Formður LS gagnrýnir úrræðaleysi stjórnvalda

Aðalfundur Landssamtaka sauðfjárbænda stendur nú yfir en hann hófst í Bændahöllinni eftir hádegi nú í dag og setti Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson formaður fundinn með ávarpi. Í ávarpi Sindra kom fram að ársins 2010 myndi verða minnst sem árs náttúruhamfara, ekki eingöngu hér innanlands heldur um heim allan. Hins vegar væri nöturlegt að hugsa til þess þeir umhverfisþættir sem þó væri í mannana valdi að hafa stjórn á skyldu nú valda innlendri matvælaframleiðslu skaða. Vísaði hann þar til díoxínmálsins svokallaða í Skutulsfirði.

MAST stóð sig ekki
Sindri gagnrýndi harðlega viðbrögð Matvælastofnunar (MAST) og ekki síður stjórnvalda vegna málsins alls. „Í fimm heimsálfum voru sagðar afar óljósar fréttir af díoxínmenguðu lambakjöti frá Íslandi. Þær fréttir voru byggðar á tilkynningu frá Matvælastofnun sem gerði ekki grein fyrir umfangi málsins eða þeirri staðreynd af kjötið kom frá mjög afmörkuðu svæði í nágrenni Sorpbrennslunnar Funa í Skutulsfirði og að magn þess nam einungis um 0,025% af árlegri innanlandssölu.“ Brýndi Sindri eftirlitsaðila eins og MAST og Umhverfisstofnun til að draga lærdóm af málinu svo slíkt myndi aldrei henda aftur.


Átakanlegt að fylgjast með stjórnvöldum
Átakanlegt er, sagði Sindri, að fylgjast með úrræðaleysi stjórnvalda þar sem hver vísaði á annan varðandi tjón bænda á svæðinu. Hins vegar væri það ekki hið eina sem átakanlegt væri upp á að horfa varðandi stjórnvöld. „Hún nefnir sig norræna velferðarstjórn og er laustengt bandalag þingmanna Samfylkingar og hluta þingmanna Vinstri grænna. Þessir lýðsins leiðsögumenn hafa kosið að breiða yfir eigið úrræðaleysi með því að benda á betri tíð og blóm í haga í örmum Evrópusambandsins.“ 


Fulltrúar ESB hreinskilnir
Sindri sagði það allrar athyglivert að sjá Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra reyna að neita því að aðlögun að regluverki Evrópusambandsins (ESB). Fulltrúar ESB í aðildarviðræðunum hafi í það minnst verið nægjanlega hreinskilnir til að segja það vafningalaust að við undirritun aðildarsamnings verði Ísland að hafa byggt upp stjórnkerfi sem geri landinu kleift að virka sem fullgilt aðildarríki. „Enda er ekki óeðlilegt af hálfu ESB að gera kröfur um aðlögun ríkja sem hafa sótt um aðild, enda gera þeir ráð fyrir því að slíkri aðildarumsókn fylgi þjóðarvilji um að ganga inni í ESB eins og það er hverju sinni. Slíkt á ekki við um Íslendinga sem vilja kíkja í pakkann og sjá svo til. Þjóðinni er svo talin trú um að hægt sé að fá varanlegar undanþágur alveg hægri vinstri. Það er óheiðarlegt af okkur íslendingum gagnvart aðildarríkjum ESB að fórna tíma og peningum okkar og þeirra í könnunarviðræður um samning sem þjóðin kærir sig ekki um,“ sagði Sindri.


Sindri sagðist óttast að ekki fylgdi hugur máli þegar stjórnvöld segist vilja standa vörð um íslenskan landbúnað. Skýr vísbending um það væri skipan fulltrúa í samningahóp um landbúnað þar sem aðeins þrír fulltrúar bænda ættu sæti.


Björt teikn á lofti
Ekki var þó eingöngu um bölmóð að ræða í ræðu Sindra enda mörg teikn á lofti um bjarta tíma í sauðfjárbúskap. Á fyrstu þremur mánuðum hefði sala á lambakjöti t.a.m. aukist um rúm ellefu prósent og um níutíu prósent á utanlandsmarkað. Birgðir af kindakjöti séu nú fjórðungi minni en á sama tíma í fyrra í landinu. Verð á erlendum mörkuðum hafi hækkað svo að nú sé það sambærilegt við verð á innanlandsmarkaði.


Sindri nefndi að vegna þessarar aukningar hefðu hafist umræður um að skortur yrði á lambakjöti í sumar. Hann fullvissaði fundinn um að slíkar áhyggjur væru ástæðulausar enda kappkostuðu íslenskir sauðfjárbændur að þjónusta sinn heimamarkað.


Gríðarlegar gjaldeyristekjur
Ennfremur sæu margir nú ofsjónum yfir ríkisstuðningi sem færi til greinarinnar nú þegar fjörutíu prósent framleiðslunnar væru flutt út. Það væri athyglisvert í því ljósi að skammt væri síðan að lögskipað hefði verið að flytja þyrfti ákveðinn hluta framleiðslunnar úr landi. „Samtals nema gjaldeyristekjur af útflutningi sauðfjárafurða nú tæpum 3 milljörðum. Það er athyglisvert að setja þá upphæð í samhengi við rúma 4 milljarða sem greiddir eru í ríkisstuðning til sauðfjárræktar á hverju ári. Sauðfjárbændur eru að skapa gríðarlegar gjaldeyristekjur og taka því þátt í að skapa jákvæðan vöruskiptajöfnuð fyrir þjóðarbúið, um leið og þeir sjá innanlandsmarkaðnum fyrir úrvalsvöru á góðu verði,“ sagði Sindri.


Fundurinn mun standa í dag og fram eftir degi á morgun. Hápunkturinn verður svo árshátíð LS á Hótel Sögu annað kvöld. Fylgjast má með fundinum í beinni útsendingu á vef LS.


back to top