4. fundur 2005

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, haldinn 3. maí 2005 á skrifstofu Búnaðarsambandsins á Selfossi og hófst hann kl, 11 f.h. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Eggert Pálsson, Guðni Einarsson, Guðmundur Stefánsson og Egill Sigurðsson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.


1. Stjórnin skipti með sér verkum. Formaður var kjörinn Þorfinnur Þórarinsson, varaformaður var kjörinn Eggert Pálsson og ritari Guðmundur Stefánsson.
2. Farið yfir aðalfundinn og umræður þar.
3. Á fundinn komu fulltrúar frá Orfi-líftækni og skýrðu frá starfseminni, sem snýst um ræktun á erfðabreyttu byggi til lyfjaframleiðslu. Rætt var um öryggi þessarar ræktunar gagnvart lífríki landsins. Tilraun fór fram í Gunnarsholti þar sem engin blöndun fór fram við aðrar byggplöntur þar nærri, enda er byggplanta sjálffrjóvga. Fram kom að óháð rannsókn fer fram á vegum Umhverfisstofnunar í hvert skipti sem leyfi er gefið fyrir ræktun. Umhverfisstofnun hefur einnig eftirlitsskyldu með ræktuninni.
4. Farið yfir tillögur frá aðalfundi:
a) Tillaga um endurbætur á nautauppeldisstöð send BÍ og LK.
b) Tillaga um fiskræktarsjóð send landbúnaðarnefnd Alþingis, landbúnaðarráðherra og Landsambandi veiðifélaga.
c) Tillaga um umræðu um og varúð við ræktun á erfðabreyttum afurðum. Sent til þeirra sem aðalfundur ákvað. Stjórnin hefur þegar hafið umræðuna, sbr.lið 3. Fram kom að BÍ fyrirhugar að halda ráðstefnu um þetta efni að tilmælum Búnaðarþings.
d) Tillaga um raforkuverð og skipulagsbreytingar í raforkusölu. Sent iðnaðarnefnd Alþingis og iðnaðarráðherra.
e) Tillaga um olíugjald send fjármálaráðherra.
f) Tillaga um lokun kjötmjölsverksmiðju send umhverfisráðherra og SASS.
g) Tillaga um samstarf um endurmenntun bænda við LBHÍ. Send til LBHÍ. Rætt var um fleiri mál sem geta tengst þessu samstarfi.
h) Tillaga um skil á úrvinnslugjaldi á rúlluplasti. Sent Umhverfisráðuneyti og SASS.
5. Farið yfir starfsmannamál og skipan vinnurýma á skrifstofu. Ráðin hefur verið Helga Hauksdóttir til að starfa fyrir garðyrkjubændur. Þá voru rædd verkefnin framundan, sem eru talsverð í hrossasýningum og kvíguskoðunum. Mikið er að gera í bændabókhaldinu í skattframtölum og fleiru.
6. Önnur mál. Fram kom að sótt hefur um stuðning erfðanefndar búfjár til að koma upp genabanka sauðfjár við Sauðfjársæðingastöðina.













Fleira ekki gert, fundargerð upplesin, samþykkt og fundi slitið.


back to top