Fyrsta skólfustunga að nýrri nautastöð á Hesti

Á miðvikudaginn tók Bjarni Arason, fyrrverandi ráðunautur og forstöðumaður Nautastöðvarinnar á Hvanneyri fyrstu skóflustungu að nýrri nautastöð sem staðsett verður á Hesti í Andakíl. Eftir stutta ræðu Haraldar Benediktssonar, formanns Bændasamtaka Íslands og skóflustungu Bjarna, var viðstöddum boðið til kynningar á teikningum og til kaffidrykkju í húsakynnum Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Kynningin var í höndum Magnúsar Sigsteinssonar, bygginga- og bútækniráðunautar og naut hann aðstoðar Unnsteins Snorrasonar, sérfræðings hjá Bændasamtökunum.
Að sögn Gunnars Guðmundssonar, sviðsstjóra hjá BÍ mun nýja Nautastöðin leysa af hólmi gömlu nautastöðvarnar á Hvanneyri og í Þorleifskoti en þær eru orðnar nokkuð gamlar og úr sér gengnar.  Fyrst og fremst mun hagræðing aukast með nýrri stöð og starfsfólki fækka en aðbúnaður mun einnig batna til mikilla muna. Að sögn Gunnars er svo komið að gömlu stöðvarnar standast ekki nútímareglugerð um aðbúnað nautgripa. Hann segir að vinnuaðstaða og umhverfi verði nútímavædd í nýju stöðinni og að Bændasamtökin vonist til að í þessari stöð muni verða:  „Lífvænlegra, lífsþróttur meiri og árangur betri. Erfitt sé þó að segja til um hvort það gangi eftir.”
 
Bændasamtökin segja staðsetninguna góða á Hesti. Húsið verði nægjanlega langt frá fjárhúsunum á Hesti og ekki of nærri Borgarfjarðarbrautinni. Aukinheldur mun ný nautastöð verða nálægt Hvanneyri en þangað er einungis um fárra mínútna akstur.  Aðspurður um afdrif gömlu stöðvanna á Hvanneyri og í Þorleifskoti, sagði Gunnar að ekki væri komið á hreint hvað yrði gert við þær, en ýmsar hugmyndir væru á lofti.  Það væri hinsvegar ekki í verkhring Bændasamtakanna, því víst væri að þessar eignir yrðu boðnar til sölu. 
 
Vegagerð og önnur undirbúningsvinna er þegar hafin við Nautastöðina á Hesti og er í höndum Haralda Helgasonar, verktaka.  Að undirbúningsvinnu lokinni verður jarðvinna fyrir grunn boðin út og þá byggingarvinnan sjálf. Stefnt er á að ný nautastöð verði tilbúin í lok næsta sumars eða næsta haust og er áætlaður kostnaður um 130-140 milljónir króna.


back to top