Aðalfundur FKS 12. febrúar 2018

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Gunnarsholti 12. febrúar 2018. Rafn Bergsson, formaður, setti fund kl. 12.50. Hann tilnefndi Valdimar Guðjónsson sem fundarstjóra og Jónu Þórunni Ragnarsdóttur fundarritara. Samþykkt samhljóða.
Valdimar kynnti dagskrá fundarins.

Skýrsla formanns – Rafn Bergsson
Ágætu félagar, ég býð ykkur velkomin á þennan aðalfund Félags kúabænda á Suðurlandi. Starfsemi félagsins á liðnu ári hefur verið með nokkuð hefðbundnu sniði. Haldnir voru 2 formlegir stjórnarfundir auk fjölda símtala og tölvupóst samskipta. Félagsráðið fundaði 3 sinnum á árinu fyrst 2.mars þar sem ritari og gjaldkeri félagsins voru kosin, þau Reynir á Hurðabaki og Borghildur í Skarði. Auk þess voru kosnir fulltrúar á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands og unnið í tillögum fyrir aðalfund Landsambands Kúabænda. Annar fundurinn var haldinn 12. október þar ræddum við hugsanlegar breytingar á samþykktum félagsins og félagsaðildina að LK kem betur inná það síðar. Auk þess fór Elín Heiða yfir helstu mál á borði LK á þeim tíma meðal annars var töluverð umræða um EUROP kjötmatið þá. Þriðji fundur var svo haldinn 23. janúar síðastliðinn. Enn var félagskerfið okkur hugleikið, fengum við Svein Sigurmundsson framkvæmdastjóra BSSL til að fara yfir hvernig kerfið er uppbyggt í dag og í framhaldinu voru ræddar leiðir til að gera kerfið einfaldara og skilvirkara. Á seinni hluta fundarins fengum við Egil á Berustöðum stjórnarformann Auðhumlu til að fara yfir stöðuna í iðnaðinum og hvernig útlitið er til framtíðar. Af þessu sést að þær breytingar sem eru að verða á félagskerfinu í kjölfar þess að búnaðargjaldið var fellt niður hafa verið fyrirferðarmiklar í starfi félagsins undanfarið. Einnig hef ég setið í vinnuhóp á vegum LK sem á að vinna stefnumörkun í mjólkurframleiðslu.

Ég sagði áðan að ég ætlaði að koma betur inná umræðu um samþykktarbreytingar og aðildina að LK. Þessar samþykktarbreytingar sem um ræðir eru á þann veg að það verði ekki hægt að vera félagi FKS nema vera einnig félagi í LK. Það væri eðlilegast og einfaldast að hafa fyrirkomulagið þannig og stóð til að leggja fram tillögu í þessa veru en við í stjórn lögðum til við félagsráð á síðasta fundi að fara ekki í þessar breytingar núna þó við séum á þeirri skoðun að á einhverjum tímapunkti þurfi að breyta þessu. Ástæðan fyrir því að við viljum bíða með þetta er sú að okkur finnst ekki ganga nógu vel að efla aðildina að LK, við fórum í átak í haust og voru heimtur verri en við vonuðumst eftir. Finnst okkur ekki rétt á meðan er verið að reyna að ná bændum inn í LK að byrja á að henda þeim út úr félaginu okkar, verður tæplega auðveldara að ná þeim inn aftur. Staðan í aðild að LK á okkar svæði var um áramótin sú að af 218 innleggjendum á mjólk voru 93 skráðir í LK eða um 43%. Í þessu ljósi teljum við rétt að bíða með breytingar á samþykktum að sinni. Ég er hugsi yfir þessari slöku þátttöku hér á okkar svæði sem svo birtist í því að nú eigum við einungis 5 fulltrúa á aðalfund LK þrátt fyrir að rúmlega 35% mjólkurframleiðenda séu á okkar svæði og tæp 40% innveginnar mjólkur komi héðan. Það væri gagnlegt í umræðum á eftir ef fólk vildi tjá sig um sína skoðun á þessum málum.

Mjólkurframleiðslan á landinu gekk í heildina vel á síðasta ári og var það met ár í framleiðslu með rúmlega 151 milljón lítra. Og var meðalnytin annað árið í röð yfir 6.000 lítra sem mjög ánægjulegt ekki síst í því ljósi að þátttaka í skýrsluhaldi var í fyrsta skipti 100% og fjölgaði árskúm þess vegna um tæplega 1.350. En mjólkurframleiðendum heldur áfram að fækka og fækkaði á okkar svæði um 7 á síðasta ári og voru innleggjendur 218 um síðustu áramót.

Síðustu ár hafa verið mjólkurframleiðendum hagfelld og stöðug söluaukning á hverju ári en það eru blikur á lofti. Á síðasta ári hægði verulega á sölu og var aukning á sölu mun minni en árin á undan. Tilkoma Costco hafði þarna mikil áhrif, en það var aukning í sölu fyrri hluta ársins.
Mismunur í sölu á fitu og próteini eykst og var rúmir 12 milljón lítrar á síðasta ári. Þessi mikli munur er orðinn mjög íþyngjandi fyrir iðnaðinn. Og erfitt að ráða við með núverandi verðlagskerfi.

Tollasamningur Íslands og ESB tekur gildi í maí. Þegar hann verður að fullu kominn til framkvæmda mun heimild til innflutnings á ostum án tolla aukast um 510 tonn sem samsvarar 5 milljón lítra af mjólk eða framleiðslu 20 meðalbúa. Pálmi Vilhjálmsson hefur tekið saman skýrslu um áhrif tollasamningsins þar áætlar hann að tap vegna tapaðra markaða og annarra áhrifa gæti numið 1.200-1.600 milljónum á ári eða ca. 10 kr. á líter. Ég held að það sé stór áskorun fram undan hjá okkur kúabændum og afurðasölufyrirtækjunum okkar hvernig við verjum markaðinn og tryggjum að það séu íslenskir kúabændur sem framleiða mjólk fyrir íslenska markaðinn. Og í leiðinni komum traustari stoðum undir afurðafyrirtækin.

Framleiðsla nautakjöts og sala jókst um 5,2% og seldust í fyrra 4.603 tonn. Innflutt nautakjöt er orðinn stór hluti af því nautakjöti sem er neytt hér á landi og enn bætir í og jókst innflutningur um tæp 35% á síðasta ári. Óneitanlega finnst manni svolítið skrýtið að á sama tíma og innflutningur eykst sé viðvarandi 4-6 vikna bið eftir slátrun líkt og er hjá SS þrátt fyrir aukna slátrun.

Með hliðsjón af aukinni sölu og þessum innflutningi ættu að vera einhver tækifæri í að auka innlenda framleiðslu á nautakjöti. Og með nýjum búvörusamningi var sett aukið fjármagn í þessa grein sem vonandi verður hvati til að gera betur.

Vissulega voru það mikil vonbrigði þegar frystiskyldan á innfluttu kjöti var dæmd ólögleg með hrákjöts dómnum svokallaða. Spurning með hvaða hætti er hægt að bregðast við. Ég veit að Bændasamtökin eru að vinna að þessu og ætla að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að hnekkja þessu. Við verðum að sjá hvernig þetta fer.

Á síðasta ári var tekið upp nýtt kjötmat, svokallað EUROP mat, sem menn þekkja úr sauðfjárræktinni. KS var fyrst að taka matið í gagnið. Það komu í ljós einhverjir hnökrar og óánægja með matið til að byrja með eins og kannski við var að búast. LK fór í heilmikla vinnu við að meta mun á greiðslum til framleiðenda eftir nýja kerfinu miðað við eldra kerfi. Og í kjölfarið var verðskrá uppfærð. Hefur LK nálgast þetta á þann hátt að heildar greiðslur til framleiðenda minnki ekki. En vissulega færast greiðslur eitthvað til, það er þeir sem eru með bestu gripina ættu að fá heldur hærra verð og þeir framleiðendur sem eru með lakari gripina fá lægra verð. Með þessu ætti að myndast hvati fyrir framleiðendur að bæta sig. Auðvitað verður svona breyting aldrei gerð án gagnrýni og alltaf erfitt að segja nákvæmlega hvar mörkin eiga að liggja. Ég hef samt þá trú að til framtíðar verði þetta greininni til góða.

Á síðasta ári var líka tekin í notkun á Stóra-Ármóti einangrunarstöð fyrir holdagripi og búið er að setja upp fyrstu innfluttu fósturvísana. Það er ánægjulegt að þetta verkefni sé loksins komið þetta langt en það eru orðin ansi mörg ár síðan byrjað var að hreifa við þessum málum. Vissulega kostar þetta ferli og einangrunarstöðin talsvert en stöðin er þá til taks ef menn vilja í framtíðinni fara í frekari kynbætur. Vonandi á þetta verkefni eftir að ganga vel og styrkja við innlenda framleiðslu nautakjöts.

Líkt og ég sagði áðan þá eru blikur á lofti og ógnanir af innflutningi sem vofa yfir okkur kúabændum um þessar mundir. Inn í þetta spilar svo umræðan um kvóta og ekki kvóta sem hefur skapað ákveðna sundrung meðal okkar kúabænda sjálfra. Um þau mál þurfum við að ná einhverri sátt. Inn í þessa kvóta umræðu þurfum við líka að taka hvernig við ætlum að hafa verðlagningarmálin. Ég held að mjólkuriðnaðurinn verði að fá meira frelsi til verðlagningar bæði út á markað og til okkar framleiðenda, til að hann hafi eitthvað svigrúm til að bregðast við verðþrýstingi sem innflutningur mun valda og til að bregðast við því misvægi sem er í sölu á fitu og próteini.

Í mínum huga er ekkert val um annað en að bregðast við og verja markaðinn með öllum tiltækum ráðum. Því um leið og við gefum eftir markað þá veit enginn hvar það stoppar.

Vil ég hvetja bændur til að standa saman því þó okkur greini á einhverjum málum þá eru mikli fleiri mál sem við eigum sömu hagsmuni að verja.

Að lokum vil ég þakka meðstjórnendum mínum þeim Borghildi og Reyni sem og félagsráðinu fyrir samstarfið á árinu. Takk fyrir gott hljóð.

Reikningar – Borghildur Kristinsdóttir
Borghildur Kristinsdóttir, gjaldkeri, fór yfir reikninga félagsins 2017. Hagnaður af rekstri félagsins var um 31 þúsund, en árið áður var um 242 þúsund króna tap. Helsti munur milli ára er minni rekstrarkostnaður, s.s. mun lægri fundarkostnaður og lægri árgjöld til BSSL.
Reikningar samþykktir samhljóða.

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins
Valdimar gaf orðið laust varðandi skýrslu formanns og reikninga félagsins.
Ragnar, L-Ármóti spurði um fjölda innleggjenda sem væru skráðir í LK.
Margrét Gísladóttir, LK svaraði því að þeim hefði fjölgað undanfarna daga í 105 innleggjendur á svæðinu sem væru félagar í LK.

Tillaga um árgjald FKS og stjórnarlaun – Borghildur Kristinsdóttir
Aðalfundur FKS haldinn í Gunnarsholti 12. febrúar 2018 samþykkir að árgjald verði miðað við útgefið lágmarksverð til bænda með greiðslumark í afurðastöð. Jafngildir 50 lítra mjólkur. Laun formanns verði árlega miðað við jafngildi 2500 lítra mjólkur. Laun ritara og gjaldkera verði árlega miðuð við lágmarksverð 1250 lítra mjólkur. Greitt fyrir akstur félagsráðsmanna og stjórnarmanna samkvæmt ríkistaxta per kílómeter.
Samþykkt samhljóða.

Arnar Árnason formaður og Margrét Gísladóttir framkvæmdastjóri LK
Arnar: Ákveðið að sleppa haustfundum að þessu sinni, hefur mælst misvel fyrir sig, en var gert vegna þess að framkvæmdastjóri fór í fæðingarorlof en eins vegna þess að ekki leit út vel með tekjuöflun LK. Sparnaður í launakostnaði og eins í fundarkostnaði en einig fengust 10 milljónir vegna eftirstöðva úr búvörusamningi. Næstu verkefni er endurskoðunarvinna vegna stefnumótunar mjólkurframleiðslu og kjötframleiðslu. Greiða atkvæði vegna endurskoðunar búvörusamninga 2019, bæði vegna kvótakerfis og eins vegna endurskoðunar annarra þátta búvörusamnings. Eftir næsta aðalfund verður ekki annar aðalfundur fyrr en búið verður að greiða atkvæði um endurskoðun búvörusamnings.

Margrét: Innvigtun var 151 milljón lítrar árið 2017 sem er aukning um 0,5% frá árinu áður. Söluaukning um 2,5% milli ára. Framleiðendum hefur fækkað um 12 árið 2017, en greiðslumark eykst um 1 milljón lítra frá 2017 til 2018.

EFTA-dómstóll; má flytja inn hrátt kjöt, egg og mjólkurafurðir. BÍ hóf strax að greina áhrif á tekjur íslenskra búgreina af þessum dómi. Reiknað með að skila samantekt í lok febrúar og ítarleg greinargerð send til atvinnuvegaráðherra þar sem útlistaðar eru nauðsynlegar breytingar á tollum og sóttvörnum. Á að vera tilbúið fyrir Búnaðarþing.

Innleiðing EUROP-mats: var farið í vinnu vegna þess þegar KS fór að greiða eftir þessu. Þegar fyrsta verðskrá kom út var töluverð verðlækkun í henni, rætt við KS sem varð til þess að verðskráin var leiðrétt. Hækkun er örlítil frá því að gamla kjötmatskerfið var notað. Heildargreiðsla til bænda lækkar ekki, en hækkar aðeins. Þetta verður verkefni hjá LK á þessu ári þegar fleiri sláturleyfishafar fara að borga eftir EUROP-matinu og sjá til þess að þar fari ekki fram „falin verðlækkun“. Um 4.900 gripir hafa verið flokkaðir í EUROP á árinu, þeir sem lenda í U og R eru langflestir holdablendingar.

Breytingar á reglugerðum búvörusamninga: Menn vinna með vankanta reglugerða. Aðallega afgreiðsla Búnaðarstofu á umsóknum. Skilafrestur um beiðni um innlausn og kaup kvóta hefur færst fram um hálfan mánuð. Gert til að Búnaðarstofa geti unnið úr þessu öllu

122 kr./l innlausnargjald kvóta 2018. Ákveðið í byrjun árs og ákveðið út árið.

Nýliða breytt; var áður þannig að maður gat ekki verið nýliði nema að maður byrjaði búskap eftir 1.1.2017, en nú hefur því verið breytt og nú geta þeir sótt sem hófu búskap eftir 1.1.2016 (eða fyrstu 3 ár búskapartíðar). Nú er einnig rýmri kassi varðandi framkvæmdastyrki.

Fjárfestingastuðningur 198 millj. kr. á árinu 2018. Umsóknarfrestur 31. mars á framkvæmdaárinu.

Samúel: Er búið að ákveða hvað á að gera við framleiðslujafnvægið?

Arnar: Fer að stórum hluta í einangrunarstöðina.

Stefnumótun LK: Skipaðir tveir hópar fyrir stefnumörkun, annars vegar fyrir mjólkurframleiðslu og hins vegar fyrir nautakjötsframleiðslu. Byggt á eldri stefnumörkun en einnig fjallað um umhverfismál, markaðsmál, framleiðslumál, starfsumhverfið. Bændur, afurðastöðvar, matreiðslufólk, gestir (t.d. frá verslun, innflutningsaðilum og heildsölu). Reynt að fá sem flestar raddir inn í þessa vinnu. Fræðsla og ráðgjöf; vilja bæta aðgengi að því og hvetja til þess að fólk sæki sér slíkt. Kynnt verða drög að stefnumörkun á aðalfundi LK nú í apríl.

Atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðenda og endurskoðun búvörusamninga: Verða haldnar 2019 og 2023. Var mjög gott samtal innan endurskoðunarhópsins, menn voru búnir að kynna sér málin mjög vel. Vinnan gekk vel. Nú er búið að endurskipa í hópinn og fækka í hópnum í 8 úr 13. Atkvæðagreiðsla verður haldin á fyrsta ársfjórðungi 2019 um hvort kvótakerfið verði fellt úr gildi 1.1.2021. Það liggur ekki fyrir hvernig spurningin verði orðuð, atkvæðagreiðsla verður framkvæmd af BÍ. Undirbúningur er hafinn af hálfu LK en kynning fer fram í lok þess árs eða byrjun þess næsta.

Aðalfundur LK 2018 verður haldinn á Selfossi 6.-7. apríl. Stærsta verkefnið er stefnumótun og undirbúningur fyrir atkvæðagreiðsluna 2019.

Arnar: Atkvæðagreiðsla og mikilvægi þess sem þar kemur fram. Ekki þannig að lausnir verði réttar að LK, miklu frekar að LK rétti ríkisvaldinu mögulegar lausnir eftir því hvernig niðurstaða atkvæðagreiðslu verður.

Elín Bjarnveig, Egilsstaðakoti: Atkvæðagreiðsla um kvóta komið frá Bændasamtökunum en stjórnvöld virðast ekki taka ábyrgð á henni og niðurstöðu hennar. Bændur eru að semja við Ríkið svo það er ekki víst að ríkisvaldið verði ekki sátt við niðurstöður kosninga. Varðandi nýliðunar styrk: hefur verið gagnrýndur. Vil heyra viðhorf LK á þeim málum. Skv. reglugerðum eru meira metnar háskólagráður sem ekki koma nálægt búskap, læknar ganga framar búfræðingum. Reynsla ekki hátt metin þegar styrkir eru greiddir út. Hefur eins áhyggjur af því hvað er framleidd mikil mjólk. Rekstur mjólkuriðnaðar gengur illa vegna þess að iðnaðurinn hefur ekki svigrúm til að hækka sínar afurðir í verði. Hve lengi á að verðlauna þá sem bættu við framleiðslu þegar vantaði mjólk, er ekki betra að verðlauna frekar þá sem eru nýliðar? Eins hefur hún áhyggjur af því hvað er flutt inn mikið af nautakjöti. Nær undantekningarlaust innflutt kjöt á matseðlum veitingastaða en eins í kjötborði stórverslana. Ekki í boði að borga hærra verð fyrir íslenskt kjöt en innflutt. Vonar að fleiri gangi í félagið í stað þess að sitja heima og kvarta og kveina.

Arnar: Menntun vegna nýliðastyrkja; LK fékk þessar reglur ekki til umsagnar áður en þær voru teknar gildar. Búfræði á ekki að leggja til hliðar, iðnaðarmaður þarf ekki endilega að vera verri bóndi en einhver með búfræðimenntun. Eins eru reglur um kynjakvóta o.þ.h. sem hafa vakið líflegar umræður á fundum.

Útdeiling kvótans ber þess merki að þeir sem settu reglurnar voru hræddir um mjólkurskort. Þótti eðlilegt þá, en þykir óeðlilegt í dag þegar nóg er framleitt af mjólk. Varðandi kjötmat; EUROP-matið ætti að vera eitt af okkar sterkustu verkfærum sem við höfum í samkeppni við innflutning. Allir bændur geta nýtt þetta verkfæri með því að bæta fóðrun og aðbúnað. Íslenska nautakjötið er almennt besta kjötið sem íslenskir kjötiðnaðarmenn hafa til vinnslu, en það er erfitt að ná gæðunum jöfnum. Vísbendingar um að fallþungi og gæði séu að batna og það er mögulega vegna EUROP. Stjórnvöld eru ekki bundin með kvótaatkvæðagreiðslu, en í ljósi þess að stjórnvöld vilja vinna þessi mál með kúabændum, þá borgar sig fyrir bændur að vera fyrri til og hanna lausnir við því hvernig atkvæðagreiðslan fer. Er mjög bjartsýnn fyrir hönd endurskoðunarnefndar búvörusamninga núna þegar bæði Haraldur Benediktsson og Brynhildur Pétursdóttir eru formenn nefndarinnar. Langstærstu tækifæri íslensks landbúnaðar eru innanlands, meðal annars varðandi innkaupastefnu Ríkisstofnana (t.d. LSH og fleiri mötuneyti).

Margrét: Stjórnvöld eru ekki bundin af atkvæðagreiðslu, en ekki viss um að ríkisvaldið gefi alveg skít í þær, allavega eins og ríkisstjórnin er skipuð núna. Nýliðunarstuðningur; áherslur koma frá SUB um hvernig eigi að raða m.t.t. menntunar.

Brynjólfur, Kolsholtshelli: Félagskerfið; fullt af ákvörðunum sem LK framkvæmir sem bændur hafa ekkert að segja um. Er eftirlit með kúabændum komið inn í MS að hluta til, hvernig er þetta að verða? Verður ekki var við breytingar fyrr en þær skella á. Var þetta eitthvað rætt meðal bænda? Af hverju eru svona fáir meðlimir í LK, er þetta norski klúbburinn eða kvótaklúbburinn? Þurfa bændur ekki að standa betur saman? Verslunin hrærir saman íslenskum vörum og erlendum og endurpakkar erlendum vörum. Varla hægt að sjá upprunamerkingu, svo smátt letur. Verslunin er að hræra í þessu til að plata kúnnann svo hún geti selt hvað sem er.

Reynir, Hurðarbaki: Félagskerfið; hefur áhyggjur af því að það sé ekki nægileg þátttaka í LK. Finnst stjórn LK ekki hafa verið með á nótunum og algert klúður að hafa ekki verið með haustfundi. Varðandi kosningar 2019; fyrst kosið um kvótann áður en búvörusamningar eru endurskoðaðir. Finnst að hann verði að vita hvað kemur út úr endurskoðun áður en kosið er með eða á móti kvóta. Vill heyra álit Arnars á endurskoðuninni. Telur að nýliðunarstuðningur sé eitt stórt slys. Er kominn á þá skoðun að nýliðunarstuðningur eigi ekki að vera inni í búvörusamningum

Hrafnhildur, Litla-Ármóti: Hvernig er stemmningin þegar þið hittið fólk? Finnið þið ástæður fyrir lítilli þátttöku í LK?

Reynir, Hurðarbaki: Fór fyrir áramót að reyna að smala fólki í LK. Viðmótið gagnvart LK var mjög neikvætt; allt rófið. Fólk vissi ekki fyrir hvað LK stendur, og svo framvegis. Það gengur vel hjá LS að safna inn; telur það vera vegna þess að Oddný hefur verið í fjölmiðlum og fréttum stöðugt að tala um bændur.

Ágúst, Læk: Verða tveir forgangshópar varðandi kvótamarkað, eru mikið fleiri komnir inn í forgangshóp vegna breytinga á reglum um forgangsumsækjendur?

Samúel, Bryðjuholti: Margrét nefndi að við endurskoðun á búvörusamningum væri gott ef ekki þyrfti að sækja meiri pening til ríkisins. Við eigum alltaf að sækja meiri pening til ríkisins og láta ekki deigan síga.

Daníel, Akbraut: Eruð þið með kúrfu yfir innflutning á nautakjöti, hvenær ársins er mest flutt inn af því? Bændur þurfa að taka sig til og framleiða kjötið jafnar yfir árið, bið núna en í ágúst-september er skortur á gripum í sláturhús. EUROP-mat; það voru mjög lélegir árgangar teknir inn á nautastöð varðandi vaxtargetu sem skilaði sér í léttari og lakari nautkálfum til slátrunar. Formannafundur BSSL; nú ætti að fara að vinna nýtt forrit fyrir jörð.is. Þetta forrit verður að vera endanleg skil á forðagæslu.

Margrét: Varðandi bréf frá Auðhumlu; mjólkureftirlitið færðist frá MS yfir til Auðhumlu um áramót. Hið opinbera eftirlit er hins vegar hjá MAST áfram. Heimild Auðhumlu til að fylgjast með hefur verið uppfærð. LK aflaði upplýsinga frá MS hvernig þetta væri kynnt – sent bréf til bænda. Varðandi upprunamerkingar þá hefur það margoft verið tekið upp á aðalfundi LK. Nú er skylda að upprunamerkja allt nautakjöt, en LK hefur oft gælt við þá hugmynd að upprunamerkja kjöt á veitingastaði einnig. Í stefnumótunarhópi LK fyrir nautakjöt er veitingamaður af Dill sem er eini íslenski veitingastaðurinn með Michelin-stjörnu og honum reynist það mjög vel að auglýsa uppruna íslensks nautakjöts. Þar sem að mikill hraði er á afgreiðslu á veitingastöðum er mikilvægt að allt kjöt sé af sömu gæðum, sem hefur aðeins verið gagnrýnt að íslenska kjötið sé of breytilegt að gæðum.

Atkvæðagreiðsla á að vera á fyrsta ársfjórðungi 2019 eða áður en endurskoðun fer fram til að vita hvað bændur kjósa varðandi kvótakerfi. Ef niðurstaðan verður að hætta með kvótakerfi heldur samningurinn óbreyttur áfram, en ef niðurstaðan verður að halda í kvótakerfi þá þarf að endurskoða samninginn.

Breytt skilgreining nýliða; þá fjölgar þeim í þeim forgangshópi.

Eðlilega verður auðveldara að fá í gegn breytingar á búvörusamningum hjá Ríkinu ef ekki fylgja breytingunum aukin útgjöld fyrir Ríkið.

Innflutningur á nautakjöti; salan er lang mest yfir sumarið. Mestur innflutningur í maí, og aftur í lok árs.

Arnar: Félagskerfið er flókið. Breyting félagskerfis á eftir að taka mikið pláss á Búnaðarþingi núna. Menn verða að borga í mörg félög til að eiga sinn rétt í félagskerfinu. Kerfið er hætt að fjármagna sig eftir að búnaðargjald var fellt niður. Aðeins farið að ræða hvernig er hægt að lækka rekstrarkostnað búgreinafélaga, BÍ og búnaðarsambanda. LK leggur til að stofnaður verði starfshópur sem vinnur þetta mál. Mistekist að ná fólki inn; nú eru 65-66% framleiddra mjólkurlítra sem greiða til LK. Stefnt var á 90%, til að halda rekstri óbreyttum, en nú er líka horft til annarrar tekjuöflunar til að halda starfsemi óbreyttri. Mikil misskipting milli landshluta, Eyjafjörður t.d. nærri 100% og Skagafjörður 80%. LS er með 75% þátttöku og fast árgjald (17.000 kr./ári). Ákveðið á sínum tíma að innheimta veltutengt árgjald hjá LK. Fast gjald hefði orðið að vera svo hátt fyrir LK að menn treystu sér ekki í það. FKS-svæðið sker sig úr hvað er lítil þátttaka en ekki alveg ljóst hvers vegna. Kannski var slæm ákvörðun að sleppa haustfundum.

Afurðaverð allt of hátt hér? Það verður að vera tengt við kaupmátt í landinu. Við tryggjum enga nýliðun betur en með því að afurðaverðið standi undir því að það sé hagkvæmt að framleiða mjólk.

Skattaafsláttur – ekki lengur í boði að kaupa sér eign á móti við sölu búrekstrar vegna þess að ábúandinn var ekki skráður bóndi heldur var búið rekið sem ehf.

Ástæður fyrir því að ekki er meiri þátttaka í LK: menn telja sig vera í LK en átta sig ekki á því að það þarf að ganga í félagið. LK þarf að vera sýnilegra.

Fyrirmyndarbú; 2% álag á tekjurnar. Það eru tugir milljóna í umferð sem bændur eru ekki að sækja vegna þess að þeir eru ekki búnir að sækja um úttekt.

Verðlagsgrunnur; það reiknast lækkun í honum núna. Verður ekki lækkun á mjólkurverði á meðan er ekki samtal við ríkið. Erum að laga okkur að samkeppni.

Jón Örn, Nýjabæ: Fékk ekki boð á fundinn því mjólkurbíllinn kemur ekki til hans. Byrja að þrýsta á afurðafélögin sem eru „í eigu bænda“ til að kjósa íslenskar afurðir, þrýsta á stjórnvöld að nota íslenskar afurðir í ríkisrekin mötuneyti. Upplýsingar um hvaða gripir eru bestir eru í Huppu en það þarf að bæta upplýsingar um hvað er mikið kjöt á leiðinni. Fáum gæðagreiðslur á hverjum ársfjórðungi en veit ekkert hvenær sláturhúsin vilja fá kjöt.

Daníel, Akbraut: Ræddi um val á nautum þegar nautakjötsframleiðsla með íslenskum gripum er annars vegar. Eins ef allir fara í gæðastýringu og fyrirmyndarbú, þá fyrst færi MS að kveina. Staða MS er mjög tæp.

Þórunn, Bryðjuholti: Jarle hefur aðgang að skýrslum hjá MAST, það á ekki að vera í neikvæðum tilgangi. Þess að auki er nauðsynlegt að Auðhumla viti áður en fjölmiðlar ef á að fara að loka einhversstaðar. Við verðum að treysta því að Jarle fari ekki með þetta lengra en til sín og vinni með bændum. Fyrirmyndarbú fer illa í bændur á Suðurlandi, verðum að fara með þetta sem markaðsmál. Kostar að passa markaðinn sinn. Komin fyrirspurn frá stórum ostkaupanda hvort við séum að nota erfðabreytt fóður fyrir kýrnar, ef markaðurinn kallar eftir þessu verðum við að haga okkur eftir því. Við verðum að hugsa um ímynd okkar, það er eina baráttuvopn okkar.

Margrét: Matarauður Íslands – kemur í ljós að það er verið að endurskoða innkaupastefnu Ríkisins (hefur ekki verið endurskoðað síðan 2002.) Leggja áherslu á íslensk matvæli í innkaupastefnu Ríkisins. Matvæli eru fimmti dýrasti flokkurinn í innkaupum ríkisins.

Fyrirmyndarbú; við erum alltaf að stæra okkur af sérstöðu íslensks landbúnaðar, falleg fjölskyldubú, heilbrigði dýra, lítil sýklalyfjanotkun. Ímynd skiptir mjög miklu máli, neytendur vilja meiri upplýsingar um aðbúnað, starfsemi á búum og fleira, umhverfi og ásýnd búa. Ekkert mál að fá Jarle í heimsókn, en getur komið aftur og skilur eftir sig athugasemdir. Hvetur eindregið til að fá úttekt.

Arnar: Fyrirmyndarbúið; hægt að sækja peninga þar. Ekki rök að MS fari á hausinn ef allir fara í þetta. Verðlagningu vegna gæða var breytt til að taka tillit til þessa.

Hrafnhildur: Hver er stefnan? Hjá sumum tekur 2-3 ár að ná greiðslum fyrir Fyrirmyndarbú, verður hætt að greiða þetta þegar hann kemur inn í þetta?

Kosningar

Kosning formanns
Rafn Bergsson, Hólmahjáleigu: 26 atkvæði
Auðir seðlar: 1 atkvæði

Rafn Bergsson endurkjörinn formaður félagsins.

Kosning 9 fulltrúa í félagsráð og 3 varamanna
Samúel U. Eyjólfsson, 24 atkvæði
Bjarni Másson, 23 atkvæði
Sævar Einarsson, 21 atkvæði
Ágúst Ingi Ketilsson, 20 atkvæði
Jóhann Nikulásson, 18 atkvæði
Guðmundur Jón Jónsson, 18 atkvæði
Páll Jóhannsson, 18 atkvæði
Bjarni Bjarnason, 16 atkvæði
Þórir Már Ólafsson, 16 atkvæði

Bóel Anna Þórisdóttir – 1. varamaður (16 atkvæði)
Ragnhildur Sævarsdóttir – 2. varamaður (16 atkvæði)
Charlotte Clausen – 3. varamaður (16 atkvæði)

Kosning 5 fulltrúa á aðalfund LK
Jói, Hildisey: Vill stíga til hliðar og hleypa þeim að sem yngri eru og gefur því ekki kost á sér sem fulltrúi á aðalfund LK.
Rafn Bergsson, 27 atkvæði
Borghildur Kristinsdóttir, 19 atkvæði
Samúel U. Eyjólfsson, 17 atkvæði
Reynir Þór Jónsson, 11 atkvæði
Hrafnhildur Baldursdóttir, 8 atkvæði (sigraði hlutkesti)

Ragnar Finnur Sigurðsson, 8 atkvæði
Ágúst Guðjónsson, 7 atkvæði
Ágúst Ingi Ketilsson, 5 atkvæði
Daníel Magnússon, 4 atkvæði (sigraði hlutkesti)
Sigríður Jónsdóttir, 4 atkvæði

Kosning fulltrúa á aðalfund BSSL
Kosningu vísað til félagsráðs.

Kosning skoðunarmanna reikninga
Stungið var upp á skoðunarmönnum reikninga; þeim Daníel Magnússyni og Jóni Vilmundarsyni. Auk varamanna; Grétari Sigurjónssyni og Arnfríði Sædísi Jóhannesdóttur.

Samþykkt með lófaklappi.

Viðurkenningar frá Búnaðarsambandi Suðurlands – Guðmundur Jóhannesson/Jóna Þórunn Ragnarsdóttir

Afurðahæsta kúabú Suðurlands árið 2017 – Huppustyttan – var veitt Gunnbirni ehf, Skáldabúðum, en þar mjólkuðu kýrnar að meðaltali 8.183 kg (601 kg MFP).

Afurðahæsta kýr á Suðurlandi árið 2017 var Skauta 659 frá Böðmóðsstöðum 2 en hún mjólkaði 13.132 kg mjólkur á árinu.

Þyngsta ungneytið var holdablendingur frá Nýjabæ, Vestur-Eyjafjöllum, en hann var 446,6 kg að fallþunga. Hann flokkaðist í UN O3+ og var 24,5 mánaða gamall.

Önnur mál
Brynjólfur, Kolsholtshelli: Verðlauna gripi, kýrnar ættu að hafa nafn en það er mikið ímyndarmál fyrir kúabændur.

Ágúst, Læk: Hvetur stjórn til að skoða og gefa út hvort verði áfram tvöfalt félag, hvaða afleiðingar hefur það ef fáir eru í LK? Við sunnlendingar höfum minni áhrif en áður innan LK.

Arnar: Tvískipt kerfi, það er eitt félag búið að stíga þetta skref (Skagfirðingar)allir félagar í Félagi kúabænda í Skagafirði eru sjálfkrafa félagar í LK.

Samúel, Bryðjuholti: Finnst að félagar FKS ætti að vera sjálfkrafa í LK. Fjölgum félagafjölda í LK um t.d. 30% með því að taka líka makann inn í FKS. Hafa eitt gjald fyrir bú en ekki tvö félagsgjöld.

Reynir, Hurðarbaki: Á Suðurlandi eru 159 í LK en rúmlega 230 í FKS. Það eru margir í FKS sem koma aldrei aftur inn í FKS sé sett þannig að menn séu sjálfkrafa félagar í LK.

Rafn, Hólmahjáleigu: Er sammála að það væri eitt félag, en talið betra að bíða að sinni að framkvæma það. Sæi fyrir sér að LK myndi rukka inn gjald og greiða svo til landshlutafélaganna einhvern styrk. Einstaklingafjöldi þarf að vera sem hæstur, væri ekki eðlilegra að greitt væri eitt gjald fyrir hvert bú, en ekki x sinnum árgjaldið. Varðandi fjölda fulltrúa á aðalfund, frekar miða við fjölda innleggjenda heldur en fjölda einstaklinga. FKS er ekkert sterkara en að félagarnir vilja hafa það. „Hvað vil ég að LK geri fyrir mig, ekki hvað getur LK gert fyrir mig?“

Fleira ekki rætt. Fundi slitið kl. 16.15.


back to top