Fimm ný naut úr 2006 árgangi til notkunar

Þriðjudaginn 29. maí fundaði fagráð í nautgriparækt og tók ákvörðun um ný naut til notkunar í ljósi nýútreiknaðs kynbótamats. Ákveðið var að taka 5 ný naut úr árgangi 2006 til notkunar þar sem þau voru komin með tilskilin lágmarksfjölda dætra og koma vel út úr afkvæmaprófun. Einnig eru nokkur naut í 2006 árgangi sem ljóst er að ekki munu koma til framhaldsnotkunar þar sem þeir hljóta mjög lágan dóm. Mörg naut í þessum árgangi hafa ennþá ekki nægjanlega stóran dætrahóp með fullt fyrsta mjaltaskeið til þess að hægt sé að skera úr um það hvor þau koma til framhaldsnotkunar eða ekki og bíður sú ákvörðun því næstu kynbótamatskeyrslu. Fagráð fór einnig yfir eldri nautaárganga og ákveðið að taka nokkur naut úr notkun, úr sumum er allt sæði búið en aðrir hafa dalað í kynbótamati eða hafa fengið mjög litla eða takmarkaða notkun.

Þau naut sem koma nú til notkunar í fyrsta skipti sem reynd naut eru; Baldi 06010, Logi 06019, Kambur 06022, Dynjandi 06024 og Hjarði 06029.
Auk þess var ákveðið að taka aftur inn Gylli 03007 þar sem hann hefur heldur unnið á og er auk þess góður kostur varðandi það að draga úr skyldleika.

Þau naut sem verða tekin úr notkun eru;
Ás 02048 (fullnotaður),
Hlaupari 04010 (lítið notaður og lækkar í kynbótamati),
Rauður 05021 ( lítið notaður og lækkar í kynbótamati),
Standur 05013 (lítið notaður og lágur í kynbótamati),
Gussi 05019 (lítið notaður og lækkar í kynbótamati) og
Sússi 05037 (lítið notðaur og lágur í kynbótamati).


Fagráð ákvað jafnframt að eðlilegt væri að gefa út nýja nautaskrá nú í júní þar sem nokkrar breytingar eru á nautahópnum sem er í notkun og hefur sú vinna verið sett af stað

Nautsfeður til notkunar næstu mánuði verða áfram Vindill 05028, Birtingur 05043 og Koli 06003. Þá koma eftirtalin naut inn sem nautsfeður; Frami 05034, Baldi 06010 og Kambur 06022.

Í ljósi þess að töluverðar breytingar hafa verið á nautsfeðrum síðastliðin 2 ár er vert að taka fram að óskað er eftir að menn láti vita af nautkálfum sem fæðast undan þeim nautum sem hafa verið nautsfeður á einhverjum tímapunkti síðastliðið eitt og hálft ár en það eru; Ófeigur 02016, Ás 02048, Gyllir 03007, Hegri 03014, Tópas 03027, Stássi 04024, Stíll 04041, Ári 04043 og Stöðull 05001.


Búið er að uppfæra upplýsingar um reynd naut í notkun á www.nautaskra.net í samræmi við þetta. Enn vantar þó lýsingu á dætrahópa og mæður þeirra nauta sem koma ný til notkunar nú.


back to top