Bónda dæmdar bætur í júlí án þess að greiðsla hafi enn borist frá ríkinu

Í byrjun júlí á þessu ári féll dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur í máli Sigurðar Hauks Jónssonar og Fjólu Helgadóttur, bænda á Skollagróf í Hrunamannahreppi, gegn ríkinu. Þar voru þeim hjónum dæmdar tæpar fjórtán milljónir í bætur vegna riðuniðurskurðar auk dráttarvaxta og 600 þúsund króna málskostnaðar.
Haustið 2007 kom upp riða í sauðfé í Skollagróf og í kjölfarið var allur fjárstofn búsins skorinn niður. Matsnefnd eignarnámsbóta úrskurðaði í mars 2010 að það ætti að greiða þeim tæpar þrettán milljónir en ríkið féllst ekki á úrskurðinn og ákvað einhliða að greiða bændunum rúmar fjórar milljónir. Þau voru ekki sátt við þær lyktir og stefndu því ríkinu.

Sigurður segir, eftir því sem fram kemur á mbl.is, að engin greiðsla hafi borist þrátt fyrir dóminn í sumar. Ríkið áfrýjaði honum ekki og stendur hann því.


Sjá nánar:
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. júlí í máli nr. E-5612/2010: Sigurður Haukur Jónsson og Fjóla Helgadóttir gegn íslenska ríkinu


back to top