borðið það til lengdar að fleyta áfram stórtapi af landsmótum. Að mínu mati er það stærsta og mikilvægasta verkefnið varðandi landsmótin í framtíðinni hvernig við ætlum að reka þau. Hvað varðar heimsmeistaramót þá er eins og allir vita mótið í Berlín næst á dagskrá og við þurfum að sjálfsögðu að taka þann slag hvernig við ætlum að nota það á sem bestan hátt okkur til framdráttar. Í kynbótageiranum höfum við gefið hæst dæmdu hrossunum í hverjum flokki tækifæri á að fara hvar sem þau eru sýnd, aðeins er skylda að þau séu fædd á Íslandi. Væri vænlegra fyrir okkur að einskorða þetta við hross sýnd hér heima, þannig að við styrkjum í leiðinni útflutning á verðmætum hrossum? Danir hafa nú ákveðið að stíga slíkt spor að nokkru leyti, en þau hross sem munu koma fram fyrir hönd Dana verða að vera sýnd í Danmörku. Ljóst er að markaðsstarf fyrir íslenska hestinn er endalaust verkefni.

Erfðaframfarir í íslenska hrossastofninum á síðastliðnum 20-30 árum hafa verið stórstígar, allir útreikningar sýna það. Ef horft er á myndir frá landsmótum og öðrum uppákomum fyrri ára kemur berlega í ljós hvernig ganglag hefur færst til betri vegar, t.d. töltið orðið hreinna, skrefið stærra og fótaburður meiri. Vissulega hefur reiðmennskunni líka miðað vel á veg en fráleitt er að eigna henni nema lítinn hluta framfaranna. Við skulum ekki vanmeta snilli sumra okkar gengnu  reiðmanna sem riðið hafa um gjallarbrú, ég fullyrði að þeir stæðu jafnfætis þeim bestu í dag með þeirri aðstöðu og þekkingu sem við höfum núna. 

Hinu verður heldur ekki neitað að stórstígar framfarir hafa einnig orðið á sköpulagi íslenska hestsins undanfarna áratugi. Vissulega voru líka til glæsigripir áður fyrr en þeir eru bara svo miklu fleiri í dag.

Sæðingar hafa verið að aukast á síðustu árum. Í sjálfu sér sé ég ekki annað en þær geti verið ágætar til síns brúks svo framarlega ekki er verið að sæða með sama hestinum ár eftir ár miklu meira en hann gæti annað við náttúrulegar aðstæður. Í hlutarins eðli liggur að slík notkun gæti aukið skyldleikarækt í stofninum í stærri skrefum en æskilegt er. Í gildi er reglugerð um sæðingar sem þarf að endurskoða og verður það vonandi gert á næstunni. Á hinn bóginn finnst mér að allt föndur við hesta eða hryssur sem ekki geta tímgast með náttúrulegum hætti séu hlutir á verulega gráu svæði og er ég þá að tala um ef gallinn sem verið er að komast framhjá er sannarlega arfgengur. Ræktendur ættu ekki að nota hesta sem hafa rautt T fyrir eistnagalla eða rautt S vegna spatts í WorldFeng því þessir gallar erfast.

Þrátt fyrir mikla umræðu um áverka á hrossum hefur ekkert unnist. Áverkar eru algengari í ár en næstu þrjú ár á undan. Samt voru viðurlög hert á síðasta ári. Niðurstaða fagráðs var að ekki dugi annað en herða enn frekar viðurlög  við áverkum eftir sýningar. Eins og áður verður bréf sent til þeirra knapa sem eru með áverka úr 25% eða meira af þeim sýningum sem þeir ríða, en að þessu sinni eru það 17 knapar. Þrír knapar náðu þeim árangri að vera með engan skráðan áverka á árinu þau Anna Sigríður Valdimarsdóttir, Gísli Gíslason og Olil Amble og óska ég þeim til hamingju með það.

Félagskerfi hestamanna er þáttur sem nokkuð hefur verið í umræðunni á síðustu vikum, einkum eftir að birtist grein í Eiðfaxa um málið. Mín skoðun er sú að kerfið sé í raun að virka ágætlega eins og það er og tal sumra sem ekki hafa að neinu marki starfað innan félagskerfisins um að þar sé stöðugur núningur og ósætti sé mikið orðum aukið. Auðvitað skiptast menn á skoðunum og eru ekki alltaf á einu máli.

Að lokum vil ég segja þetta. Þó blikur séu á lofti nú um stundir í ýmsum okkar málum tel ég að tiltölulega bjart sé yfir íslenskri hrossarækt og hestamennsku, áhuginn á ræktunarstarfinu er gífurlegur og þar liggur drifkrafturinn. Berum við gæfu til að standa saman að verkefninu og gæfu til að dreifa ekki um of kröftum okkar í mismunandi áherslur, eiginhagsmunapot og flokkadrætti þá trúi ég því að íslensk hrossarækt muni halda sjó um ókomna framtíð.

Umræður:
Nokkrar umræður urðu um erindi Guðlaugs m.a. hvort ekki þyrfti að banna notkun á eistnagölluðum hestum. Það væri bannað í samkeppnislöndum okkar og þar væru menn undrandi á að nota mætti þessa hesta. Einnig kom fram hvort það þyrfti ekki að vera eins og með spattið, að það væri bara einn dýralæknir sem gæti hnekkt því áliti að hestur væri með eistnagalla. Ekki einleikið hve margir hestar voru metnir með eistnagalla á sýningum en fengu þeirri niðurstöðu síðan hnekkt með að láta dýralækni skoða hestinn. Bent var á hvort það væri ekki rétt að dýralæknir skoðaði eistu um leið og verið er að taka blóð og spattmynd. Þá gæti dýralæknir vottað að hesturinn væri í lagi.

Guðlaugur sagði að stefna fagráðs væri að banna ekki notkun á ákveðnum stóðhestum heldur upplýsa ræktendur sem síðan gætu tekið ákvörðun um hvort þeir vildu taka þá áhættu að nota gallaðan hest. Fagráð ákvað sl. vetur að stíga það skref að hestar með eistnagalla yrðu ekki verðlaunaðir á kynbótasýningum. Ef ræktendur vilja að tekið verði harðar á þessum málum í framtíðinni muni fagráð varla standa gegn því. Ef til vill er full ástæða til að taka á þessum málum því nú eru margir að stunda hrossarækt sem hafa lítinn búfjárræktarbakgrunn. Í vor var mest um að gerð væri athugasemd um of lítil eistu. Mælingamenn á kynbótasýningum geta ekki mælt eistnastærð eins nákvæmlega og dýralæknar, þannig það gæti verð skýringin á því hve margir hestar fengu leiðréttingu á athugasemdum um eistu eftir dýralæknaskoðun.
 
4. Skýrsla starfshóps, aðkoma kynbótahrossa að landsmótum, Þórdís Erla Gunnarsdóttir
Sveinn byrjaði á því að rifja upp tilurð þess að þetta verkefni fór af stað og sagði það sína skoðun að það þyrfti að fjölga því fólki sem kæmi að ákvarðana og hugmyndaöflun í greininni. Aðalfundur HS hefði ákveðið að skipa starfshóp sem myndi skoða aðkomu  kynbótahrossa að landsmótum og kynna niðurstöður sínar á haustfundi samtakanna og nú væri komið að því. Þórdís Erla Gunnarsdóttir formaður hópsins kynnti að því búnu skýrsluna og fer hún hér á eftir.

„Niðurstöður starfshóps sem settur var saman að frumkvæði Hrossaræktarsamtaka Suðurlands. Hópinn skipuðu: Anton Páll Níelsson, Berglind Ágústsdóttir, Guðmundur Björgvinsson, Hugrún Jóhannsdóttir, Hulda Gústafsdóttir, Olil Amble, Ólafur Hafsteinn Einarsson, Pétur Halldórsson (ritari), Þórdís Erla Gunnarsdóttir (formaður).  Fundað var fimm sinnum á skrifstofu Búnaðarsambands Suðurlands haustið 2012 (27. ágúst, 3. sept., 11. sept., 24. sept. og 2. okt.).


Framkvæmd kynbótasýninga á Landsmótum
• Hross skulu hæfileikadæmd á LM. Ekki sé einvörðungu um skrautsýningu að ræða heldur skulu öll kynbótahross á LM hæfileikadæmd á mótinu. Vinnuhópurinn er ekki einróma í þessu áliti sínu – þó mikill meirihluti sammála niðurstöðunni. Rök sem fram eru færð með málinu m.a.:
– Að öll hross með þátttökurétt á LM sitji við sama borð á stað og stund.
– Til að viðhalda spennu og áhuga á viðburðinum.
– Mörg hrossanna eru í þjálfunarferli sem miðar að því að toppa á LM.

Rök gegn þessu formi  t.d.:
– Kynbótasýningar eru í eðli sínu ekki keppni. Landsmót ættu að vera falleg og fjölbreytt sýning fremur en að kynda undir harðri keppnishugsun. Nóg  úrval sýninga og dóma á hverju vori – sem á að vera afstaðið á LM.
– Að vera laus við dóma á LM skapar tækifæri til að þróa og prófa margvísleg kynningar og sýningaform.

• Hæfileikadómur á LM skuli ætíð framkvæmdur með sama hætti og formi og á forsýningu /héraðssýningu.

Rök með þeirri niðurstöðu m.a.:
– Sömu vinnubrögð skyldu viðhöfð á LM og forsýningum til að tryggja samanburðar-hæfni og stöðlun þeirra gagna sem svo eru nýtt til útreiknings á kynbótamati.

• Vinnuhópurinn er klofinn í afstöðu til þess hvort taka beri upp fastan fjölda hæst dæmdu hrossa í hverjum aldursflokki á LM; í stað einkunnalágmarka svo sem verið hefur. Málið þó reifað frá ýmsum hliðum. Fram komin rök með núverandi fyrirkomulagi m.a.:
– Engin óvissa um þátttökurétt á LM eftir að lágmarkseinkunn er náð. Þar með einfaldara og markvissara þjálfunarferli hvers grips.
– Hugsanlegt er að fastur fjöldi í flokki myndi auka enn á endursýningar hrossa. Þetta er þó erfitt að fullyrða enda talsvert um endursýningar við núverandi fyrirkomulag.
– Kostnaður hestaeigenda sem kaupa tamningu/þjálfun er fyrirséðari stærð í núverandi kerfi og ekki háður eins mörgum óvissuþáttum eftir að landsmótslágmarki er náð.

Fram komin rök með því að hverfa til fyrirfram ákveðins fjölda í flokki; byggt á aðaleink.:
– Einfaldar skipulagningu, tímaramma og allt utanumhald á LM til muna.
– Beinskeyttari aðferð við að velja einvörðungu það allra besta úr vorsýningum inn á LM.

• Hópurinn er ekki einhuga um hvert beri að stefna varðandi heildarfjölda kynbótahrossa á LM (2008/218, 2011/232, 2012/204). Skoðanir innan hópsins spanna fjöldabil frá ca. 160 hrossum upp í liðlega 200. Í rökræðum hefur m.a. verið bent á:
– LM hafa verið einhver stærsti og mikilvægasti sýningagluggi ræktenda og þar með gríðarlega mikilvæg auglýsing fyrir þau bú sem eiga fulltrúa.
– Fleiri hross draga með sér fleira tengt fólk; þ.e. þá í samhengi við aðsókn almennt að LM.
– LM mega ekki verða sú akkorðsvinna að komi niður á framkvæmd sýninga og/eða gæðum dómstarfa. Hér átt við langar vinnulotur sýnenda og dómara.

• Hópurinn er samstíga varðandi það að ef nauðsyn krefur að fækka kynbótahrossum á LM þá virðist einboðið að fækka helst og fyrst í flokki 5v. hryssna sem voru alls 54 á LM2012 (26% sýndra kynbótahrossa á LM, sjá fylgigögn um hlutdeild flokka á LM). Næst stærsti flokkurinn á LM2012 var 4v. hryssur alls 35 (17% hlutdeild). Mætti e.t.v. hækka lágmörk fyrir næsta LM í flokki 5v. hryssna?

Sjónarmið í þessu máli m.a.:
– Einföld og jöfn skipting milli allra aldursflokka þýðir 12,5% hlutdeild hvers flokks.
– Þeir flokkar sem víkja mest frá hnífjafnri skiptingu á síðasta LM eru: 5v. hryssur (+13,5%, þ.e. umfram 12,5% og alls 26%), 4v. hryssur (+4,5% alls 17%),  7v. og eldri hryssur (-7,5% alls 5%), 4v. hestar (-5,5% alls 7%), 7v. og eldri hestar (-5,5% alls 7%).
– E.t.v. endurspeglar núverandi hlutdeild flokka á LM að nokkru leyti það sem áhorf-endur/ræktendur almennt helst vilja sjá á kynbótabrautinni; þ.e. ungu hrossin og vonarstjörnur framtíðar. Að þessu leyti er því ekki óeðlilegt að kúrvan þynnist út til endanna, í flokkum elstu hrossa – sem jafnframt eiga mörg hver kost á að koma fram í keppnisgreinum mótanna.


• Hópurinn er áfram um að staðla og huga betur að starfi þula í dómi á kynbótasýningum LM. Fram komin rök því til stuðnings:
– Yfrið nóg ætti að vera að koma upplýsingum á framfæri á tveimur tungumálum (íslenska/enska). Sé óskað fleiri tungumála verði slíkt að vinnast t.d. með sérstakri útsendingartíðni í útvarpi.
– Sífelld síbylja þula þreytir og truflar upplifun áhorfenda og starf sýnenda.
– Gæta verður sérstaklega að því að kynningar og orðaval þula sé svo hlutlaust sem verða má í dómi; þ.e. að einu sé ekki hampað á kostnað annars á grunni staðkunnug-leika og/eða smekks þular.


• Kynning hrossa sem ekki ná verðlaunasætum á LM. Ýmsar skoðanir eru uppi í hópnum, allt frá því að frumraunin 2012 hafi verið algerlega mislukkuð yfir í að hugmyndin sé góðra gjalda verð og þörf en þurfi frekari útfærslu. Nokkur sjónarmið í hópnum varðandi kynningaratriði:
– Tryggja þarf að mæting hrossa sé góð og undantekningalaus nema gildar ástæður komi til. Nefndin telur sjálfsagt að viðburðinum sé sýnd tilhlýðileg virðing.  Þekkt þátt-taka og mæting er nauðsyn svo að skipulag og framkvæmd geti gengið sem skyldi og dýrmætur tími á LM fari ekki forgörðum eða megi teljast illa nýttur.
– Áhorf var of lítið og framkvæmd of laus í reipum; einkum vegna óvissrar mætingar.
– Nauðsynlegt að skipulag, uppsetning (hollaröð) viðburðarins sé hlutaðeigandi aðgengileg í tíma á mótsstað.
– Sum hross sýndu á sér nýjar og spennandi hliðar á hringnum sem áhugavert var fyrir áhorfendur og mögulega kaupendur að sjá. E.t.v. ekki riðið undir eins mikilli pressu heldur undirstrikað það besta sem í hrossinu býr ásamt með mýkt og eftirgjöf í stað afkastahraða sem sýndur var í dómi og yfirliti. Hestvænt og frjálslegt form.
– Huga ber að því í allri skipulagningu að álag á einstök kynbótahross verði ekki of mikið á LM; þ.e. spurningin um hve langt skuli ganga (dómur, yfirlit, kynning + afkvæma-sýningar + ræktunarbússýningar….). Ákvörðun/ábyrgð þó ætíð á hendi knapa /eigenda.
– Það er tillaga nefndarinnar að skynsamlegt sé að taka kynningu á hverjum flokki og svo verðlaunaveitingu 10 efstu hrossa í beinu framhaldi.

• Það er álit hópsins að sérstök sýning á hrossum með yfirburðaeinkunnir fyrir gang-tegundir sé spennandi sýningarefni á LM (framkvæmt á hring og beinni braut á LM2004).
– Í ljósi umræðu um fjölda hrossa á LM, álag á einstök hross, og þróun kynningar kynbótahrossa sem ekki eru í verðlaunasætum vaknar hins vegar sú spurning hvort verið sé að bera í bakkafullan lækinn með einum dagskrárlið til viðbótar. Vel er þó hugsanlegt að hross kæmu t.d. aðeins fram í kynningunni eða í sýningu yfirburða-einkunna. Tryggja verður að álag á einstaka gripi verði aldrei óhóflegt.
–  Hópurinn er ekki sammála um útfærslu þessarar leiðar….. eða hvort þetta getur hvoru tveggja verið á sama mótinu; kynning og sýning hrossa með yfirburða-einkunnir.

• Nefndin vekur athygli á því að enginn risaskjár var staðsettur við kynbótabraut á LM2012. Það verði að teljast afturför enda bæti notkun skjánna vel við alla upplýsingamiðlun í brautinni og möguleikum á að skjóta að helstu viðburðum af keppnisvöllum.

• Nefndin telur brýnt og nauðsynlegt að við heilbrigðisskoðun kynbótahrossa séu notaðir örmerkjalesarar til staðfestingar á því að rétt hross mæti til skoðunarinnar.

• Tryggja verður góða upplýsingamiðlun og tengsl milli sýnenda og skipuleggj-enda/framkvæmdaraðila allra á LM.
– E.t.v. þörf á sérstakri „skrifstofu“/kynningarbás þar sem starfsmenn: taka við afskráningum (yfirlit/kynning), raða saman í holl (yfirlit/kynning), leiðbeina knöpum/eigendum/áhorfendum varðandi tímasetningar og skipulag, sjá til þess að réttar upplýsingar séu stöðugt í loftinu á öllum miðlum. Heilt yfir –  utanumhald.


Almenn framkvæmd kynbótasýninga og dóma
• Hópurinn telur mikilvægt að kynbótadómarar séu stöðugt vakandi fyrir grófri reið-mennsku/grófum ábendingum og taki á slíkum málum af festu svo sem leiðari um framkvæmd kynbótadóma mælir fyrir um. Sérstaklega beri að gjalda varhug við tilraunum til skeiðsýninga þar sem skeiðgeta virðist lítil/engin.

• Sú hugmynd fékk góðan byr innan hópsins hvort ekki væri mögulegt að Fengur héldi utan um þær tölur sérstaklega sem breytast á yfirliti? Þ.e. að það komi sérstaklega fram á dómblaði hvaða tölur breytast og hvernig. Hópurinn telur þetta hafa augljóst upplýsinga-gildi fyrir ræktendur og geti t.a.m. unnið nokkuð á móti svo nefndri einkunnasöfnun.

• Nefndin telur að skynsamlegt væri að yfirfara verkferla í dómpalli á yfirlitssýningum til að koma í veg fyrir að „vafasamar“ athugasemdir úr fordómi standi eftir óbreyttar þegar dómar hækka á yfirliti; þ.e. athugasemdir sem eru lýsandi fyrir fyrri einkunn en skjóta skökku við eftir breytingar á yfirliti.
– Ef sú hugmynd fær brautargengi að allar breytingar á yfirliti komi fram á dómblaði þá minnkar hætta á áðurnefndum mistökum að öllum líkindum. Þá þarf ritari væntanlega að haka sérstaklega við í Feng að um sé að ræða breytingu á yfirliti og þá meiri líkur á að athygli starfsfólks í dómpalli sé vakin á athugasemdum sem ekki styðja fallinn dóm.

• Það er útbreidd skoðun í hópnum að í kynbótadómi, svo sem hann hefur þróast, sé á stundum of fast tekið á smávægilegum hnökrum í útfærslu sýninga, minniháttar taktfeilum  eða öðrum þeim smálegum atriðum sem ekki snerta auðsýnilega getu gripsins eða kynbótagildi. Með öðrum orðum að kynbótadómurinn dragi stundum of mikinn dám af keppni. Ef eðli og geta gripsins sýnir sig þá ættu smávægilegir hnökrar ekki að hafa úrslitaáhrif á dóm.

• Það er almennt skoðun hópsins að breyta þyrfti vinnulagi á yfirlitssýningum á þann veg að hækkanir séu lesnar upp jafnharðan og þær verða til í dómpalli. Af þessu hlytist augljóst hagræði fyrir hest og knapa og gerði yfirlitssýningar einnig áhorfendavænni.

• Það er útbreidd skoðun í hópnum að dómarar verði sífellt að halda vöku sinni gagnvart svo nefndri hraðadýrkun; þ.e. að yfirhraða gangtegunda sé illu heilli of mikið hampað í einkunnum á kostnað taktöryggis, skrefstærðar, svifs (þar sem það á við) og mýktar.


Rætt og reifað af nefnd – án efnislegrar niðurstöðu
• Mikill hugur er innan hópsins á frekari þróun og tilraunastarfsemi með útfærslu og framkvæmd kynbótasýninga; ekki síst eru nokkir nefndarmenn mjög áfram um notkun á hringvelli sem hluta kynbótadóms.  Alltaf verði þó að setja skýr mörk milli tilrauna og gildandi dóma – þar til vankantar hafi verið slípaðir af mögulegum nýjungum.

• Nefndin hvetur eindregið til þess að komið verði á fót sérstökum verkhópi um framkvæmd og framþróun kynbótasýninga. Hópi sem ýtir á og hvetur til tilrauna af ýmsu tagi. Sú skoðun til að hinir stærri haustfundir séu ekki nægilega góður eða virkur vettvangur til að tengja grasrótina við þá sem stýra og stjórna. Í grunninn fram komin ósk um meira og virkara samráð um stefnumörkun og þróun. Meðal hugmynda og mögulegra tilraunaverkefna sem ræddar hafa verið í nefndinni t.d.:
– Möguleiki á tímamælingu á skeiði í dómi – til stuðnings einkunnagjöf og/eða bara aukins upplýsingagildis? Það má hugsa sér að hæstu einkunnir í skeiði yrðu þá e.t.v. þröskuldseiginleikar; þ.e. að hæstu tölur falli ekki nema viðunandi hraði sé staðfestur með tímatöku?
– Fastur tími á hross í dómi í stað ferðafjölda?
– Áframhaldandi tilraunir með notkun hringvalla ásamt með beinni braut í kynbóta-dómi. Fróðlegt að sjá hvað er hægt að sækja í slíkt fyrirkomulag (kostir / gallar).
– Allútbreidd skoðun í hópnum að dómarar ættu að dæma hver í sínu lagi – fremur en þrír saman í hópi. Hugsanlega þar gott dæmi um form/nýbreytni sem þyrfti að prófa hlutlaust til að sjá betur hvað þar er að sækja – ef eitthvað? Er slíkt form líklegt til að bæta enn dómstörfin? Gæfi slík sundurliðun knapanum e.t.v. meiri upplýsingar um hvar hann stendur og hvar líklegur til að geta hækkað sig? Er slíkt form tefjandi fyrir gang sýningar o.s.frv. o.s.frv.?
– Er réttleikadómurinn óþarfur eða ef til vill á villigötum m.t.t. reynslu manna af ágripum? Væri mögulegt að framkvæma „réttari“ réttleikadóm, sé á annað borð ástæða til að dæma hann, á hlaupabretti við algerlega staðlaðar aðstæður?
– Nefndin er á einu máli varðandi nauðsyn þess að ná betra mati á eiginleikann vilji/geðslag. Leita þurfi allra leiða til að þróa aðferðir sem gætu fært okkur sterkari gögn og markvissari um þennan gríðarlega mikilvæga þátt ræktunarstarfsins.
– Það er skoðun sumra nefndarmanna að vægi eiginleikans, vilji/geðslag, sé enn allt of hátt (þrátt fyrir nýlega lækkun) – miðað við hvernig til tekst að höndla þennan þátt í dómi. Ef betri nálgun og mat næðist á eiginleikann mætti hins vegar gjarna hækka vægi hans á ný.


• Sú skoðun er útbreidd í hópnum að kynbótadómur sé ekki lengur sú gæðavottun sem áður var – nú sé meira vísað til árangurs í keppni; ekki síst íþróttakeppni. Er ástæða til að reyna að snúa þeirri þróun við og/eða segir það einfaldlega sanna sögu um hver hinn raunverulega virki hópur kaupenda er – kaupendahópur mögulegra keppnishrossa?

• Aðsókn að landsmótum rædd og mögulega neikvæð áhrif beinna útsendinga; neikvæð áhrif deilna um staðarval.

• Væri skynsamlegt að leyfa byggingardómi 5-6v. hrossa að standa, kjósi eigandi svo – þó þau komi aftur eldri á braut? Spurning um tímasparnað og traust á eldri niðurstöðum. Hér er sama hugsun að baki og þegar opnað var á að leyfa byggingardómum úr fullnaðardómi að standa sumarlangt.

• Er ástæða til að huga að því að sleppa alveg yfirlitsdómi? Spara tíma og peninga og gera kynbótadómana mögulega „beinskeyttari“; þ.e. að hross eigi að geta sýnt getu sýna í einum dómi. Slík breyting myndi enn fremur væntanlega útrýma svo nefndri einkunna-söfnun en þá er t.d. átt við hross sem sýnd eru sem klárhross í dómi en svo opnað á skeiðeinkunn á yfirliti.

• Nefndin er nokkuð sammála um að 8 ferðir fyrir dómi er fullknappt oft á tíðum; samanber reynslu af LM2012.

• Hópurinn veltir fyrir sér hvort skynsamlegt væri að gera hljóðupptökubúnað við kynbótabrautir að staðalbúnaði við kynbótasýningar. Sem þá varpar hljóði/takti beint inn í dómpall.

• Nefndin er mjög áfram um bætt vinnuumhverfi og vinnuramma kynbótadómara. Vísað er til þarfar á bættum skilyrðum og aðbúnaði í dómpöllum. Umræða fór fram um langa vinnudaga og álag (óhóflegt?) á dómara, ekki síst á LM. Er e.t.v. æskilegt að reyna að þoka hefðbundnum vinnudegi á kynbótasýningum meira í átt að 8-9 stunda vinnu? „


Umræður:
Góður rómur var gerður að skýrslunni. Hugmynd nefndarinnar um nýja útfærslu á kynningu á þeim kynbótahrossum sem ekki komast í verðlaunasæti var vel tekið. Bent á að ekki væri gott að geta ekki bæði fylgst með gæðinga- og kynbótahrossum á landsmótum. Réttara væri að fækka frekar hrossum á landsmótum. Nauðsynlegt að finna þeim hugmyndum sem koma fram í skýrslunni farveg þannig þær fari í umræður í grasrótinni og síðan til fagráðs.

Guðlaugur Antonsson þakkaði Þórdísi fyrir gott erindi. Eins og fram kemur í skýrslunni hafa menn skiptar skoðanir á mörgum málum og er það eðlilegt. Það gerist einnig innan fagráðs. Í raun ekki margt nýtt í skýrslunni, flest hefur heyrst áður en það gerir skýrsluna ekki minna virði fyrir það. Að dómarar dæmi hver fyrir sig var prófað árið 1996 og þótti ekki skila neinu. Miðlægni í dómum jókst. Varðandi tímamælingar á skeiði væri það vissulega áhugavert en kostaði sitt. 

Sveinn Steinarsson sagði að skýrslan hefði verið kynnt fyrir stjórn HS og hugmyndin væri að koma henni í umræðu í grasrótinni.

Hugrún Jóhannsdóttir kom með þá hugmynd hvort ekki mætti greina að hækkun sem verður á yfirlitssýningu. Hækkanir sem yrðu væru t.d. í öðrum lit í WF. Hún spurði einnig hvort hægt væri að aðgreina með lit þau hross sem hækka eða lækka fyrir kynbótamat milli ára, það myndi auðvelda ræktendum og öðrum að fylgjast með.

Anton Páll Níelsson hvatti menn til að koma með tillögur handa fulltrúum HS til að fara með inn á aðalfund Félags hrossabænda en það styttist í hann.

Sveinn tók undir orð Antons að samtökin þyrftu að láta til sín taka á aðalfundi Félags hrossabænda. Stefnt að vinnufundi þann 7. nóvember þar sem unnið verður að tillögum fyrir aðalfundinn. Fundurinn mun verða opinn fyrir alla félagsmenn en sérstaklega eru kjörnir fulltrúar á aðalfund Félags hrossabænda hvattir til að mæta.

Þórdís Erla Gunnarsdóttir sagði að mikilvægt væri að vinna með grasrótinni. Skoða þyrfti hagkvæmni sýninga frá báðum hliðum, bæði út frá ræktendum og sýningahaldara. 


5. Önnur mál
Kristinn Guðnason sagði frá því helsta sem verður á döfinni á aðalfundi Félags hrossabænda 16. nóvember nk. Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa mun Ágúst Sigurðsson fjalla um stöðuna í íslenskri hrossarækt hér og erlendis og viðra sínar hugmyndir varðandi markaðsmál. Sigríður Björnsdóttir mun fjalla um áverka á hrossum en áverkar hafa frekar farið vaxandi á sýningum. Dagskráin mun fljótlega verða send út til kjörinna fulltrúa. Hrossaræktarráðstefnan verður að þessu sinni í Hlégarði í Mosfellsbæ laugardaginn 17. nóvember. Guðrún Stefánsdóttir mun kynna niðurstöður sínar úr rannsókninni á líkamlegu álagi hrossa á kynbótasýningum. Færum okkur í Hlégarð vegna þess að þar er þægilegri fundarsalur og ódýrara húsnæði. Stjórn HS verður að sjá til þess að allir kjörnir fulltrúar frá þeim mæti á fundinn. Má ekki vanta fulltrúa frá HS. Hann þakkaði fyrir góða skýrslu, líst vel á þá útfærslu sem nefndin bendir á varðandi kynningu á hrossum sem ekki verma verðlaunasæti á landsmótum. Verðum að nýta okkur þennan sýningarglugga. Hætta með yfirlitssýningar er mjög mikil breyting sem verður að skoða vel áður en eitthvað er ákveðið. Nemendaverkefni í gangi varðandi yfirlitssýningar vonandi verður niðurstaðan úr því verkefni til að auðvelda ákvarðanatöku í þessu máli.

Páll Imsland sagði frá því að dr. Leif Andersson prófessor við Uppsalaháskóla í Svíþjóð hefði verið með fyrirlestur þann 4. október  í Hátíðarsal Háskóla Íslands þar sem hann fjallaði um niðurstöður rannsókna á skeiðgeninu. Þessi rannsókn kemur til með að marka tímamót í hreyfifræði. Hann hefði ákveðið að Íslendingar mættu til með að reyna að ganga í augun á þessum færa prófessor og kynna hann fyrir íslenska hestinum á meðan hann væri á landinu. Hann hefði því í samráði við Svein, Kristinn og Harald ákveðið að farið yrði með hann í hesthúsið til Sigurðar Matthíassonar og Róberts Pedersen. Þaðan var farið með hann að Ingólfshvoli til Guðmundar Björgvinssonar þar sem honum var sýnt skeið. Leif fékk að prófa töltara en hann er ekki hestamaður. Páll sagðist vona að þessi kynning á íslenska hestinum yrði til að auka möguleika á að fá rannsóknir á hreyfifræði íslenska hestsins. Leif hefur áhuga á að fá brokkstampa til rannsóknar þannig ef einhver veit um slíka hesta væri gott að þeir yrðu í sambandi við sig. Ekki að vita hvert framhaldið verður en þetta er spennandi.

Kristbjörn Eyvindsdóttir var með viðamikið erindi um það sem betur mætti fara í kynbótageiranum og verður aðeins tæpt á því helsta hér. Hefur verið skoðað hvaða áhrif síðustu breytingar á vægi dómstigans hafa haft?  Hafa breytingarnar verið til góðs. Er ræktunarstefnan í samræmi við kröfur markaðarins? Erum við að rækta hross sem hestamenn vilja kaupa? Er verið að ganga verulega á hlut klárhrossa? Nefndi því til stuðnings að á LM2008 hefðu í 5 vetra flokki stóðhesta 6 klárhestar verið í 10 efstu sætum en á LM2012 hefði enginn klárhestur náð í verðlaunasæti.  Reyndar virðist einkunn fyrir vilja og geðslag fylgja skeiðeinkunn mjög stíft. Er það markmið fagráðs að í kynbótastarfinu fái afburða klárhross ekki að sjást á landsmótum? Tímabært að fagráð skoði hvað gera þarf til að minnka kostnað þeirra sem eru að mæta með hross til dóms og taka þátt í kerfinu. Fyrir búgreinina er mun hagkvæmara að hafa sýningarnar fleiri og í nærumhverfi, stað þar sem hrossin eru haldin. Endurskoða þarf verksvið og störf fagráðs. Dómkerfið þarfnast endurskoðunar, setja þarf siðareglur og reglur um vanhæfni. Misræmi milli dómnefnda og sýninga er allt of mikill. Það er sorglegt viðhorf sem mætti hrossaræktendum, knöpum og fleirum sem mættu á fund Hrossaræktarsamtaka Suðurlands 15. febrúar síðastliðinn. Þar fór hrossaræktarráðunautur, fulltrúi Bændasamtaka Íslands, mikinn og hóf fundinn á skammarræðu yfir fundargestum. Ekki virðist sem fagráð hafi séð neitt að framkomu ráðunautar þar sem hann veittist af ósvífni gagnvart mér og síðan öllum hrossaræktendum. 

Hrafnkell þakkað Kristbjörgu erindið sem hefði verið yfirgripsmikið og beinskeytt.

Kristinn Guðnason sagði að Kristbjörg hefði farið vítt yfir sviðið. Samskiptaleysi við grasrótina, hverju þarf að breyta? Það þekkja allir félagskerfið. Við sem erum hér erum grasrótin. Varðandi klárhesta þá vitum við að það eru ekki allir sammála og vilji menn breyta ræktunartakmarkinu þarf sú hugmynd að koma frá grasrótinni. Hingað til höfum við verið sammála um að rækta fimmgangshest. Á fundunum í vetur kom Lárus Hannesson formaður gæðingadómarafélags LH með okkur og vildi hann meina að vægisbreytingarnar sem voru gerðar síðast hefðu verið jákvætt skref fyrir keppnisgreinarnar. Vægi var fært af vilja og geðslagi með þeim rökum að ekki tækist nógu vel að dæma þann eiginleika. Hámörkin eru alltaf að hækka inn á landsmót og þá verður erfiðara að komast inn.

Kristbjörg spurði hvort búið væri að taka út á faglegan hátt hverju þessar breytingar hefðu skilað.

Kristinn svaraði því til að vægisbreytingar þyrftu helst að vara í 10 ár áður en þeim væri breytt aftur.

Sveinn sagði frá því sem yrði á dagskrá í vetur, málþing um markaðsmál, fræðslukvöld í febrúar í samráði við FT, ungfolasýning og Ræktun 2013. Þakkaði að lokum góða fundarsókn og góðan fund. Að því búnu var fundi slitið rúmlega kl. 23:00.

/Halla Eygló Sveinsdóttir 


back to top