Félagsráðsfundur FKS 15. okt. 2007

Fundur í Félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi
mánudaginn 15. október 2007 kl. 11.00
Fundarsalur MS á Selfossi1. Fundarsetning.
Sigurður Loftsson formaður setti fund, bauð fundarmenn velkomna og kynnti gesti fundarins, þá Magnús Ólafsson og Pálma Vilhjálmsson frá MS. Þeir félagar mættu í forföllum Egils Sigurðssonar á Berustöðum, formanns Auðhumlu, sem kynntur hafði verið í fundarboði. 


2. Skipulagsbreytingar innan MS og greiðslur fyrir umframmjólk.
Sigurður Loftsson fór yfir ástæður þess að þessi liður væri sérstaklega á dagskrá en umtalsverðar skipulagsbreytingar hafa verið kynntar hjá MS að undanförnu. Eins væri það allnokkur breyting að MS hafi aðeins lofað 27 krónum á hvern innveginn líter umfram greiðslumark á nýbyrjuðu verðlagsári, í stað fulls afurðastöðvarverðs líkt og á liðnu verðlagsári.


Magnús Ólafsson hjá MS hafði framsögu um þær tillögur að skipulagsbreytingum sem MS hefur hugsað sér að ráðast í. Síðastliðið vor var skipaður fimm manna vinnuhópur til að koma með tillögur að hagræðingaraðgerðum sem lagðar voru fyrir stjórn Mjólkursamsölunnar. Ein hagræðingar-aðgerðin var að leggja niður mjólkurvinnslu á Egilssöðum. Niðurstaðan eftir miklar umræður meðal bænda og í þjóðfélaginu var að hætta við að leggja afurðastöðina niður en þess í stað verður starfsemin minnkuð töluvert frá því sem nú er. Aðrar hagræðingaraðgerðir gera t.d. ráð fyrir að allri mjólkurpökkun verði hætt á Sauðárkróki en ostagerð þar verði efld. Einnig verður öll dreifing og meginþættir vinnslunnar í OSS færðar yfir í húsnæði MS að Bitruhálsi 1 og húsnæði OSS trúlega selt.  Lóð OSS er talin mjög verðmæt og byggingaréttur lóðarinnar er umtalsvert meiri en nú er nýttur. Megintilgangur breytinganna er að nýta sem allra best þá fermetra sem MS hefur yfir að ráða. Áætlaður árlegur sparnaður við fyrirhugaðar hagræðingar¬aðgerðir er á bilinu 176-230 milljónir króna.
 
Magnús flutti einnig fréttir af IDF þingi (Alþjóðleg samtök mjólkuriðnaðarins) sem nýverið var haldið í Dublin á Írlandi. Í IDF eru nú 45 lönd sem samtals eru með um 75% af allri mjólkurframleiðslu í heiminum. Fram kom á þinginu að írskir bændur hefðu í sumar fengið 35 eurocent fyrir innlagðan líter en meira sé greitt fyrir vetrarmjólk eða 45 eurocent á innlagðan líter. Þá var á þinginu fjallað um gríðarlega hátt verð á landi sem víða hefur áhrif á dreifingu mjólkurframleiðslunnar. Dæmi var nefnt að fyrir nokkru voru 45 ha lands seldir á Írlandi fyrir 2,4 milljónir evra sem í ISK samsvarar um 5 milljónum á hvern hektara.


Írskur bóndi hélt erindi um hlutafélagavæðing mjólkurframleiðenda. Hann sagðist sjálfur vera hluthafi í mjólkurframleiðslufyrirtæki í Argentínu (20 hluthafar) og einnig hluthafi í stærra mjólkur-framleiðslufyrirtæki í USA. Hans niðurstaða var að á næstu 3-5 árum myndu þessi hlutafélög rata inn í kauphallirnar líkt og hvert annað hlutafélag.


Á þinginu var rakið að verð á mjólk er gríðarlega hátt nú um stundir og hærra en menn hafa séð áður. Líklegt er að verðið muni haldast svona hátt a.m.k. næstu tvö ár vegna mikillar eftirspurnar þar sem neyslan hefur verið meiri en framleiðslan. Mikil eftirspurn sé t.d. eftir mjólkurvörum í Asíu í kjölfar betri efnahags í þeim heimshluta. Aukin etanólframleiðsla hefur einnig gríðarleg áhrif á verð á fóðri sem aftur leiðir af sér verðhækkanir á mjólk. Á móti kemur að umræðan í EU um að leggja niður mjólkurkvótann árið 2015 hefur væntanlega áhrif til lækkunar á mjólkurverði. Magnús taldi mikilvægt fyrir Ísland að taka þátt í störfum IDF þar sem samtökin eru mikið í að vakta hagsmuni mjólkuriðnaðarins og mjólkurframleiðenda hvað varðar lög og reglugerðir.
Reglulega efnir IDF til auglýsingasamkeppni þar sem besta auglýsingaherferðin er valin. OSS sendi auglýsingu í keppnina fyrir tveimur árum og fékk auglýsingin útnefningu þó hún hefði ekki unnið. Að þessu sinni vakti bandarísk herferð mikla athygli en þar hefur mjólkuriðnaðurinn gengið til samstarfs við pizzuframleiðendur til að vekja athygli á að þegar maður borðar pizzu er maður að borða mikið af mjólkurvörum. Að lokum minntist Magnús á samtökin DGP, sem eru samtök stórfyrirtækja í mjólkuriðnaði s.s. Nestlé og Campina, en samtökin voru stofnuð fyrir tveimur árum. Þau hafa með sér samstarf um að auglýsa mjólk og slíka hluti.


Sigurður formaður spyr út í hækkun á mjólkurvörum erlendis og hverjar séu raunverulegar líkur á að verðið haldist áfram hátt. Þekkt sé  að það sem fari hratt upp fari einnig hratt niður. Magnús svarar að erfitt sé að spá fyrir um þróunina. Nefnir þó sem dæmi að Pólland og Úkraína gætu trúlega framleitt mjólk fyrir alla Evrópu ef vilji væri til þess. Við inngöngu Póllands í EU var settur kvóti á mjólkurframleiðsluna sem takmarkar mjög framleiðslu þeirra. Hins vegar séu líkur á að þar leynist mikil framleiðslugeta sem komi í ljós þegar og ef mjólkurkvóti verði lagður niður í EU. Ef mikil aukning í framleiðslu á því svæði verði raunin gæti slíkt leitt til lækkunar á mjólkurvörum en á móti kemur aukin eftirspurn í Asíu. Greinilegt er þó að mikil bjartsýni sé í bændum erlendis, t.d. á Írlandi.


Elín í Egilsstaðakoti spyr um uppbygginu MS á Selfossi. Magnús svarar að engin ákvörðun hafi verið tekin önnur en sú að byggja upp á Selfossi líkt og áður hafi verið kynnt þó uppbyggingunni hafi seinkað.


Pálmi Vilhjálmsson hjá MS tók við framsögu og fór enn frekar yfir ástæður þess að ætlunin var að loka á Egilsstöðum. Ástæðuna sagði hann fyrst og fremst þá að mögulegt væri að framleiða þær vörur sem nú væru framleiddar á Egilsstöðum í öðrum afurðastöðvum fyrirtækisins með þeim tækjabúnaði sem þar væri fyrir. Einnig talaði hann um að ætlunin væri að ná jafnvel enn meiri ávinningi út úr hagræðingarferlinu en áætlanir segðu til um. Pálmi benti á að síðan 1998 hefur vinnslu og dreifingarkostnaður aðeins verið hækkaður einu sinni samkvæmt útreiknaðri þörf en í öðrum tilvikum hefur tekist að hagræða á móti. Á sama tíma hefur fyrirtækið greitt talsverðar upphæðir í yfirverð til frameiðenda á hverju ári. Einnig þyrfti að hafa í huga að í ljósi hækkandi verðs á mjólkurvörum erlendis og verðstöðvunar á mjólk hérlendis hefði verðbilið á milli Íslands og annarra landa minnkað mikið.


Pálmi fór yfir framleiðslu fyrirtækisins og birgðahald. Nú er nægjanlegt magn af birgðum til staðar en undangengin áratug hafa birgðir oft verið heldur litlar til að mæta sveiflum. Sala mjólkurvara er nú á bilinu 114-115 milljónir lítra á próteingrunni en innvigtuð mjólk á liðnu verðlagsári var 123,6 millj. lítra. Athygli vekur auking í sölu á viðbiti og með sama áframhaldi verður jafnvægi í sölu á fitu og próteini árin 2010-2011.


Pálmi fór yfir forsendur þeirrar ákvörðunar að greiða 27 krónur fyrir umframlítrann. Þegar nægar birgðir séu til staðar verði að selja umframlítrana úr landi. Áætlaðar tekjur af lítranum erlendis er 38 ISK en kostnaður  við úrvinnslu og sendingu er um 11 kr. Afgangurinn er því 27 kr miðað við að gengi bandaríska dollarans sé 65 kr. Ekki sé raunhæft að fá hærra verð erlendis en þarlendir bændur fá fyrir sínar afurðir þegar verið er að flytja út t.d. undanrennuduft og smjör og ost í blokkum.


Spurt var út í stöðu framleiðenda sem ekki hafi greiðslumark en selji sínar vörur á innanlands-markaði. Pálmi svarar að MS sé að skoða málið lögfræðilega.
 
Talsverðar umræður urðu um skipulagsbreytingar hjá MS s.s. að hætt hefði verið við að loka á Egilsstöðum. Einnig urðu nokkrar umræður um það verð á umframmjólk sem MS er tilbúið að greiða. Pálmi ítrekar að það verð sem MS hafi birt sé lágmarksverð og ef eitthvað breytist þannig að MS geti greitt hærra verð þá verði það örugglega gert. Ekki séu hins vegar forsendur til að tilkynna neitt frekar um hækkun á verði á umframmjólk.


Birna á Reykjum og Magnús Ólafsson fjölluðu um sölu MS á Remfló en þau voru í starfshópi MS sem kom að málinu. Remfló hefur sinnt neyðarþjónustu sem MS hefur niðurgreitt en það kostaði félagið töluvert. Remfló skilaði MS ekki hagnaði eins og það var uppbyggt. Auk þess var ekki talið rétt að MS væri að standa í samkeppnisrekstri í gegnum eignarhlut sinn í Remfló. Mjólkureftirlit hefur verið rekið mjög mismunandi eftir afurðastöðvum. Í kjölfar ítarlegrar skoðunar var ákveðið að selja verslunar- og varahlutalager Remfló en sá hluti fyrirtækisins sem eftir yrði myndi sjá um mjólkureftirlitið. Niðurstaðan var sú að á vegum MS verði fjórir mjókureftirlitsmenn starfandi, þar af tveir á Suðurlandi. Að auki verður Sigurður Grétarsson staðsettur á Suðurlandi en hann mun hafa yfirumsjón með mjólkureftirliti á landsvísu.  Jötunn vélar hafa keypt verslunina og varahlutalagerinn og mun reka þann hluta fyrirtækisins með svipuðu sniði og verið hefur fyrst um sinn. Jötunn vélar hafa einnig tryggt sér áframhaldandi samstarf við SAC í Danmörku. Verið er að skoða hvort áfram fáist að senda vörur með mjólkurbílunum líkt og verið hefur um langt árabil.


Magnús Ólafsson og Pálmi Vilhjálmsson víkja af fundi.


3. Horfur í verðlagsmálum og afkoma greinarinnar.
Sigurður formaður
fór yfir verðlagsgrundvöll mjólkur. Verðlagsgrundvöllurinn sýnir að þó að launaliður bænda hækki, á kostnað afurðastöðvanna, í takt við almenna verðlagsþróun vanti enn upp á tæpa krónu til að vega upp á móti hækkun rekstrarkostnaðar. Ófært sé annað en að mjólkurvörur hækki á markaði til að vega það upp. Eru þá ekki taldar með þær  umtalsverðu verðlagshækkanir, ekki síst á kjarnfóðri, sem hafa komið til eftir 1. september 2007. Ljóst er að erfitt verður fyrir greinina að bera þær hækkanir óbættar til áramóta 2008 – 2009. Það hefur því verið rætt innan LK  að bíða eftir niðurstöðu verðlagsmælinga 1. des, eða þá að mjólkurverð verði endurskoðað að nýju eftir fyrsta ársfjórðung.  Verðlagsnefnd hefur ekki enn hafið hauststörf sín en fyrsti vinnufundur nefndarinnar hefur verið boðaður á mánudaginn 22. október n.k.


Farið var yfir niðurstöður Hagþjónustu landbúnaðarins og SUNNU verkefnisins frá árinu 2006. Niðurstöður beggja eru nokkuð samhljóða um að breytilegur kostnaður við framleiðsluna sé á bilinu 34-35 krónur á hvern innveginn líter. Einnig er ljóst að fjármagnskostnaður (vextir og verðbætur) hefur hækkað mjög milli ára og vegur orðið mjög þungt í rekstri kúabúa eða um 23-24 kr á hvern innveginn líter.


4. Endurskoðun á þjónustu Búnaðarsambands Suðurlands og fjármögnun hennar.
Sigurður formaður
fór yfir samþykkt frá aðalfundi BSSL 2007 þar sem samþykkt var að skipa starfsnefnd til að endurskoða starfsemi Búnaðarsambandsins. Starfsnefndin hefur þegar verið skipuð og hafa þar kúabændur, sauðfjárbændur og hrossabændur hvert sinn fulltrúa auk tveggja fulltrúa sem tilnefndir eru af Búnaðarsambandinu sjálfu. Sigurður lagði fram vinnuskjal þar sem fram komu árleg framlög úr búnaðarlagasamningi og frá búnaðargjaldi.  Rætt um  starfsemi Bjargráðasjóðs og hvort áhugi væri meðal tryggingafélagana að bjóða bændum upp á sambærilegar tryggingar og Bjargráðasjóður býður upp á í dag. Rætt um starfsemi BSSL og hlut kúabænda í greiddu búnaðargjaldi til Búnaðarsambandsins.


5. Staða viðræðna um formbreytingu stuðnings í núverandi mjólkursamningi og stefnu-mótun þess næsta.
Sigurður formaður
fór yfir formbreytingu stuðnings í núverandi mjólkursamningi. Þær 49 milljónir sem fara áttu í óframleiðslutengdan stuðning frá 1. september 2007 var útdeilt í samræmi við greiðslumark hvers og eins og greitt út sem eingreiðsla nú í september. Ekki hafði tekist að semja um útfærslu stuðningsins í tíma eins og ætlunin var í mjólkursamningi. Ekkert hefur verið aðhafst frekar varðandi útfærslu þeirra hugmynda sem fyrir lágu í vor varðandi umræddar formbreytingar. Því þrengir sífellt að þeim tíma sem aflögu er vegna verðlagsársins 2008/2009 enda mikilvægt að formbreytingar sem þessar séu kynntar í tíma svo bændur nái að laga sig að þeim.  Í ljósi þess aukast stöðugt líkur eru á að fjármagnið fyrir næsta verðlagsár verði greitt út með svipuðum hætti og nú.


Í framhaldi af ályktun síðasta aðalfundar LK ákvað stjórn LK á síðasta fundi sínum að hefja undirbúning að stefnumótun vegna næsta mjólkursamings. Ákveðið var að mynda stefnumótunarhóp en ekki liggur enn fyrir staðfest hverjir verða í þeim hóp. Þó er gert ráð fyrir að um verði að ræða fremur stóran hóp með starfandi framkvæmdanefnd.


6. Önnur mál.
Sigurður formaður
minnti fundarmenn á haustfundi LK sem standa fyrir dyrum þar sem m.a. verður farið yfir skýrslu LBHÍ um innflutning á nýju kúakyni. Haustfundirnir hefjast á Suðurlandi. Einnig var minnt á að árshátíð LK verður haldin á Selfossi 5. apríl 2008 í kjölfar aðalfundar.


Sigurður formaður tjáði fundarmönnum að undirbúingsnefnd fyrir Landbúnaðarsýninguna sem halda á í ágúst 2008 hefði skilað af sér í liðinni viku og næsta verk væri að skipa framkvæmdanefnd. Stefnt er að því að sýniningin verði á Hellu í reiðhöllinni sem þá á að vera risin.


Bóel á Móeiðarhvoli spyr um aðkomu félagsins varðandi reglur um flutning á lifandi gripum. Sigurður formaður svarar og segir að málum sem þessum hafi fjölgað undanfarið. Stjórn LK hefur boðið Landbúnaðarstofnun upp á samstarf um að endurskoða reglurnar og leggja til að fenginn verði  aðstoð utanaðkomandi aðila.


Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 16.20.


Jóhannes Hr. Símonarson
fundarritari


back to top