Fyrrverandi landbúnaðarráðherra vildi styrkja mjólkurvinnslu á Ísafirði

Á þessu ári skal tæpur þriðjungur af verðmiðlunargjaldi mjólkur renna til Mjólkurstöðvarinnar á Ísafirði sem rekstrarstyrkur. Engin mjólkurvinnsla er lengur á Ísafirði en taki MS ákvörðun um að hefja vinnslu þar að nýju rennur þetta fé til rekstrarins á Ísafirði. Upphæðin gæti numið um 20 milljónum króna.
Jón Bjarnason, þáverandi landbúnaðarráðherra, tilkynnti þessa ákvörðun sína með bréfi 30. desember, degi áður en hann lét af störfum sem ráðherra.

Í bréfi ráðherra, sem sent var Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, kemur fram að 70% af verðmiðlunargjaldinu árið 2012 greiðist til afurðastöðva í mjólkuriðnaði í sömu hlutföllum og stöðvarnar greiða í sjóðinn af innveginni mjólk. 30% af heildarupphæð gjaldsins skal hins vegar ráðstafað sem rekstrarstyrk til Mjólkurstöðvarinnar til að tryggja áframhaldandi rekstur hennar. Meðan ekki er mjólkurvinnsla á Ísafirði munu fyrrnefndir fjármunir væntanlega liggja inni í Verðmiðlunarsjóðnum.


back to top