Fagráð um velferð dýra ályktar vegna verkfalls dýralækna

Vegna verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun hefur skapast mjög alvarlegt ástand á mörgum kjúklinga- og svínabúum, m.t.t. velferðar dýranna. Ástandið verður alvarlegra með hverjum deginum og ef ekkert verður að gert er velferð dýranna stefnt í frekari hættu. Í ljósi þess óskaði fulltrúi Bændasamtaka Íslands í fagráði um velferð dýra eftir því að fagráðið kæmi saman til þess að fjalla um áhrif verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun á velferð dýra. Fagráðið kom saman í gær og þar var samþykkt eftirfarandi ályktun.

Ályktun fagráðs um velferð dýra

Fagráð um velferð dýra lýsir yfir þungum áhyggjum vegna áhrifa yfirstandandi verkfalls dýralækna hjá Matvælastofnun á velferð dýra. Ráðið hvetur stofnunina til þess að hafa náið eftirlit með velferð eldisdýra á meðan á verkfalli stendur. Í þeim tilvikum sem ljóst er að þéttleiki sláturdýra er yfir leyfilegum mörkum þarf að bregðast við strax með slátrun. Ráðið tekur ekki afstöðu til þess hvort afurðir séu geymdar eða settar á markað.


back to top