Fyrstu naut úr 2005 árgangi í dreifingu eftir prófun

Fagráð í nautgrgiparækt hefur nú tekið ákvörðun um að setja fyrstu nautin úr árgangi 2005 til notkunar eftir afkvæmaprófun. Þetta eru 6 naut úr árgangnum en hin 25 bíða frekari niðurstaðna þar til ákvörðun verður tekin með þau. Yngri hluti árgangsins er ekki kominn með upplýsingar um nægilega margar dætur til þess að hægt sé að taka ákvörðun um framhald þeirra.
Þau naut sem verða sett í dreifingu eru; Stöðull 05001 frá Brekkukoti í Reykholtsdal, sem verður notaður sem nautsfaðir og 5 önnur sem nýtast sem kýrfeður. Það eru þeir Bauti 05002 frá Miðfelli V, Hryggur 05008 frá Bryðjuholti, Standur 05013 frá Skálpastöðum, Renningur 05014 frá Lambhaga og Gussi 05019 frá Dagverðareyri.
Jafnframt ákvað fagráð að nautsfeður til notkunar næstu mánuði verði þeir Hegri 03014, Tópas 03027, Stássi 04024, Stíll 04041 og Stöðull 05001.

Dreifingu verður hætt á þeim Glæði 02001, Alfons 02008, Sendli 02013, Flóa 02029, Síríusi 02032, Aðli 02039, Grikk 04004, Þin 04006 og Þrumara 04015 ýmist vegna þess að sæði úr þeim er uppurið eða notkun þeirra reyndist lítil.
Ás 02048, Gyllir 03007 og Ári 04043 verða ekki áfram í dreifingu sem nautsfeður en þó verða teknir undan þeim nautkálfar á komandi mánuðum. Það er því brýnt að menn láti vita eignist nautsmæður nautkálfa undan þeim sem og öðrum nautsfeðrum.

Upplýsingar á nautaskra.net hafa verið uppfærðar til samræmis við þetta.


back to top