Félagsráðsfundur FKS 9. maí 2002

Fundur Félagsráðs 9. maí 2002 að Hlíðarenda

Kosningar.
Sigurður Loftsson formaður, Jóhann Nikulásson gjaldkeri og Valdimar Guðjónson ritari. Kjörnir með lófataki.

Ræddur nýr búvörusamningur í mjólkurframleiðslu.
Formaður Sigurður Loftsson sagðist ekki ánægður með fyrstu umræður um nýjan mjólkursamning hjá BÍ. Sagði sína skoðun að umræður þar samkvæmt fundargerðum væru vart í samræmi við raunveruleikann. Arnar Bjarni Eiríksson kvaðst undrandi að formaður LK hefði ekki verið fenginn til samráðs er málefni nýs samnings voru rædd hjá BÍ. Egill Sigurðsson sagði sína skoðun að hér sunnanlands ríkti ekki það svartnætti sem upp væri dregið af mörgum stjórnarmönnum. Sigurjón Hjaltason taldi þær ógöngur sem sauðfjárræktin hefði farið í eftir að skilið var á milli beingreiðslna og framleiðslu víti til varnaðar. Elvar Eyvindsson sagði sína skoðun að skiptin á framleiðsluheimildum væri hin raunverulega hagræðing. Dæmið mætti setja upp þannig að hún væri kostuð af bændum, fyrir ríkið án aukaútgjalda. Viss hluti beingreiðslna færi í þessa hagræðingu. Daníel Magnússon sagði núverandi form beingreiðslna m.a. komið frá Verkalýðshreyfingu. Samt væru aðilar þar nú sem vildu þetta form út.
Einar Haraldsson sagði sína skoðun að bændur nytu hagræðingar. Taldi síðustu ár þau bestu í sínum búskap þó mest síðan fullt frelsi var í skiptum á framleiðsluheimildum. Katrín Birna Viðarsdóttir sagði nauðsynlegt að láta strax vita af andstöðu við hugmyndir um breytingu beingreiðslna. Sigrún Ásta Bjarnadóttir kvaðst vilja nánari skýringar frá Ara formanni BÍ um “vaxandi áhyggjur” hans af skipan mála hjá mjólkurframleiðendum. Sigurjón Sigurðsson sagði lánastofnanir fúsar að lána til kvótakaupa svo ekki virtist vantraust á stöðunni þar. Grétar Einarsson taldi hægt að nýta sér að ekki fékkst að flytja inn nýtt kúakyn. Vegna þess að ekki fékkst afkastameira kyn þyrfti mjólkin að kosta heldur meira.

Önnur mál.
Sigurjón Eyjólfsson kom inná niðurgreiðslu á akstri dýralækna lengri vegalengdir. Þeir peningar væru nú að klárast. Sigurlaug Leifsdóttir vildi heyra vilja fundarmanna hvort stefna bæri að einhverju formi beingreiðslna í nautakjötsframleiðslu. Katrín Birna Viðarsdóttir kom inná fjósskoðunarvottorð. Hún væri búinn að borga reikning fyrir fjósskoðun, en samt væri tilkynning frá MBF að vottorð væri útrunnið. Sagði slíkt ófært. Komið inná kvíguskoðun. Talið brýnt að þær færu fram amk., eitt skipti á ári, helst áður en brottfall verður.

Samantekið og stytt, Valdimar Guðjónsson.


back to top