Fimm bændur í mál við MS

Fimm bændur undirbúa nú sameiginlega málssókn á hendur MS og fara fram á hærri greiðslur en þeir fengu úr séreignarsjóði samsölunnar. Bændurnir fengu, ásamt um 600 öðrum, greiðslu úr séreignarsjóði mjólkurframleiðenda í júní 2002. Með þessu voru þeir borgaðir út úr sjóðnum. Þetta eru þeir ósáttir við og hefðu viljað eiga áfram inni í sjóðnum. MS breytti reglum þannig að í stað þess að heimilt væri að borga menn út úr sjóðnum tíu árum eftir að þeir hættu mjólkurframleiðslu þarf nú aðeins að líða ár. Til að breyting öðlist gildi þarf, lögum samkvæmt, að tilkynna hana til samvinnufélagaskrár. Þetta var ekki gert. Eftir að bændurnir voru borgaðir út var sjóðurinn hækkaður um tæplega 550 miljónir króna.

Einn bóndi, Sigurbjörn Hjaltason, fór í mál við MS og vann. Hæstiréttur dæmdi MS til að greiða honum 1,5 miljón króna. Jón Gíslason, bóndi á Hálsi, hefur sent MS bréf þar sem hann óskar eftir hærri greiðslu en þeim 200.000 krónum sem hann fékk. MS hefur hafnað ósk Jóns.


Fjórir bændur hafa haft samband við Jón og ætla bændurnir fimm að höfða sameiginlega mál á hendur MS. Jón skorar á fleiri bændur að taka þátt í málssókninni. Hann telur sig eiga rétt á hærri greiðslu en Sigurbjörn því sjóðurinn var hækkaður um 1,5 miljarð króna um áramótin. Peningurinn var tekinn af óráðstöfuðu eigin fé MS sem er hagnaður af rekstri. Jón segir að ráðstafa eigi hagnaði á annan hátt en gert er. Annað hvort eigi að lækka vöruverð eða að greiða hærra afurðaverð til bænda.


back to top