Félagsráðsfundur FKS 14. mars 2002

Fundur Félagsráðs 14. mars 2002 í húsakynnum MBF

Rætt kynbótastarf í nautgriparækt. Gestir fundarins Sveinn Sigurmundsson, Jón Viðar Jónmundsson og Guðmundur Jóhannesson.

Sveinn útdeildi samantekt á kostnaðarliðum við sæðingar. Á búi með 100.000 lítra framleiðslurétti er kostnaður á bú kr. 2.774 á hverja sæðingu. Bóndinn greiðir hins vegar um 2.300 kr.

Jón Viðar sagði erfðaframfarir í íslenska kúastofninum ótvíræðar. Vandinn væri sá helst að kúnum fækkar og þar með erfðahópurinn. Vísbendingar væru um að sæðingum á kvígum hefði fjölgað, sem er jákvætt. Enn er hægt að auka og bæta ættfærslu. Í dag eru 68 % kúa undan ættfærðum nautum og því hægt að gera betur. Hann kom inn á kálfadauða. Hann er meiri hér en í öðrum löndum. Taldi Jón skyldleikarækt koma þar inn í. Hún væri afleiðing af stífara vali. Lagði áherslu á að ná í yngri nautsmæður og flýta þannig erfðaframförum.
Sigurlaug Leifsdóttir spurði hví skap mjólkurkúa væri ekki veigameiri þáttur. Jóhann Nikulásson taldi rétt að fleiri útskýringarþættir kæmu inn í varðandi júgurbólgu. Orsakir fyrir henni væru mismunandi. Ágúst Dalkvist fannst of mikill breytileiki í júgurgerð hjá sér og spurði hvort svo væri hjá fleirum. Sigurjón Hjaltason taldi rétt að hafa gát varðandi skyldleika. Ekki mætti alveg taka nautin blint frá sæðingarmanni.
Jón Viðar sagði óvissuþátt varðandi skap alltaf mat manna. Það væri breytilegt. Erlendis væru menn oft að fara fram og til baka varðandi áherslur í kynbótum, svo væri einnig varðandi júgur og spenastærð. Langir og grófir spenar voru of lengi vandamál hérlendis. Að þeir væru of stuttir og of litlir væri nýtt að hluta til.
Daníel í Akbraut taldi sig fá betra byggingarlag út úr eigin skyldleikarækt. Hann taldi skýringu á burðarerfiðleikum að hluta ónógt eftirlit. Sagði vanta skráningu varðandi klippingu á spenum kálfa. Guðmundur Jóhannesson taldi alveg til umræðu að mínusa of litla spena inní kynbótamat ef það væri vaxandi vandamál. Jóhann Nikulásson taldi alveg jafnmikið vandamál of þykkir spenar. Sveinn Ingvarsson tók undir að skráningu á orsök kálfadauða þyrfti að vera ítarlegri. Hvort hann væri t.d. dauður í kúnni tvo daga eða við burð.

Guðmundur sagði kúasýningu 2002 ákveðna 31. ágúst og yrði með svipuðu sniði og síðast.

Sigurður fylgdi úr hlaði og útbýtti blöðum um “stefnumótun í nautgriparækt á Íslandi”. Stjórn LK og félagsmenn úr Fagráði eru í óformlegri vinnu við að kynna og taka saman helstu markmið.

Umræður urðu nokkrar um aðalfund FKS og staðsetningu hans.Ágúst Dalkvist vildi sjá hann haldinn í Skaftafellsýslu.

Grétar í Þórisholti spurði um kvótaverð og kom einnig inn á félagsaðild bænda að Félagi kúabænda. Hann taldi ekki rétt að hafa skylduaðild að félagsskapnum.

Sigurjón í Raftholti kom inn á þær breytingar er verða árið 2004 á umhverfi mjólkuriðnaðarins. Velti fyrir sér hvað hægt væri að gera. Koma yrði í veg fyrir að hlutir færu í sama farveg og nú væri t.d. í kjötmálum hjá bændum. Ákveðið að leggja tillögu fyrir aðalfund.


back to top