Fyrsti rýnifundur um landbúnaðarmál

Fyrsti rýnifundur um landbúnaðarmál hefst í Brussel í dag en á rýnifundum bera sérfræðingar Íslands og Evrópusambandsins saman löggjöf á tilteknum sviðum. Umræður um landbúnaðarmál munu standa í fjóra daga í þessari lotu og aftur fjóra daga í lok janúar.
Á rýnifundunum er farið yfir löggjöf beggja aðila í þeim 33 efnisköflum sem lagasafn Evrópusambandsins skiptist í til að greina hvar íslensk löggjöf er frábrugðin og hvað semja þarf um.

Á fyrsta rýnifundinum var fjallað um 5. kafla – Opinber innkaup, sem er hluti af EES-samningnum. Síðan var fjallað um félagsrétt, upplýsingatækni og fjölmiðla, fjármálaþjónustu, umhverfismál, vísindi og rannsóknir, menntamál og menningu og í gær var fundað um fjármálaþjónustu.


Flestir þessir málaflokkar voru ræddir á fundum sem stóðu í einn dag, en ástæðan er sú að víða er enginn eða mjög lítill munur á löggjöf Íslands og ESB. Í landbúnaðarmálum er löggjöfin hins vegar mjög ólík og því tekur lengri tíma að yfirfara hana.


Fundirnir halda áfram allt fram í miðjan júní, en síðast rýnifundurinn, sem fjallar um orkumál, verður haldinn 17. júní n.k.


back to top