Félagsráðsfundur FKS 13. febrúar 2012

Fundur haldinn í félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi mánudaginn 13. febrúar 2012 í Björkinni á Hvolsvelli kl. 20.30.

1. Fundarsetning.
Þórir Jónsson setti fund og bauð fundarmenn velkomna. Að lokinni kynningu á fundarmönnum var gengið til dagskrár.

2. Kosningar.
• Ritari og varaformaður  – Samúel U. Eyjólfsson, Bryðjuholti endurkosinn með lófaklappi
• Gjaldkeri  – Elín B. Sveinsdóttir, Egilsstaðakoti endurkosinn með lófaklappi
• 5 fulltrúar á aðalfund BSSL og 5 til vara – Kosningin leynileg og kosningu hlutu eftirtalin:
Aðalmenn:
Þórir Jónsson  19 atkvæði
Elín B. Sveinsdóttir 17 „
Valdimar Guðjónsson 11 „
Samúel U. Eyjólfsson 10 „
Ólafur Helgason   9 „

Varamenn:
Guðbjörg Jónsdóttir   8 atkvæði 
Bóel Anna Þórisdóttir   5 „
Ásmundur Lárussson    4 „
Björn Harðarson   4 „
Ómar Helgason   2 „


Fram kom að aðalfundur Búnaðarsambandsins verður haldinn þann 18. apríl nk. að Heimalandi.


3. Nýliðinn aðalfundur FKS /Aðalfundur LK.
Þórir á Selalæk taldi  nýliðinn aðalfundur hafa tekist vel, búið er að senda ályktunina sem samþykkt var um forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði. Tillagan var send  landbúnaðarráðuneytinu.
Guðbjörg á Læk ræddi hvort þörf væri á breyta samþykktum FKS með tilliti til kosninga inn á aðalfund LK.
Þórir á Selalæk taldi eðlilegt að skoða málið á vegum félagsráðs með tilliti til kosninga inn á aðalfund LK fyrir næsta ár.
Elín í Egilsstaðakoti ræddi rekstur félagsins en félagið var rekið með aðeins halla á liðnu ári. Heldur hefur fjölgað í félaginu á liðnu ári, jafnframt rætt um innheimtu félagsgjalda.
Þórir á Selalæk nefndi komandi aðalfund LK og sagði að næsti fundur félagsráðs yrði helgaður málefnavinnu fyrir aðalfund LK. Skila þarf tillögum inn til LK í síðasta lagi 16.mars nk. Aðalfundur LK verður haldinn á Selfossi 23.-24. mars.
Árshátíðarnefnd hefur tekið til starfa en hún er skipuð þeim Birni Harðarsyni, Pétri Guðmundssyni og Sigríði Jónsdóttur.


4. Umræður um framtíð ráðgjafaþjónustunnar og búnaðargjalds.
Þórir á Selalæk hvatti fundarmenn til umræðu um leiðbeiningaþjónustuna, Þórir lagði áherslu að nýta það sem fyrir er, þ.e. mannauð hjá bsb. og BÍ.  Einnig þarf að skilgreina  hvaða þjónustu/verkefni eru innifalin í grunnþjónustu.
Sævar í Stíflu lagði áherslu að nota þjónustuna í héraði, hefur aldrei nýtt sér þjónustuna í Reykjavík í sínni búskapartíð. Þessi þjónusta á eingöngu að vera út á landi.
Guðmundur í Berjanesi nefndi að sérhæfing væri að aukast  og það væri þróunin sem fólk yrði að horfa á.
Ólafur í Hraunkoti lagði áherslu á að tekið yrði vægilega á gjaldtöku varðandi skýrsluhald og sameiginlegt ræktunarstarf.
Ómar í Lambhaga lagði áhersla á að ef þjónustan er einhvers virði, þá munum við nota hana. Þá þjónustu verður að vinna út á landi. Hann hefði lengi verið þeirrar skoðunar að leggja ætti af búnaðargjaldið.
Andrés í Dalsseli ræddi nauðsyn staðbundinnar þjónustu, hann vildi hafa einn ráðunaut sem sinn trúnaðarmann, hann myndi síðan sækja sérfræðiþekkingu til kollega sinna og miðla henni áfram til sín.
Björn í Holti sagði einhvern sameiginlegan grunn þyrfti að vera til staðar.  Hins vegar þyrfti þjónustan að vera út á landi. Búnaðargjaldið myndi væntanlega fara út.
Kjartan í Fagurhlíð  ræddi einnig nauðsyn að hafa sameiginlegan grunn en síðan ætti að selja sérhæfða ráðgjöf.
Samúel í Bryðjuholti ræddi hagsmunagæsluna, spurning hvort þyrfti að skipta upp aftur, þ.e. að hverfa aftur til hreinnar hagsmunagæslu og hins vegar faglega þjónustu og ráðgjöf.
Guðbjörg á Læk ræddi starf milliþinganefndar og hvernig unnið hefur að undirbúningi málsins og dreifði upplýsingablaði um fjármál leiðbeiningaþjónustunnar. Hún kynnti jafnframt  hvernig staðið hefði verið að undirbúningi málsins, m.a. hafi verið fenginn danskur ráðgjafi til að vinna álitsgerð um stöðuna og hvernig mætti sjá nýja þjónustu verða að veruleika og þá í einu fyrirtæki á landsvísu.
Þá kynnti Guðbjörg  og dreifði bréfi sem sent var út til aðildarfélaga BÍ, búnaðarsambanda og búgreinafélaga um tillögu BÍ um framtíð  búnaðargjaldsins.
Jóhann í St-Hildisey ræddi búnaðargjaldið, skýrslu danska ráðgjafans, Ole Kristiansen, um ráðgjafaþjónustuna og tillögu að breytingu sem liggur fyrir. Hann sagði  nauðsynlegt að formenn stærstu búnaðarsambandanna ræði saman og taki frumkvæði í málinu. Hættan væri sú að þessi starfsemi færi alfarið undir núverandi skipulag BÍ.
Elín í Egilsstaðakoti  ræddi þessa breytingu, í hverju hún fælist, hvort þetta yrði mikil breyting  frá núverandi skipulagi.
Jóhann í St-Hildisey ræddi ráðgjafastarf í Danmörku og hvernig staðið væri að málum þar.
Valdimar í Gaulverjabæ ræddi málið og taldi þörf á einni stjórn og faglegu aðhaldi á landsvísu. Upplýsingatæknin hefur breytt þessu geysimiklu. Nauðsynlegt að gera þetta á áhrifaríkan hátt, t.d. með því að koma þessari starfsemi alfarið út á land.
Þórir á Selalæk ræddi  þörfina á persónulegri nálægð þó svo að ráðgjafarnir séu búsettir  víðs vegar. 
Ómar í Lambhaga ræddi nauðsyn þess að flytja þessa starfsemi út á land. Spurning hvort félagið hér ætti ekki álykta um þetta mál.
Runólfur ræddi ráðgjafaþjónustuna og það starf sem búið er að vinna áður og drög sem liggja fyrir. Hann kvaðst fylgjandi megintillögu, að sameina kraftana í eitt félag en nauðsynlegt væri að skilgreina hlutina vel fyrirfram.


Jóhann í St-Hildisey  ræddi breytingar á búnaðargjaldinu. Spurningin er hvort ekki eigi að búgreinaskipta gjaldinu alfarið til búgreinanna og láta hverja búgrein úthluta því í einstök verkefni.


5. Önnur mál
a.
Þórir á Selalæk ræddi ferð  fyrir maka á aðalfundi LK á Selfossi og hvernig staðið yrði að skipulagi hennar.


b. Sævar í Stíflu ræddi tíðni sýnatöku úr mjólkurtönkum, hann taldi þörf á að allir bændur hefðu vitneskju um að hægt væri að senda sýni í hvert sinn sem mjólk er tekin úr mjólkurtanki  og fá greiningu, sérstaklega þegar sveiflur eru á einstökum mæliþáttum.


Fleira ekki gert og fundi slítið kl 00.15
Runólfur Sigursveinsson ritaði fundargerð
 


back to top