Búfjáreftirlit til MAST

Nú um áramótin tók Matvælastofnun alfarið yfir búfjáreftirlit í öllum landshlutum af sveitarfélögum, sem áður sinntu þessu hlutverki.  Hér á Suðurlandi er það Óðinn Örn Jóhannsson sem verður sérfræðingur í velferð og aðbúnaði dýra, en hann hefur verið starfandi við búfjáreftirlit undanfarin ár.  Í fréttum RÚV í gær var Ásdísi Helgu Bjarnadóttur nýjum eftirlitsmanni MAST fylgt eftir og rætt við hana og Eyrúnu Arnardóttur héraðsdýralækni um þetta nýja starf.  Hér má sjá frétt RÚV „ný dýravelferðarlög hafa tekið gildi

Ný lög um velferð dýra tóku gildi um áramót og færa Matvælastofnun ný úrræði gegn illri meðferð dýra. Þá verður eftirlit skilvirkara en nýir eftirlitsmenn mættu til vinnu í fyrsta sinn í dag.

Ásdís Helga er ein af sex nýjum eftirlitsmönnum og í morgun kom hún til starfa á Egilsstöðum. Einn eftirlitsmaður starfar með hverjum héraðsdýralækni og fylgist Ásdís með bændum og búfénaði í Austurumdæmi. Áður var eftirlit á því svæði í höndum sjö búfjáreftirlitsmanna sveitarfélaga sem voru í mörgum tilvikum sjálfir bændur.

„Vonandi sjáum við fram á skilvirkara eftirlit yfir allt árið og kannski minni nánd líka í eftirlitinu. Þar sem ekki er verið að gera ráð fyrir því að bændur þurfi að hafa eftirlit með nágrönnum og jafnvel vinum,“ segir Eyrún Arnardóttir, héraðsdýralæknir í Austurumdæmi.

Ásdís Helga segist starfa með svipuðum hætti og búfjáreftirlitsmenn gerðu. Hún fari á bæi og geri úttekt á aðbúnaði dýra og fylgi eftir söfnun hagtalna í landbúnaði.

Eftirlitið felst að stórum hluta í því að líta á tölur um búreksturinn. Margir kúabændur fylgjast grant með heilsu og matarræði gripanna.

Vonir standa til að með nýjum þvingunarúrræðum heyri endurtekin vanfóðrun, ill meðferð og slæmur aðbúnaður sögunni til. „Í erfiðum tilfellum fær stofnunin núna í fyrsta skipti heimild til að fara í dagsektir. Bændur á Íslandi eru upp til hópa að standa sig mjög vel og fara eftir reglugerðum,“ segir Eyrún. (Tekið af vef RÚV)


back to top