Búnaðarþing 2015

Næstkomandi sunnudag 1. mars verður Búnaðarþing 2015 sett í Silfurberg í Hörpu við hátíðlega athöfn, undir yfirskriftinni Opinn landbúnaður. Helgin öll verður þó undirlögð af íslenskum landbúnaði og í Hörpu verður sannkölluð matarveisla, þar sem sýnt verður fram á allt hið góða sem íslenskur landbúnaður hefur upp á að bjóða. 
Á laugardeginum fer fram úrslitakeppni í kokkakeppni Food & Fun í Norðurljósasalnum og alla helgina verður stærsti matarmarkaður landsins á jarðhæð Hörpunnar, Vetrarmarkaður Búrsins, þar sem ýmsir smáframleiðendur bjóða fram sínar vörur. Lokakeppni um Matreiðslumann ársins 2015 fer fram fyrir framan Smurstöðina á jarðhæð á sunnudeginum þar sem Atli Erlendsson frá Grillinu á Hótel Sögu, Axel Clausen frá Fiskmarkaðnum, Kristófer Hamilton Lord frá Lava Bláa Lónið og Steinn Óskar Sigurðsson frá Vodafone etja kappi.

Á sama tíma verður ýmislegt um að vera í og við húsið. Vélasalar sýna dráttarvélar og fleiri nýjungar, Landbúnaðarháskóli Íslands kynnir spennandi námsleiðir, hamborgarabíllinn Tuddinn verður á sínum stað og sauðfjárbændur og Meistarafélag kjötiðnaðarmanna mæta með grillvagninn á sunnudeginum.

Frekari upplýsingar um Búnaðarþing; málaskrá, starfsáætlun og fleira, má nálgast á vef Bændasamtaka Íslands bondi.is


back to top