Ekkert riðutilfelli á árinu 2011

Á árinu 2011 greindist ekkert nýtt tilfelli af riðuveiki í sauðfé hér á landi og verða það teljast mikil og góð tíðindi en það er í fyrsta sinn á einu almanaksári síðan baráttan við þessa veiki hófst fyrir alvöru fyrir meira en 30 árum síðan. Árið 2010 kom upp eitt tilfelli og tvö árið 2009. Þar áður voru að greinast fimm til tíu tilfelli á ári og fyrir kom að tilfellin skiptu nokkrum tugum á ári. Því er ljóst að hinar gífurlega ströngu aðgerðir gegn þessari veiki hér á landi, sem eru þær ströngustu í heiminum, hafa verið að skila miklum árangri. Það er vissulega gleðiefni, en jafnframt er nauðsynlegt að taka skýrt fram að eðli smitefnisins og veikinnar er með þeim hætti að það má hvergi slaka á þeim varnaraðgerðum sem eru í gildi.

Það á eftir að taka ár og jafnvel áratugi þar til hægt verður að lýsa því yfir að Íslands sé laust við riðuveikina. Því verða allir sem hér eiga hlut að máli að halda áfram að halda vöku sinni í þessari útrýmingarbaráttu sem hér hefur verið háð með góðum árangri. Það má ekki gerast að þeim miklu fórnum sem sauðfjárbændur hafa fært á liðnum árum og þeim mikla kostnaði sem þeir og ríkisvaldið hafa lagt í baráttuna, sé á glæ kastað.


Riðuveiki er talin hafa borist til landsins með lifandi fé rétt fyrir aldamótin 1900. Smitefnið sem veldur veikinni er kallað príon og er eitt erfiðasta smitefni sem þekkt er og smitleiðir ekki allar þekktar, en þó fyrst og fremst með lifandi fé. Meðgöngutími veikinnar getur verið mjög langur, fé sem veikist er ólæknandi og sjúkdómurinn leiðir alltaf til dauða. 


Í fyrstu bar ekki mikið á tjóni af völdum veikinnar, en síðar fór hún að valda bændum miklum búsifjum. Því var tekin sú ákvörðun á áttunda áratugnum að útrýma skyldi veikinni úr landinu og allar hjarðir skornar niður þar sem veikin greindist. Í kjölfar niðurskurðar hafa farið fram umfangsmiklar sótthreinsunaraðgerðir og fjárleysi í tvö ár. Ríkið hefur tekið mikinn þátt í kostnaði við þessar aðgerðir og viðkomandi bændum greiddar afurðatjónsbætur.


Miklar hömlur hafa verið m.a. á flutningi á sauðfé á milli bæja og svæða og landinu skipt niður í varnarhólf, sem byggðust á eldri útrýmingaraðgerðum gegn mæðuveiki og garnaveiki. Mæðuveiki var útrýmt á sjöunda áratugnum, en það er enn verið að berjast við garnaveikina. Vert er einnig að geta þess að telja má að tekist hafi, í kjölfar mikillar útrýmingarherferðar á Norðurlandi, að útrýma fjárkláða úr landinu, en síðustu tilfelli voru greind fyrir nær tíu árum. Allt leggur þetta grunninn að bættu heilsufari búfjárins, betri afkomu bænda, minni lyfja- og efnanotkun við búskapinn og bættri ímynd búgreinarinnar.


back to top