Ekki kemur til greina að flytja fé af gossvæðinu að sögn ráðherra

Jón Bjarnason, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra og Sigurgeir Þorgeirsson, ráðuneytisstjóri voru hér á Selfossi í morgun þar sem þeir funduðu með forsvarsmönnum Búnaðarsambands Suðurlands og Matvælastofnunar auk fulltrúa frá almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra vegna ástandsins, sem hefur skapast í kjölfar eldgossins í Grímsvötnum. Um 20 þúsund fjár eru á svæðinu og mjólkurframleiðsla er á 25 bæjum. Um 1.800 nautgripir eru á svæðinu frá Álftveri austur að Skeiðarársandi.
Að sögn landbúnaðarráðherra kemur ekki til greina að flytja búfé af gossvæðinu í Skaftárhreppi. Svæðið sé mjög mikilvægt sauðfjárveikivarnasvæði og féð okkur mjög verðmætt. Landbúnaðarráðherra vonast til að geta komist á svæðið í vikunni til að skoða afleiðingar gossins.
Allt bendir til þess að gjóskuframleiðslan úr gígnum í Grímsvötnum sé minni nú en undanfarna daga. Á Kirkjubæjarklaustri er farið að rofa til þó að enn fjúki askan um allt. Nú gefst þó betur færi á að huga að því fé sem ekki náðist á hús eða heim undir hús í rennandi vatn og ómengað fóður. Í Fljótshverfi er þó allmikið öskufall þessa stundina.


back to top