Breytingar á varnarlínum vegna sauðfjársjúkdóma

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefur birt auglýsingu um endurskipulagningu varnarlína gegn sauðfjársjúkdómum að fengnum tillögum Matvælastofnunar. Megináhersla er nú lögð á varnir gegn riðu- og garnaveiki en minni áhersla á að verjast öðrum sjúkdómum.
Varnarlínum fækkar um tvær og verða 27. Til viðbótar eru tvær aukavarnarlínur og línurnar því samtals 29. Aukavarnarlínur voru áður 11 talsins. Mestu breytingarnar eru að línur falla niður í Skaftafellssýslum, á sunnanverðum Vestfjörðum og í Borgarfirði.
Þetta nýja skipulag varnarlína hefur þegar tekið gildi og eru bændur hvattir til að kynna sér það vel fyrir sitt svæði, ekki síst þar sem nú fara göngur og réttir í hönd.

 


Aðalvarnarlínur.


Aðalvarnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma eru:


1. Sogslína: Ölfusá og Sog í Þingvallavatn.
 
2. Bláskógalína: Úr Þingvallavatni um Ármannsfell í Hvalfjarðarlínu við Kvígindisfell.
 
3. Brúará: Brúará.
 
4. Hlíðarbæjarlína: Frá Brúará um Fullsæl og Andarlæk um Múlanes í Tungufljót og Far í Hagavatn.
 
5. Hvalfjarðarlína: Úr Hvalfirði við Múlafjall um Hvalvatn að Kvígindisfelli að Matbrunnum við Uxahrygg í Hrúðurkarla við Þórisjökul.
 
6. Snæfellslína: Úr Skógarnesi um Ljósufjöll í Álftafjörð.
 
7. Hvammsfjarðarlína: Úr Hvammsfirði milli Þorbergsstaða og Hrútsstaða um Laxárdalsheiði í Hrútafjörð sunnan Fjarðarhorns.
 
8. Gilsfjarðarlína: Úr Gilsfirði um Snartartungu í Bitrufjörð.
 
9. Kollafjarðarlína: Úr Kollafirði í Ísafjarðarbotn.
 
10.Tvídægrulína: Úr Hvammsfjarðarlínu við Skeggöxl um Kvíslavötn og Arnar­vatn stóra í Langjökul við Jökulstalla.
 
11. Miðfjarðarlína: Úr Miðfirði um Miðfjarðarvatn í Arnarvatn stóra.
 
12. Vatnsneslína: Úr Miðfjarðarvatni í Síðukrók við ósa Víðidalsár.
 
13. Kjalarlína: Milli Langjökuls og Hofsjökuls.
 
14. Blöndulína: Blanda.
 
15. Héraðsvatnalína: Héraðsvötn – Jökulsá eystri.
 
16. Eyjafjarðarlína: Eyjafjarðará sunnan Bringu að Sjónarfelli og að Miklafelli í Hofsjökli.
 
17. Sprengisandslína: Úr Miklafelli að Tungnafellsjökli og um Vonarskarð í Vatnajökul.
 
18. Skjálfandalína: Skjálfandafljót – Fjórðungakvísl.
 
19. Fjallalína: Jökulsá á Fjöllum.
 
20. Jökuldalslína: Jökulsá á Dal.
 
21. Lagarfljótslína: Jökulsá í Fljótsdal og Lagarfljót.
 
22. Hamarsfjarðarlína: Hamarsá í Hamarsfirði í Þrándarjökul og þaðan í Vesturdalsjökul.
 
23. Breiðamerkursandslína: Jökulsá á Breiðamerkursandi.
 
24. Skeiðarársandslína: Sandgígjukvísl.
 
25. Tungnaárlína: Frá Botnjökli í Mýrdalsjökli um Mælifellssand í Torfajökul, frá Hábarmi um Kirkjufellsvatn í Tungnaá og þaðan að Jökulgrindum í Vatnajökli.
 
26. Markarfljótslína: Markarfljót og Syðri-Emstruá.
 
27. Þjórsárlína: Þjórsá.
 


Aukavarnarlínur.


Aukavarnarlínur vegna sauðfjársjúkdóma eru:


1. Smjörfjallalína: Um Smjörvatnsheiði og Smjörfjöll í Böðvarsdalsá og til sjávar.
 
2. Hvítárlína: Hvítá í Árnessýslu frá Hvítárvatni að Brúará.
 

Auglýsing sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins


back to top