Ekki mikið um folaldadauða í kjölfar smitandi hósta

Á vef Matvælastofnunar er að finna uppfærða grein þar sem fram kemur að folaldadauði í kjölfar smitandi hósta, sem herjað hefur á íslensk hross undanfarna mánuði, hafi ekki aukist. Hins vegar er margt annað sem orðið getur folöldum að aldurtila og eru forráðamenn/eigendur folalda hvattir til að lesa greinina sem fer hér á eftir:

Folöld hafa reynst afar móttækileg fyrir þeirri bakteríusýkingu sem veldur smitandi hósta í hrossum, Streptococcus zooepidemicus, og enn ber nokkuð á veikindum hjá þessum hópi. Í mörgum tilfellum virðast þau hafa góða vörn gegn sjúkdómnum fyrstu tvo mánuðina eftir fæðingu, sem líklega má rekja til mótefna sem þau fá með broddmjólkinni. Að þeim tíma liðnum standa þau berskjölduð gagnvart sýkingunni.


Alla jafna komast folöldin yfir sýkinguna af eigin rammleik en það getur tekið þau drjúgan tíma að verða alveg einkennalaus. Allmörgum hefur  verið hjálpað með penicillingjöf og á hún rétt á sér ef folöld eru komin með hita eða önnur alvarleg einkenni.  


Í rannsóknaskyni var óskað eftir folöldum til krufningar sem grunur lék á að hefðu drepist úr veikinni. Alls voru 17 folöld rannsökuð með þessum hætti á Tilraunastöðinni á Keldum. Í fjórum tilfellum  mátti rekja dauða folaldanna til streptókokkasýkingar í lungum og í þremur öðrum tilfellum er líklegt að streptókokksýking hafi verið meðvirkandi þáttur í  dauða folaldanna. Hin folöldin, tíu talsins, drápust af öðrum orsökum.Sjúkdómar sem rekja má til skorts á E-vítamíni og/eða seleni virðast algengir og geta valdið dauða.  Hvítvöðvaveiki er vel þekktur sjúkdómur í ungviði hér á landi þar sem selenskortur er landlægur og mátti  sjá merki hans í 9 af 17  folöldum sem krufin voru. Auk þess ber nú á alvarlegri fituvefsbólgu („steatitis“) sem leiðir til fitudreps. Einkennin eru harðir fitukögglar sem finnast við þreifingu á makka, í nára og jafnvel fleiri stöðum undir húð. Folöldin geta verið með háan hita sem ekki lækkar við penicillin gjöf. Fituvefsbólga veldur skaða á mörgum líffærum, m.a. koki, lungum og hjarta og getur þá leitt til dauða. Svo virðist sem þessi sjúkdómur hafi verið ein af algengari orsökum folaldadauða nú í sumar. Þess ber að geta að öll folöld sem vitað er til að hafi drepist úr fitudrepi voru staðsett á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli og hafa verið leiddar líkur að því að mikið járn í beitilandinu hafi valdið aukinni þörf á andoxunarefnunum E-vítamíni og seleni. Þessi folöld voru að auki með hvítvöðvaveiki og oftast meiri skemmdir í vöðvum en hin folöldin sem ekki voru með fituvefsbólgu. 


Ef vart verður við einkenni sjúkdómsins er ástæða til að meðhöndla öll folöldin í stóðinu með E-vítamíni og seleni. Afar mikilvægt er að koma selenríkum steinefnablöndum í hestagirðingar. Þar sem mikið er af járni í beitilandi og heyi, er mikilvægt að velja selengjafa sem ekki er járnríkur að auki.


Ormasýkingar hafa einnig leitt til folaldadauða. Brýnt er fyrir eigendum að gera viðhlýtandi varúðarráðstafanir þar að lútandi. Ormasýkingar þarf að fyrirbyggja með skipulagðri ormalyfjanotkun samhliða beitarskiptum. Meðhöndla þarf öll hross sem ganga saman.


Aldrei hefur verið eins mikilvægt að tryggja hrossum góða fóðrun og aðbúnað. Folöldin hafa það best með mæðrum sínum á útigangi enda er móðurmjólkin þeim afar mikilvæg langt frameftir vetri. Því þarf að tryggja folaldshryssum aðgang að góðu beitilandi og skjóli og koma þannig í veg fyrir að þær geldist of snemma. Rúmgott beitiland á einnig þátt í að halda smitálaginu niðri. Engin ástæða er til að taka folöld undan og hýsa. Það getur þvert á móti aukið hættuna á að veikin magnist upp að nýju. Aðgangur að góðu vatni er öllum hrossum nauðsynlegur og ekki má gleyma saltinu.


Gott eftirlit er lykilatriði. Fylgjast þarf sérstaklega vel með viðgangi folalda nú í haust. Helstu hættumerkin eru slappleiki (fylgja ekki vel, leika sér ekki), vanþrif og alvarleg einkenni frá öndunarfærum, s.s. korr og öndunarerfiðleikar. Í þeim tilfellum er nauðsynlegt að mæla folöldin og meta þörf á meðhöndlun.


Óvíst hvort folaldadauði hafi aukist. Upplýsingar liggja ekki fyrir um tíðni folaldadauða hér á landi, hvorki fyrir tíma smitandi hósta né eftir að veikin kom upp. Þrátt fyrir að kallað væri eftir folöldum til krufningar, eigendum að kostnaðarlausu, bárust aðeins 17 folöld til Keldna á tímabilinu 15. júní – 8. október 2010. Bendir það til  að folaldadauði hafi ekki verið mikill í sumar og haust. Krufningarnar hafa engu að síður gefið dýrmætar upplýsingar um þá streptókokkasýkingu sem herjað hefur á hrossastofninn sem og aðrar orsakir folaldadauða. Niðurstaðan er sú að ekki sé mikil hætta á að folöld drepist af völdum fylgikvilla smitandi hósta.Sigríður Björnsdóttir, Ólöf Sigurðardóttir, Vilhjálmur Svansson, Eggert Gunnarsson


back to top