Félagsráðsfundur FKS 23. maí 2005

Félagsráðsfundur Félags kúabænda 23. maí 2005


Fundur í Félagsráði mánudagsdvöldið 23. maí 2005 haldinn í Árhúsum Hellu kl: 21:00.
Sigurður Loftsson, formaður setti fund kl. 21:07, bauð fundarmenn velkomna og sérstaklega gesti fundarins,  Runólf Sigursveinsson, Jóhannes Símonarson og Valdimar Bjarnason frá Bssl og Margréti Ingjaldsdóttur, búvísindanema frá LBHÍ en hún er þessa dagana að kynna sér starfsemi Bssl. og loks Guðmund Stefánsson framkvæmdastjóra Lánasjóðs landbúnaðarins.


1. Hagkvæmni mjólkurframleiðslu með eða án greiðslumarks og áhrif hás kvótaverðs á afkomu og nýliðun í greininni.
Formaður sagði að ástæðan fyrir því að fá Bssl.menn á fundinn væri sú að  þeir hefðu verið að vinna að úttekt á þessum málum og bauð þeim að kynna þær niðurstöður sem þegar væru komnar úr vinnu þeirra.


Runólfur kynnti hvernig þeir skiptu með sér verkum, þ.e. í þrjá hluta. Í fyrsta lagi myndi Valdimar fjalla um mismunandi möguleika á framleiðslu með eða án greiðslumarks. Í öðru lagi myndi Runólfur fjalla um möguleika fyrir frumbýlinga.
Loks myndi Jóhannes fjalla um hagkvæmni kvótakaupa.


Valdimar fjallaði um núverandi stöðu og möguleika í rekstri kúabúa. Tók mið af meðal-Sunnubúinu árið 2003 til að meta mismunandi kosti í rekstri. Í fyrsta lagi að selja allt greiðslumarkið og gera upp sínar skuldir en halda áfram framleiðslu á afurðastöðvaverði.  Í öðru lagi að skoða möguleika á lækkun breytilegs kostnaðar og á hálfföstum kostnaði. Í þriðja lagi skoðað hve afgerandi áhrif mismunandi framlegð hefði á afkomu kúabænda.


Runólfur fjallaði um möguleika frumbýlinga að koma inn í greinina á mismunandi forsendum miðað í öllum tilvikum  við bú sem væri með um 200.000 lítra framleiðslu á ári. Ljóst að búgreinin er að lokast frumbýlingum nema því aðeins að mjög mikið eigið fé sé til staðar og/eða að seljendur slái verulega af verði jarðanna.


Jóhannes kynnti líkan til að meta hagkvæmni  kvótakaupa út frá gefinni ávöxtunarkröfu, mismunandi breytilegum kostnaði og mismunandi hrakvirði kvóta í lok samningstíma. Tekið var tillit til skattalega atriða.


Eftir kynninguna á úttektinni var mikið rætt um hátt kvótaverð, hvort sterkir fjárfestar hefðu haft áhrif á þessari miklu hækkun ?


Lítil hreyfing virðist vera á sölu/kaupum á kvóta enda fyrirséð að greitt verði í það minnsta próteinhluti afurðastöðvaverðs fyrir allt að 6,5 milljónir lítra umfram greiðslumark. Mjög miklar líkur eru á verulegri aukningu greiðslumarks fyrir næsta verðlagsár.


Sigurlaug í Nýjabæ velti því upp hvort ekki þyrfti að kynna enn frekar mjólkursamninginn fyrir bændum, fundarmenn töldu það kannski rétt en að hann væri aðgengilegur til lesningar t.d. á netinu.
Jóhann í Hildisey þakkaði fyrirlesurum greinargóða lýsingu á framleiðsluúttektinni og fannst ótrúlegt að sjá hve það getur verið lítill munur á greiðslumarksbúi og að framleiða á afurðastöðvaverði án greiðslumarks miðað við ákveðnar forsendur.
Til að ná fram aukinni hagræðingu verði að lækka kostnað við heimaaflað fóður, breyta kjarnfóðurtollum og skoða annað kúakyn.
Sveinn í Reykjahlíð vill sjá þessa útreikninga með öllum forsendum þ.m.t. vélakaup.
Valdimar í Gaulverjabæ vill meina að bændur geti náð betri árangri ef þeir skipuleggi t.d. vélakaup og samnýtingu véla betur en nú er.
Gunnar í Hrosshaga benti á hve kvótaverð væri afgerandi í heildarverði jarða.
 
2. Staða skuldara við sölu Lánasjóðs landbúnaðarins og hvernig ráðgjöf nýtist bændum best við þær aðstæður.
Formaður vakti athygli á því að Félagsráð sendi frá sér ályktun vegna Lánasjóðsins á sínum tíma. Stuttu seinna var skipaður starfshópur til að fjalla um framtíð Lánasjóðsins. Starfshópurinn lagði til að sjóðurinn yrði lagður niður um næstu áramót. Formaður beindi orðum sínum að Guðmundi Stefánssyni og bað hann að  kynna niðurstöðu starfshópsins og stöðu málsins í dag..


Guðmundur þakkaði fyrir að fá að sitja þennan fund og sérstaklega framsöguerindi. Sagði að starfshópurinn um Lánasjóðinn hefði lagt til að sameina eða selja sjóðinn. Niðurstaða stjórnvalda hefði veið sú að selja sjóðinn og leggja hann niður frá og með næstu áramótum. Sagði vaxtalækkun vera til góðs fyrir alla landsmenn og að bændur hefðu lagt til að hætta greiðslum til sjóðsins í gegnum búnaðargjaldið. Þar með væri vandséð að tilverugrunnur sjóðsins væri lengur til staðar. Lagði áherslu á að það sé “líf eftir Lánasjóðinn”
Nú  þegar hafa verið greiddar upp skuldir við sjóðinn að upphæð um 2 milljarða króna. Hvatti bændur að flýta sér hægt, skoða helst uppgreiðslu ef töluverður hluti lána væru á hærri vöxtunum. Reikna má með að einhver hækkun vaxta sjóðsins verði ákveðin af stjórn áður en söluferli hefst, þ.e. hækkun á niðurgreiddu vöxtunum. Væntanlega yrði fastsett ákvæði við sölu sjóðsins, að kaupanda yrði óheimilt að hækka vexti hjá skuldurum umfram það sem stjórn sjóðsins ákvæði áður en til sölunnar kemur. Samkeppni sé núna mikil milli fjármálastofnana um að lána fólki og bændur nytu góðs af því.
Guðmundur taldi enga ástæðu til svartsýni vegna sölunnar og sagði Lánasjóðinn einfaldlega hafa verið barn síns tíma.
Hann telur nauðsynlegt að bændur hafi aðgengi að ráðgjöf varðandi hvað heppilegast sé að gera í stöðunni  og segir að búnaðarsamböndin hafi staðið sig vel í þeim efnum gagnvart Lánasjóðnum.
Í lokin líkti Guðmundur þessari stöðu sem bændur væru í, við að fara beint út í djúpu laugina og þar verði þeir bara að synda.


Formaður, Sigurður Loftsson, þakkaði Guðmundi hans innlegg og spyr út í þessa líkingu hvort bændur þurfi ekki að fara á sundnámskeið því ekki séu allir vanir að semja um lánskjör og hvað sé í boði og spyr einnig búnaðarsambandsmenn hvort þeir leggi þessu lið.


Fundarmenn ræddu  stimpilgjöld, vaxtaprósentu, mismunun á kjörum milli bænda, lántökukostnað, hvenær bændur hætti að greiða búnaðargjaldið og söluverðmæti sjóðsins.


Guðmundur Stefánsson telur vaxtaprósentu verða í jafnvægi, það sé eðlilegt að einhver mismunur verði milli manna á kjörum vegna veðhæfni og árangurs í rekstri, búnaðargjaldið verði greitt til áramóta en ekki ákveðið hvort það verði endurgreitt ef sjóðurinn verði seldur fyrr og segir að það sé í ótrúlega mörg horn að líta í þessu sambandi og mörgu ólokið sem þurfi að ræða og ganga frá.


Runólfur sagði að starfsmenn Búnaðarsambands Suðurlands hefðu í vetur haldið þrjá kynningarfundi með yfirmönnum bankaútibúa á Suðurlandi. Markmið fundanna var að kynna hvaða fjármálaþjónusta væri í boði hjá Búnaðasambandinu og farið yfir t.d. helstu þætti í SUNNU-verkefninu. Ljóst væri að þessir fundir væru að skila árangri sem birtist m.a. í því lánastofnanir væru betur meðvitaðar um, út frá hvaða grunni væri unnið í einstökum fjárfestingaáætlunum, sem síðan hefði áhrif á hvað hægt væri að bjóða í kjörum.


Guðmundur Stefánsson sagðist fá ýmsar gerðir af rekstrargreiningum og fjárfestingaáætlunum inn á borð til sín og áætlanir búnaðarsambandanna beri þar af og þá sérstaklega frá Búnaðarsambandi Suðurlands.


3. Önnur mál.
Egill á Berustöðum sagði að jafnvel mætti búast við verulegri aukningu á greiðslumarki inn á næsta verðlagsár. Ljóst að nú verði að keyra á framleiðsluna eins og hægt er. Hann segir að aukning sé og væntanlega verði áfram á skyrsölunni en samdráttur í drykkjarmjólk.
Að lokum var nokkur umræða um sölu á nýmjólk í stórmörkuðunum að undanförnu, þrátt fyrir að hún hafi nánast verið gefin hafi það ekki aukið söluna.


Fundi slitið kl: 00:16.


Katrín Birna Viðarsdóttir,
fundarritari


back to top