Engar undanþágur í boði ef Ísland gengur í ESB

Í Bændablaðinu í dag kemur fram að afdráttarlaust hafi komið í ljós á rýnifundum í Brussel að undanförnu að ekki sé í boði að Ísland fái varanlega heimild til að banna innflutning á lifandi búfé og plöntum frá öðrum löndum ESB. Þetta hafi meðal annars komið skýrt í ljós á tvíhliðafundi um dýra- og plöntuheilbrigði 28.-31. mars sl. þar sem fulltrúar ESB lýstu því yfir án nokkurra tvímæla að Ísland gæti ekki fengið slíkar undanþágur frá innflutningi plantna og dýra til landsins.
Erna Bjarnadóttir og fleiri starfsmenn BÍ sátu þennan fund sem áheyrnarfulltrúar og fylgdust með honum í beinni útsendingu í utanríkisráðuneytinu. Að sögn Ernu tók Wolf Meyer yfirmaður hjá framkvæmdastjórn ESB á sviði heilbrigðismála (SANCO), til máls á fundinum og sagði afdráttarlaust að ekki yrði um neinar slíkar undanþágur að ræða . „Þið þurfið að svara hvort þið getið tekið upp okkar reglur, ef ekki, þá getum við hætt þessu, þið getið ekki unnið eftir ykkar reglum, þið verðið að fara eftir okkar.“ Fulltrúar ESB á fundinum lögðu áherslu á að viðskipti Íslands við önnur lönd innan sambandsins teldust ekki innflutningur. Innflutningur ætti við um viðskipti við þriðju ríki.

Forsendur umsóknar brostnar
Í meirihlutaáliti utanríkismálanefndar Alþingis vegna aðildarumsóknarinnar er fjallað um meginhagsmuni Íslands. Þar kemur m.a. fram að búfjárstofnar í Íslandi séu afar viðkvæmir fyrir utanaðkomandi sýkingum. Þá segir: „Ísland hefur til þessa samkvæmt EES-samningnum verið undanþegið viðskiptum með lifandi dýr. […] Meiri hlutinn telur rétt að kröfu um að þessari undanþágu verði framhaldið fyrir Ísland verði haldið uppi í mögulegum aðildarviðræðum.“ Ef litið er til viðbragða fulltrúa ESB á nefndum fundi er ljóst að slík kröfugerð mun ekki halda. Þar með má halda því fram að forsendur fyrir umsókninni séu brostnar.


back to top