Félagsráðsfundur FKS 31. janúar 2019

Félagsráðsfundur Félags kúabænda á Suðurlandi 31. janúar 2019.  Fundurinn var haldinn í fundarsal MS á Selfossi og Rafn Bergsson formaður FKS setti fund um kl 11 og bauð fundarmenn velkomna. Gunnar Ríkharðsson frá BSSL skrifaði minnispunkta frá fundinum.

Mætt voru:

Rafn Bergsson formaður Hólmahjáleigu      Borghildur Kristinsdóttir, Skarði
Karel Geir Sverrisson, Seli                            Reynir Jónsson, Hurðarbaki
Jóhann Jensson, Fit                                        Arnór Hans Þrándarson, Þrándarholti
Anne Hansen, Smjördölum                           Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, Bryðjuholti
Sigríður Jónsdóttir, Fossi                               Jóhann Nikulásson, Stóru Hildisey
Charlotte Clausen, Hvammi                          Ágúst Guðjónsson, Læk
Magnús Örn Sigurjónsson, Pétursey 1          Sævar Einarsson, Stíflu
Sigríður Jónsdóttir, Fossi                               Guðmundur Jón Jónsson, Berjanesi
Ágúst Ingi Ketilsson, Brúnastöðum              Jökull Helgason, Ósabakka
Páll Jóhannsson, Núpstúni

  1. Erindi Ágústs Guðjónssonar og umræður um það.

Ágúst Guðjónsson á Læk, stjórnarformaður Aðhumlu og stjórnarmaður í MS, greindi frá því helsta í rekstri félaganna á árinu 2018. Endurskoðuð rekstraráætlun MS frá miðju síðasta ári virðist ganga eftir en markmiðið var að fækka stöðugildum úr ca 450 í 400 og minnka stjórnunarkostnað og draga þannig úr launakostnaði samhliða hagræðingu í vinnsluferlum. Sú hagræðing felur m.a. í sér að auka framleiðslu á osti úr undanrennu en minnka framleiðslu á undanrennudufti.

Sala mjólkurafurða var 0,7% undir áætlun á síðasta ári en fer vel af stað í janúar og greinileg neyslubreyting hefur átt sér stað í samræmi við svokallað „ketó“ mataræði – meira selst af feitum ostum og feitmeti. Nokkuð vel lítur því út með rekstur MS á árinu 2018 en þó verður væntanlega bókhaldslegt tap á rekstri þar sem álögð sekt samkeppniseftirlitsins vegna samkeppnisbrota er færð til bókar. Framleiðsluskiptasamningur milli MS og KS er í vinnslu.

Hjá móðurfélaginu Auðhumlu er staðan erfiðari en starfsmenn Auðhumlu eru núna sex – tveir á skrifstofu og fjórir í mjólkureftirliti og ráðgjöf. Á einhvern hátt þarf að bregðast við tapi á rekstri Auðhumlu. Vegna erfiðleika í rekstri var endurnýjun á tækjum til duftþurrkunar frestað en einnig er nauðsyn á endurnýjun á búnaði í smávörudeild á Akureyri.

Fyrirmyndarbú fær núna aðeins 1% álag og umframmjólk er sett á fast verð en hætt við innheimtu á sérstöku gjaldi. Ræddi einnig um s.k. tekjumarkaleið.

Nú hófust umræður um erindi Ágústs og voru þær með frjálslegu formi og því er aðeins reynt að nefna hér þau helstu atriði sem komu til umræðu án þess að tilgreina í öllum tilfellum þá sem þátt tóku í umræðum.

Rætt um gæði mjólkur og skerðingu á greiðslum vegna lakari mjólkur, þyrfti kannski að auka verðmun á gæðaflokkum, skiptar skoðanir á greiðslum vegna fyrirmyndarbúa.

Jóhann í Hildisey spurði var um tekjur af erlendum mörkuðum og verðlagningu á umframmjólk.

Ágúst svaraði því til að Ísey skyr er alveg sér rekstur en leyfistekjur af framleiðslu skyrs erlendis geta orðið nokkur hundruð milljónir á næstu árum ef vel gengur. Ekki hefur ennþá verið mörkuð stefnu um hvernig þeim tekjum verður úthlutað.

Jóhann ræddi einnig um verðlagningu á einstökum vörum og möguleika á að færa verðlagningu nær raunkostnaði einstakra vara og vildi að menn nýttu betur þá möguleika sem eru til þess í búvörusamningi. Jóhann vill einnig að iðnaðurinn skili hagnaði og þá spurning hvernig afurðaverð til bænda og greiðslumark er ákveðið. Kostar nokkur hundruð milljónir á ári sá efnahalli sem er í dag á milli próteins og fitu. Vildi að greiðslumarkið hefði verið fært niður nær próteinsölu. Taka þarf á verðlagningarmálum og greiðslumarki – gengur ekki að verðlagning til bænda sé óháð afkomu í mjólkuriðnaði.

Jóhann spurði einnig um tollasamning – hvernig á að bregðast við því að innfluttir ostar eru framleiddir úr mjólk sem er um það bil á hálfvirði til vinnslu erlendis miðað við hráefnisverð hérlendis. Ágúst taldi brýnt að vera vel á varðbergi en nefndi einnig að útflutningskvóti eykst mjög með nýjum tollasamningi en óljóst um framvindu á útflutningi til Bretlands vegna Brexit.

Ef greiðslumarkið hefði verið fært niður í 130 milljón lítra en greitt fullt verð fyrir fitu umfram það hefði verð lækkað til bænda um ca 3,2 á líter að sögn Ágústar.

Rætt var hvaða áhrif lækkun á verði á umframmjólk geti haft á framleiðslu og gæði umframmjólkur. Rætt um framleiðsluskyldu og hvort hún ætti að vera 100% eða eitthvað lægri – misjafnar skoðanir á því.

Reynir velti fyrir sér varðandi útfærslu á kaupum á próteini og fitu aðskilið.

Úrvinnsla á mysu á Sauðárkróki er komin á fullt en verð á mysudufti er á uppleið. Einnig nýlega kominn á markað próteindrykkur sem fer vel af stað.

Við vaxandi innflutning þurfum við að fara að merkja okkar vörur sem íslenskar sem fyrst.

Spurning hvort fyrirtæki bænda eigi að vera að flytja inn osta, kjöt ofl. – þetta þarf að ræða á meðal bænda. Einnig töldu margir það galið að bændur séu að nota innflutt duft í kálfa sína. Reynir vill að bændur komi ekkert að innflutningi á landbúnaðarvörum. Rætt um erfðabreytt kjarnfóður í mjólkurframleiðslu og um aukna neyslu á feitum ostum.

Að sögn Ágústar er verið að prófa að nýta áfir í duftið í stað fitu en ekkert búið að ákveða. Greinileg aukning á framsetningu á erlendum ostum í verslunum. Rætt um merkingar á matvælum og nauðsyn þess að sinna því vel og nota ýmiss alþjóðleg merki sem sýni fram á að viðkomandi vara sé bæði holl og framleidd við aðstæður þar sem velferð dýra er höfð að leiðarljósi. Stefnt er að deildarfundum MS í byrjun mars.

Þá var gert matarhlé

  1. Mál frá Félagi Kúabænda á Suðurlandi (FKS)

Rafn formaður kynnti:

  1. Breyting á gjaldtöku til FKS.

Núna er gjaldið miðað við einstaklinga í félaginu og er andvirði 50 l mjólkur. Í félaginu eru núna 233 einstaklingar frá 159 búum. Stjórnin leggur til að í stað þess að rukka einstklinga þá verði eitt gjald fyrir hvert bú og gjaldið verði andvirði 80 l mjólkur. Þessi breyting á að skila félaginu mjög svipuðum tekjum – enginn mælti þessu í mót og mun stjórn leggja þetta fyrir aðalfund FKS.

  1. Félagskerfi kúabænda

Rætt um hugsanlega skylduaðild félaga FKS að LK. Ákveðið  að láta umræðu um þetta bíða þar til nefnd sem sem skipuð var að tillögu Búnaðarþings hefur lokið störfum en hún á að skila tillögum fyrir Búnaðarþing 2020. Jóhann í Hildisey er einn af nefndarmönnum og sagði að nefndin væri að skoða uppbyggingu félagskerfa bænda á norðurlöndum þar sem afurðasölufélögin koma mikið að þessu félagsstarfi.

  1. Aðalfundur FKS áætlaður á tímabilinu 18-22 feb 2019. Rætt var um hugsanlega gesti og ákveðið að athuga hvort landbúnaðarráðherra hefði möguleika á að mæta. Einnig var rætt um heppilegustu fundarstaði fyrir aðalfund og félagsráðsfundi m.t.t. búsetu fundarmanna og kostnað.
  1. Hugsanlegar tillögur til aðalfundar LK

Rætt um gæði nautakjöts á markaði og leiðir til að nota álagsgreiðslur til að auka gæði. Í dag er miðað við 250 kg lágmarksþunga á skrokk og hámarksaldur er 30 mán til að fá álagsgreiðslur. Rætt hvort ekki væri rétt að hækka þungamörk og lækka aldursmörk til að ýta undir betri fóðrun og þar með aukin gæði kjötsins og hagkvæmari framleiðslu vegna styttri eldistíma. Verið er að skoða þetta innan LK.

Fjárfestingarstuðningur – hugsanlega þarf að stýra betur í hvað þetta fjármagn fer – fari frekar í að bæta aðstöðu og aðbúnað frekar en stækkun búa –einnig þarf að leita allra leiða til að einfalda umsóknir og úttektir eins og hægt er.

Rætt um kvótamarkað og hvaða leiðir er skynsamlegast að taka upp til að verðleggja greiðslumark og deila því aftur til framleiðanda – ef ákveðið verður í atkvæðagreiðslu í febrúar að viðhalda framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu. Ekki víst að markaðurinn ráði við frjálst framsal á greiðslumarki.

Rætt um hvernig á að bregðast við þeim sölumismun sem er á fitu og próteini – spurning um að lækka greiðslumark og miða við sölu á lægri efnaþætti mjólkurinnar en ekki þann hærri. Þá væri greitt fyrir alla fitu í umframmjólk (umfram próteinþörf) en bara greitt fyrir próteinið í umframmjólk eins og fæst fyrir það í útflutningi.

Fleira ekki rætt og fundi slitið um kl 15.


back to top