Engar sérreglur um erfðabreytt matvæli á Íslandi

Engar sérreglur gilda á Íslandi um innflutning erfðabreyttra matvæla. Þau finnast nú víða um heim og telja margir að plöntuerfðatækni verði lykilatriði í að brauðfæða fjölgandi mannkyn á ört rýrnandi ræktunarlandi. Byrjað er að rækta erfðabreytt bygg hérlendis, þó eingöngu til sérvirkrar prótínframleiðslu í lyf, lyfjaþróun og til iðnaðarnota. Kynbætur hafa verið stundaðar allar aldir með blöndun skyldra tegunda. Erfðabætur byggjast hins vegar á líftækni, þar sem erfðamengi lífvera er breytt til að styrkja eftirsóknarverða eiginleika. Oft er það gert með því að blanda saman jurta- og dýraríki.

Ákaflega skiptar skoðanir eru um hvort erfðabreytt matvæli og fóður eru holl og hvort náttúrunni stafi hætta af plöntum sem búið er að breyta genetískt. Finna má víða á veraldarvefnum t.d. válista yfir erfðabreytt matvæli og upplýsingar um jákvæð áhrif erfðabreytinga. Fyrir plöntur eru þau m.a. sögð skordýraþol og meiri uppskera, þolnari einstaklingar og næringarmeiri.


Jón Gíslason, forstjóri Matvælastofnunar, segir enga sérstaka löggjöf í landinu um innflutning þessara matvæla og því ekki fylgst með því. Til sé Evrópulöggjöf um erfðabreytt matvæli og fóður, en hún hafi ekki enn verið tekin inn í EES-samninginn. Unnið sé að því og gert ráð fyrir að hérlendis komi löggjöf bæði um erfðabreytt matvæli og fóður innan tíðar. Þá mun aðeins verða leyfilegt að flytja inn matvæli og fóður unnin úr vörum sem fengið hafa samþykki hjá Evrópusambandinu og gengist undir áhættumat viðkomandi yfirvalda, til að staðfesta að vörurnar séu í lagi frá heilsufræðilegu sjónarmiði.


back to top