Félagsráðsfundur FKS 31. maí 2007

Fundur í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi
fimmtudaginn 31. maí 2007 kl. 21.00.
Árhúsum Hellu


1. Fundarsetning.
Formaður, Sigurður Loftsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna og kynnti breytingu á útsendri dagskrá en það eru breytingar á ríkisstjórn og málefni í stjórnarsáttmála sem snerta landbúnaðinn


2. Stjórnarsáttmálinn og landbúnaðurinn.
Formaður ræddi þau málefni sem snerta landbúnaðinn sem getið er í stjórnarsáttmálanum, m.a. um sameiningu ráðuneyta landbúnaðar og sjávarútvegs. Auk þess sem skólarnir sem eru undir landbúnaðarráðuneytinu munu fara á forræði menntamálaráðuneytis og þar með rannsóknastarf innan landbúnaðarins. Spurning hver verður framtíð starfsmenntanámsins í búfræði, hvort það þróist innan almenna framhaldsskólakerfisins eða verði áfram á núverandi stöðum.

Ómar í Lambhaga nefndi að nýlega hafi verið gengið frá samningum í sauðfjárræktinni og í mjólkurframleiðslunni sem væri væntanlega áfram grunnur að starfskilyrðum þeirra greina.

Guðbjörg á Læk ræddi samsetningu ráðherraliðsins m.t.t. viðhorfa til landsbyggðarinnar og hvort breytinga væri að vænta vegna þess.

Sigurlaug í Nýjabæ sagði að það skipti óneitanlega máli hvernig yrði unnið að kynningu landbúnaðarmála og þá ekki síst innan hins nýja landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytis.

Ólafur í Geirakoti velti fyrir sér hvort breytingar í samfélaginu og aukin starfsemi á ýmsum sviðum hefði ekki m.a. annars þau áhrif að umræða um landbúnaðarmál yrði minni en var t.d á liðnum vetri.

Þórir á Selalæk sagði að greinin sjálf þyrfti einnig að halda áfram að vekja athygli á þeirri þróun og hagræðingu sem er á hverjum tíma í atvinnugreininni.


3. Staða viðræðna um “óframleiðslutengdan stuðning” í mjólkursamningi.
Formaður kynnti stöðu mála um þetta málefni en í núverandi mjólkursamningi er kveðið á um óframleiðslutengdan stuðning frá og með verðlagsárinu 2007/2008 sem að stofni voru 49 milljónir. Rætt hefur verið um að 8 milljónir af stofnupphæð fari í þróunarsjóð og það haldi síðan áfram með sömu upphæð ár hvert út samningstímann. Afgangurinn, 41 milljón að stofnvirði, miðað við verðlagsárið 2007/2008 yrði í formi eingreiðslu miðað við greiðslumark 1.sept. nk.
Verðlagsárið 2008/2009 yrði áfram 8 milljónir í þróunarsjóð, 30 milljónir í jarðrækt og 59 milljónir í skýrsluhald og skýrsluskil. Allar tölur miðaðar við stofnvirði. Verðlagsárið 2009/2010 yrði það sama varðandi þróunarsjóð og jarðrækt en auknar greiðslur í skýrsluhald og skýrsluskil auk kostun á efnamælingum.

Guðbjörg á Læk spurði um rekstur Rannsóknastofunnar mjólkuriðnaðarins, hver kostaði hann ? Fram kom að það er SAM í núverandi fyrirkomulagi.

Elín í Egilsstaðakoti og Þórir á Selalæk lýstu yfir vonbrigðum sínum með þessar tillögur, þetta form af stuðningsgreiðslum hlyti ávallt að vera erfiðari í framkvæmd en núverandi skilvirka beingreiðslukerfi.

Þórir á Selalæk sagði nauðsynlegt að kynna svona tillögur vel í tíma til að menn geti undirbúið sig sem best til að taka ákvarðanir út frá skilgreindum forsendum.

Jóhann í St-Hildisey ræddi um óframleiðslutengdan stuðning og nauðsyn þess að skoða hvað aðrir hafa gert, einnig að það verði í öllu falli unnið þannig að þetta stuðli að áframhaldandi hagræðingu í greininni.

Ólafur í Geirakoti nefndi þá mótsögn sem fælist í þeirri staðhæfingu að afnám stuðnings við framleiðslu hér á landi myndi bæta afkomu bænda í þróunarrikjunum. Nær öll milliríkjaverslun í landbúnaði er á vegum auðhringa og kæmi bændunum í þróunarríkjunum seint til góða, alveg sama hvað liði stuðningi hér landi.


Rætt almennt um framtíð stuðnings við mjólkurframleiðsluna, viðhorf almennings og WTO-samninga. Einnig um nauðsyn merkinga á framleiðsluvörum landbúnaðarins.


4. Frá aðalfundi LK.
Formaður kynnti helstu tillögur frá aðalfundi LK, m.a. um innflutningsmál, úttekt á raforkukostnaði kúabænda, ályktun um kjaramál, kostnað við greiðslumarkskerfið, um forritamál kúabænda, um hækkun á skerðingamörkum gripagreiðsla. Formaður hvatti félagsráðsmenn til að skoða ályktanir aðalfundar LK og hafa samband ef þeim finnst hægt gangi með framvindu viðkomandi máls.


5. Aðalfundur BSSL, ályktanir og erindi stjórnar Búnaðarsambandsins til FKS.
Formaður sagði frá afdrifum ályktunar frá FKS um endurskoðun á starfsemi Bssl sem send var inn á aðalfund og var þar samþykkt samhljóða. Stjórn Bssl hefur óskað eftir að FKS tilnefni einn fulltrúa í starfsnefnd, auk fulltrúa frá hrossabændum, sauðfjárbændum auk fulltrúa úr stjórn frá Bssl og einn starfsmaður.

Samþykkt að formaður, Siguður Loftsson, verði fulltrúi félagsins í þessari starfsnefnd.

Nefnt var að þetta var eina tillagan sem unnin var fyrir aðalfund, aðrar tillögur komu fram á fundinum sjálfum.

Guðbjörg á Læk lagði áherslu að fenginn yrði utanaðkomandi maður til að stýra starfi þessarar nefndar. Fundarmenn almennt sammála um að lagt yrði upp með þetta.


6. Horfur í verðlagsmálum og skipun verðlagsnefndar.
Samkomulag hefur orðið milli BÍ og LK um skipan í verðlagsnefnd á þann veg að LK skipi báða fulltrúa framleiðenda þetta ár.

Formaður gat þess að hann hefði mætt á fund verðlagsnefndar í gær sem fulltrúi LK .
Samþykkt var á þeim fundi tillaga um hækkun á afurðaverði bænda á mjólk frá afurðastöð út frá launalið í verðlagsgrundvelli. Sú hækkun verður 1,19% á afurðastöðvaverði, sá hluti launaliðar sem tengist beingreiðslunum fylgir hinsvegar verðlagsþróun.


Rætt um þann grunn sem verðlagsgrundvöllur er og jafnframt hve bagalegt er hve uppgjör liðins árs er ávallt seint á ferðinni auk vöntunar skráningar á vinnutíma.


7. Önnur mál.
Formaður sagði frá því að Þorfinnur formaður Bssl, hefði óskað eftir því við sig að taka sæti í undirbúningnefnd fyrir landbúnaðarsýningu árið 2008 í tilefni af 100 ára afmæli Bssl. Nefndin í heild sinni er skipuð Þorfinni Þórarinssyni, Hrafnkeli Karlssyni og Sigurði Loftssyni . Búið er að halda einn fund í nefndinni og þar var ákveðið að sýningin yrði 22.-24. ágúst 2008. Stjórn Bssl hefur skipað Guðmund Jóhannesson sem sýningarstjóra. Staðsetning er ekki ljós enn þá. Tveir staðir koma til greina, Hella eða Selfoss.

Runólfur ræddi stöðuna í framleiðslumálum, innvigtun í afurðastöðvar MS er komin í rúmlega 120,4 milljónir lítra síðustu 12 mánuði. Miðað við að svipaðan gang og hefur verið síðustu mánuði er ekki óliklegt að innvigtun verð um122,5 milljónir lítra á núverandi verðlagsári. Auk þessarar framleiðslu MS kemur til viðbótar sú mjólk sem lögð er inn hjá Mjólku. Spurning hvernig mál þróast næstu misseri í í sölumálum og þá sérstaklega hvað möguleikar eru á afsetningu á erlendan markað.


Fleira ekki gert og formaður sleit fundi laust eftir miðnætti.


Runólfur Sigursveinsson
fundarritari


back to top