Haustfundur HS 2004

Fundargerð
Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands


Haustfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands í Hestheimum þann 7. nóvember 2004. Á haustfundinn voru formenn deilda boðaðir.

Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Skýrsla stjórnar – Jón Vilmundarson
3. Félag hrossabænda – Kristinn Guðnason
4. Sæðingastöðin – Páll Stefánsson
5. Almennar umræður


1. Fundarsetning
Jón Vilmundarson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Bergur Pálsson var skipaður fundarstjóri og Halla Eygló Sveinsdóttir fundarritari.


2. Skýrsla stjórnar
Jón Vilmundarson gerði grein fyrir skýrslu stjórnar. Helsta starf samtakana að þessu sinni hefur verið sýningahald en samtökin hafa staðið fyrir 3 sýningum á árinu sem allar hafa verið vel sóttar. Er þetta orðin helsta tekjulind samtakanna.
Samtökin voru með 3 stóðhesta á LM 2004. Andvara frá Ey og Galsa frá Sauðárkróki en þeir hlutu heiðursverðlaun fyrir afkvæmi og Núma sem hlaut 1. verðlaun fyrir afkvæmi. Ekki slæmur árangur það.
Stóðhestar samtakanna eru mismikið notaðir. Andvari er mjög vinsæll en fangprósentan hjá honum er tæplega 50% sem er mikið áhyggjuefni. Númi fékk mjög litla notkun í seinna gangmáli en þá var hann í girðingu í Gunnarsholti, einungis 10 hryssur voru hjá honum. Hlutirnir sem samtökin eiga í Galsa voru nýttir enda búið að ráðstafa þeim fyrirfram. Gauti fékk ekki nema 2-3 hryssur út á hlut samtakana. Þannig að ljóst er að tekjur af hestum samtakanna eru rýrar. Ákveðið hefur verið að Gauti frá Reykjavík verði í þjálfun hjá Olil Amble í vetur og hugsanlega seldur í framhaldi af því. Andreas Trappe er tilbúin að kaupa Galsa frá Sauðárkróki á 1 milljón og verður kannað hvað aðrir eigendur hestsins vilja gera og ef allir vilja selja verður hesturinn seldur honum. Númi var auglýstur til sölu í haust og bárust 3 tilboð. Eitt það lágt að því verður örugglega ekki tekið. Danskir aðilar buðu 4.200.000 kr í hestinn en hitt var upp á 6 hluti í Þóroddi frá Þóroddsstöðum. Jón gat þess að flestir stjórnarmanna væri á því að best væri að taka danska tilboðinu.
Jón taldi að áhugi á sæðingum væri loksins að aukast. Búið væri að tryggja að eftirfarandi fjórir hestar stæðu til boða á stöðinni í vor en það eru þeir; Orri frá Þúfu, Rökkvi frá Hárlaugsstöðum, Aron frá Strandarhöfði og Þóroddur frá Þóroddsstöðum. Talsverðar líkur væru á því að Gustur frá Hóli yrði einnig á stöðinni. Stefnt er að því að hestarnir verði yfir lengri tíma á stöðinni þ.e. bæði yfir tímabil húsnotkunar og fyrra gangmáls. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri hefur samþykkt að leigja Sæðingastöðinni meira land þannig þetta verði hægt.
Halla Eygló Sveinsdóttir, hrossaræktarráðunautur Búnaðarsambands Suðurlands, hefur gengið til liðs við samtökin og tekið rækilega til í félagatalinu. Búnaðarsambandið ákvað að leggja hrossaræktinni lið með því að þjónusta samtökin á þennan hátt. Nokkuð er enn um ógreidd félagsgjöld og rétt að taka það fram að kjörgengi hafa aðeins skuldlausir félagar. Nokkuð var um það á síðasta aðalfundi samtakanna mættu menn sem ekki voru lengur skráðir í samtökin vegna vangreiddra félagsgjalda.

Orðið gefið laust um skýrslu stjórnar.

Gunnar Dungal spurði um eftirfarandi, hvort til væri afmörkuð stefna samtakanna. Er stefna samtakanna fyrst og fremst að sjá um sýningar? Getur framkvæmdastjóri selt hesta án samráðs við stjórn?

Kári Arnórsson spurði hvernig hlutirnir í Þóroddi væru metnir.

Jón Vilmundarson svaraði að varðandi kaup og sölu á stóðhestum hefði stjórnin umboð til þess en hún reyndi vissulega að kanna hvað félagsmenn vildu. Samtökin eru ekki lengur með framkvæmdarstjóra. Stóðhestar samtakanna hafa verið seldir þegar notkun á þeim hefur verið orðin lítil. Hrynjandi frá Hrepphólum var til dæmis lítið notaður og því seldur þegar ásættanlegt verð bauðst. Hann var hins vegar ekki auglýstur til sölu og kom gagnrýni á það. Þess vegna var auglýst eftir tilboðum í Núma. Verðmat á Þóroddi kom ekki fram í tilboðinu en reikna má með að hver hlutur sé upp á 2 folatolla þar sem hesturinn verður fyrst og fremst notaður í sæðingum.

Gunnar Dungal spurði hvort samtökin þyrftu ekki að skoða hvert verði hlutverk þeirra í framtíðinni.

Jón Vilmundarson svaraði að samtökin hefðu á sínum tíma verið stofnuð í kringum stóðhestahald. Nú væru þau orðin aðili að Félagi hrossabænda og því hagsmunafélag. Á síðasta aðalfundi samtakanna var tillaga samþykkt um að skipa nefnd sem falið yrði að skoða framtíðarskipulag samtakanna. Hún hefur nýlega verið skipuð.

Óli Pétur spurði hvað hefði kostað undir Núma í sumar og hversu mörgum hryssum hann hefði þjónað.

Jón Vilmundarson svaraði að engin hryssa hefði verið hjá honum í húsnotkun en 10 í seinna gangmáli. Folatollurinn hefði verið 30.000 kr fyrir félagsmenn.

Páll Stefánsson spurði hvort búið væri að taka einhverju tilboðanna í Núma og hvort aðrir eigendur hestsins vildu selja.

Jón Vilmundarson svaraði að Hrossaræktarsamtök Eyfirðinga og Þingeyinga væru því samþykk að selja hestinn og vildu taka danska tilboðinu. Jón sagði að stjórnin væri ekki búin að taka endanlega ákvörðun en myndi gera það að loknum haustfundi.

Vilberg Skúlason spurði hvert samtökin stefndu og hvort einhver stefnumörkun væri í gangi hjá samtökunum varðandi það að velja afreks knapa og afreks hryssu Suðurlands.

Jón Vilmundarson svaraði að hugmyndin um að velja afreksknapa og afrekshryssu Suðurlands á folaldasýningunni í Ingólfshvoli hefði alfarið verið komin frá Erni Karlssyni en samtökin hefðu verið tilbúin til að taka þátt í henni.
 
3. Félag hrossabænda
Krisinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda fjallaði um þau mál sem efst voru á baugi hjá félaginu á árinu. Taldi hann að afsetning á hrossum væri í góðum farvegi en vissulega væri verðið lágt. Nú í haust hefði verið geysileg breyting hvað varðar afsetningu á folöldum  því það væri slegist um þau. Eftirspurn eftir blóði hefði einnig aukist verulega og hefði Halldór Gunnarsson í Holti unnið að því að fá fleiri hryssur í blóðtöku. Í blóðtökunni er greitt 30.000 kr á ári fyrir hverja hryssu. Útflutningur lífhrossa hefur verið að aukast sem og verðmæti þeirra.

 Breyting verður á skrifstofuhaldi félagsins í þessum mánuði því sameiginlegu skrifstofuhaldi LH og Félagi hrossabænda verður hætt. Skrifstofan mun flytjast aftur til Bændasamtaka Íslands, en umboðsmaður íslenska hestsins er m.a. þar til húsa. Félag hrossabænda hefur verið vanmegnugt eftir að markaðssjóður var lagður niður.

 Komið hefur fram hugmynd um að Ferðaþjónusta bænda fari í samstarf við Félag hrossabænda og mun Hulda Geirsdóttir sjá um það tilraunaverkefni til að byrja með.

 Ágúst Sigurðsson ætlaði að fjalla um starfið í hrossaræktinni en gat ekki mætt en Kristinn sagði að ekki væri annað að sjá en ræktunarstarfið væri á uppleið rétt eins LM 2004 sannaði. Af 10 ræktunarbúum á landsmótinu hefðu 7 verið af Suðurlandi og gætu Sunnlendingar verið stoltir af því. Kristinn taldi að verð á ræktunarhryssum hefði snarhækkað enda ræktendur að átta sig á því hversu mikilvægt væri að eiga góðar ræktunarhryssur.

 Helstu fréttirnar sagði Kristinn vera þær að Ágúst Sigurðsson væri að hætta sem landsráðunautur eftir farsælt starf. Búið væri að ráð Guðlaug Antonsson í hans stað.

 Landsmótið var mjög vel heppnað og væri greinilegt að Landsmót ehf. virkaði vel. Enn væri þó ekki á hreinu hvar mótsstaðirnir ættu að vera. Flestir væru á því að þeir ættu að vera tveir; einn á Suðurlandi og annar á Norðurlandi. Þetta væri mál sem þyrfti að fá á hreint. Kristinn taldi að ef mótin væru alltaf á sama stað yrði þau of einsleit. Síðasta landsmót var faglegt, vellir góðir en ef til vill hefði ekki sama stemming myndast og á LM 2002 á Vindheimamelum.

Að lokum kvaðst Kristinn hafa fundi gamlar fundargerðarbækur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands og las upp úr fyrstu fundargerðarbókinni um markmið samtakanna að því loknu afhenti hann Jóni Vilmundarsyni bækurnar til varðveislu.

Orðið gefið laust.

Páll Stefánsson spurði í hverju starf umboðsmanns íslenska hestsins hefði falist?

Kári Arnórsson spurði hvort rætt hefði verið um val á landsmótsstað í stjórn Félags hrossabænda. Honum finndist að þetta ætti að vera sameiginleg ákvörðun LH og Félags hrossabænda. Stór hluti hrossanna kæmi af Suðurlandi og það væri mikil kostnaður að flytja þau norður.

Gunnar Dungal þakkaði Kristni fróðlegt erindi. Hafa samtökin velt fyrir sér þeim mögulega að fá banka til að lána til hestakaupa rétt eins og nú er boðið upp á lán til listaverkakaupa. Hver er yfirmaður umboðsmanns íslenska hestsins og hverjum á hann að þjóna?

Kristinn Guðnason svaraði að umboðsmaður íslenska hestsins væri sjálfstætt starfandi með stjórn. Félag hrossabænda ætti einn mann í þeirri stjórn. Umboðsmanni væri ætlað að skipuleggja sýningar erlendis og vinna að markaðsmálum. Hann hefði verið skipaður í eitt ár og að því loknu átt að skila skýrslu um starfsemina. Skýrslan er tilbúin en hefur ekki verið gerð opinber. Í framhaldi af því verður ákveðið hvort embættið verður starfrækt áfram. Félag hrossabænda hefur þó ekkert um það að segja. Þegar umboðsmaður tók til starfa var honum strax falið að koma tollamálunum í höfn og er því máli lokið. Félag hrossabænda hafði séð fyrir sér að umboðsmaður myndi taka við því starfi sem markaðstjóri Félags hrossabænda hefði áður sinnt.
 Fyrirtækið Landsmót ehf var stofnað af LH og BÍ en auðvitað hefði Félag hrossabænda viljað vera þar inni líka. 
Kristinn sagði að ekkert hefði verið rætt við bankana um hagstæð lán til hrossakaupa.
 Kristinn tjáði fundarmönnum að Helga Toroddsen hefði verið ráðin í eitt ár til að markaðssetja knapamerkjakerfið, sem nú væri fullbúið. Átaksverkefninu líkur á þessu ári en reynt verður að fá fjármagn í að halda því áfram þó með nýjum verkefnum. Mótafengurinn er meðal þeirra verkefna sem átaksverkefnið kom á koppinn.

Gísli Kjartansson spurði hvort samstarf Félags ferðaþjónustubænda og Félags hrossabænda væri nýtilkomið?

Kristinn Guðnason kvað svo vera og Hulda Geirsdóttir myndi stýra því.


4. Sæðingastöðin
Páll Stefánsson tjáði fundarmönnum að þetta væri áttunda starfsár Sæðingastöðvarinnar og nú loks væri hún farin að ganga. Hún hefði rekið sig í fyrra í fyrsta skipti síðan hún tók til starfa. Útlit væri fyrir að árið í ár yrði gott og næsta ár ætti að geta orðið betra. Páll sagðist þó hafa vissar áhyggjur af háu verðlagi á folatollum því það myndi draga úr notkun.
Stöðin fékk styrk frá Stofnverndarsjóði til að kanna áhrif daglengdar á fengitíma stóðhesta. Sjö stóðhestar voru teknir á hús um mánaðamótin  jan/feb., fjórir tamdir og þrír vel ættaðir folar  Hestarnir voru í staðlaðri daglengd frá kl: 7.00 til kl. 22.00, fengu gott fóður og reglulega hreyfingu. Hestarnir fóru snemma úr hárum og 15. apríl var fyrst tekið sæði úr þeim en því miður voru engin merki um að þetta hefði bætandi áhrif á sæðisgæði. Þegar kom fram í maí og til júlíloka tókst að frysta úr einum. Páll sagði að sæðisgæði hjá íslenska hestinum væru einfaldlega ekki nægilega mikil til að hægt væri að frysta sæði. Sæðisgæði í mörgum af hinum erlendu hestakynjum væru einfaldlega miklu betri. Það er búið að fara yfir vinnuferlið á stöðinni í samvinnu við þýska og ameríska sérfræðinga og telja þeir ekkert áfátt við það. Skýringin á því hve erfitt er að frysta sæði úr íslenskum stóðhestum væri einfaldlega sú að sæðisgæði væru ekki nægjanleg.

Elísabet Jansen nemandi við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, fékk gögn frá stöðinni frá árunum 2002-2003 úr þeim má m.a. lesa eftirfarandi:


  1. Íslenski stóðhesturinn er að verða langt undir í sæðisgæðum. Ástæðan er ekki ljós en það er margt sem getur haft áhrif s.s. erfðir, notkun, meðferð, hreyfing og atlæti.
  2. Af þeim hryssum sem sæddar hafa verið á stöðinni hafa 20% vandamála forsögu. Ef hryssa heldur ekki er síðasta hálmstráið að sæða hana.
Það er mjög mikilvægt að hefja rannsóknir á frjósemi íslenskra stóðhesta sem fyrst.

Orðið gefið laust.

Hrafnkell Karlsson spurði hvort íslenski hesturinn væri ekki eins frjósamur og áður hefði verið talið. Ef svo væri yrði að bregðast skjótt við og taka þennan þátt inn í ræktunarstarfið.

Kristinn Guðnason ef taka á frjósemina inn í ræktunarþáttinn verður að fást fjármagn til að skoða hvað hefur áhrif á frjósemi stóðhesta. Andvari frá Ey veiktist t.d. illa er það ef til vill ástæða þess hve ófrjósamur hann er í dag? Varðandi spattið þá er að fara í gang umræða innan fagráðs hvernig hægt sé að taka það inn í ræktunarstarfið. Nú liggja fyrir það góðar vísbendingar um að hægt sé að rækta það úr út stofninum. Kristinn sagðist þó ekki hlynntur boðum og bönnum heldur yrðu ræktendur að hafa valið, hvaða áhættu þeir væru tilbúnir til að taka út frá fyrirliggjandi upplýsingum.


5. Almennar umræður 
Nokkur umræða varð um tilboðið í Núma og töldu fundarmenn að 6 hlutir væru í raun of fáir hlutir fyrir samtökin.  Einnig urðu umræður um hvort samtökin ættu að halda áfram að halda stóðhesta. Um það voru skiptar skoðanir, sumir töldu að ef því yrði hætt yrði engin starfsemi eftir fyrir samtökin.


Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 16:00.

/ Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top