Félagsráðsfundur FKS 18. des. 2001

 

Mjólkuruppgjör 2000/2001
Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi fjallaði á fundi sínum 18 des. sl. um mjólkuruppgjör síðasta verðlagsárs og mál því tengdu. Samþykkt var eftirfarandi ályktun:

“Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi telur brýnt að fylgt sé fast eftir þeim reglum sem gilda eiga, um innvigtun mjólkur og útdeilingu beinna greiðslna. Jafnframt er lýst yfir áhyggjum með að uppi skuli vera lögfræðileg álitamál um fyrirkomulag þessara mála. Félagsráð óttast að málaferli af þessu tagi kunni að rýra traust almennings á því fyrirkomulagi sem mjólkurframleiðendur búa við og skaða ímynd stéttarinnar út á við. Einnig hafa þessi mál vakið upp spurningar um stöðu Bændasamtakanna sem í þessu máli gegnir hlutverki stjórnvalds, gagnvart umbjóðendum sínum. Félagsráðið telur óhjákvæmilegt að farið verði gaumgæfilega ofan í þessi mál og þess freistað að skapa um þau frið og traust milli aðila. Hér að neðan er bent á nokkkur atriði sem Félagsráðið telur brýnt að verði skoðað sérstaklega:


  1. Að öll mjólk frá framleiðendum sé innvigtuð með rafrænum hætti við dælingu í mjólkurbíl.
  2. Að löggiltir endurskoðendur mjólkursamlaganna staðfesti uppgjörstölur.
  3. Skoða þarf hvort auka eigi svigrúm í tilfærslum milli framleiðenda innan verðlagsára, með því að opna fyrir kvótaleigu . Þó með ákveðnum skilyrðum og að hámarki 5 – 10 %.
  4. Til að minnka spennu í viðskiptum með greiðslumark, verði lokasöludagur á greiðslumarki færður til loka júlí vegna viðkomandi verðlagsárs.
  5. Mikilvægt er að fyrir liggi með skýrum hætti, hver fer með ráðstöfun greiðslumarks ríkisjarða ef framleiðsla fellur niður við lok ábúðar eða með öðrum hætti. Eðlilegast væri að greiðslumarki í eigu ríkisins, sem losnar með þessum hætti úr framleisðlu yrði deilt út, eða þá selt á almennum markaði.
  6. Athugað verði sérstaklega hvort eðlilegt sé að Bændasamtökin hafi með höndum framkvæmd búvörusamninga.
  7. Mikilvægt er að allir málsaðilar staðfesti sameiginlega þann skilning sem að lagður er í uppgjörsreglurnar og þær séu tryggilega kynntar fyrir bændum árlega.
Það er eindregin ósk Félagsráðs Félags kúabænda á Suðurlandi að þessi atriði verði skoðuð með opnum huga.”

Stjórn Félags kúabænda á Suðurlandi
Sigurður Loftsson, Jóhann Nikulásson, Valdimar Guðjónsson.

Tillagan var send Framkvæmdanefnd búvörusamninga, Landbúnaðarráðuneyti, LK, SAM, og BÍ.


Skipulag kennslu, rannsókna og ráðgjafaþjónustu
Á fundi sínum 18. des s.l. fjallaði félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi um skipulag kennslu, rannsókna og ráðgjafaþjónustu í nautgriparækt.
Félagsráðið leggur áherslu á mikilvægi eftirtalinna atriða til framtíðar litið:


  1. Mikilvægt er að skipulag rannsókna og þróunarstarfs verði á einni hendi, þannig að fjármagn og mannauður nýtist sem best.
  2. Félagsráðið leggur á það áherslu, að nú þegar verði gengið frá samningum milli Rannsóknarstofnunar landbúnaðarins, Landbúnaðarháskólans og Búnaðarsambands Suðurlands um rekstur tilraunastöðvarinnar að Stóra-Ármóti. Jafnframt verði staða hennar tryggð sem tilraunastöðvar Íslands í nautgriparækt.
  3. Félagsráðið telur mikilvægt að byggt verði hið fyrsta kennslufjós við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Enda verði kennsla efld á næstu árum í greininni. Nauðsynlegt er jafnframt að kennsla í nautgriparækt stuðli að því að auka víðsýni og færni nemenda til að afla sér upplýsinga á hverjum tíma á þessu sviði.
  4. Félagsráðið leggur á það ríka áherslu að leiðbeiningaþjónustan verði efld með samþjöppun hennar í 2-3 leiðbeiningastöðvar yfir landið. Jafnframt verði stöðugildi landsráðunauta flutt í þessar stöðvar, með það að markmiði að auka tengsl þeirra við bændur og stuðla að hámarks nýtingu þekkingar og fjármuna. Til að hraða þessari þróun er lagt til að Bændasamtökin gangi nú þegar til samninga við Búnaðarsamband Suðurlands um mönnun á ónýttu starfsgildi landsráðunauts í nautgriparækt til reynslu.

Félag kúabænda á Suðurlandi

Tillagan send stjórn LK; BÍ, RALA og Landbúnaðarháskólanum Hvanneyri í janúar.




back to top