Bakteríusýking er orsök kvefpestarinnar

Nú liggur fyrir að smitandi hósti er ekki af völdum neinna af þeim alvarlegu veirusýkingum sem þekktar eru og leggjast á öndunafæri hrossa. Bakterían Streptococcus zooepidemicus hefur hins vegar ræktast úr öllum sýnum sem tekin hafa verið úr hrossum með hósta og graftarkenndan hor, en ekki úr hrossum sem eingöngu hafa verið með nefrennsli eða heilbrigð. Ljóst er að bakteríusýkingin er afgerandi fyrir sjúkdómsmyndina og að hún er bráðsmitandi. Rannsóknirnar hafa verið unnar á Tilraunastöðinni á Keldum í samstarfi við hérlendar og erlendar rannsóknarstofnanir.

Bakterían hefur nokkrum sinnum ræktast úr veikum hrossum á Íslandi, t.d. úr hópsýkingu folalda í stóðhestagirðingu sem voru með graftarkenndan hor og stækkaða kverkeitla. Hún er því ekki ný af nálinni í umhverfi hestanna okkar og ætla mætti að ónæmi gegn henni væri nokkurt. Hún hefur aldrei áður valdið faraldri hér á landi svo vitað sé. Almennt er talið að bakterían nái sér fyrst og fremst á strik í kjölfar annara sýkinga, einkum veirusýkinga, en einnig í einstaklingum með litla mótstöðu. Hún er algeng ástæða öndunarfærasýkinga í hrossum erlendis en leiðir alla jafna ekki til faraldurs þar sem mótstaðan gegn henni er meiri.


Enn er gert ráð fyrir að óþekkt og þá væntanlega tiltölulega væg veira hafi borist til landsins og  komið faraldrinum af stað. Sú staðreynd að allir hestar virðast næmir fyrir sjúkdómnum styður þá kenningu. En sá möguleiki er einnig fyrir hendi að einhverjar aðrar ástæður hafi orðið þess valdandi að bakteríusýkingin blossaði upp og varð að þeim faraldri sem raun ber vitni.


Komið hefur í ljós við rannsókn á uppruna veikinnar að nokkuð hefur verið um hósta í hesthúsum víða um land undanfarin tvö ár.  Grunur um smitsjúkdóm vaknaði þó ekki fyrr en nú í apríl. Ekki er ljóst hvort um sömu veiki var að ræða og nú geisar enda hafa þessi hross öll veikst aftur meira eða minna.


Möguleikinn á að bakterían hafi búið um sig í nokkuð langan tíma er fyrir hendi. Mikill þéttleiki hrossa, innistaða, álag og streita í tengslum við þjálfun, sýningar og keppni, auk lítillar mótstöðu í stofninum í heild sinni, eru þættir sem gætu hafa gert það að verkum að smitið magnaðist upp og faraldur braust út.


Að lokum má geta þess að nú er verið að rannsaka hvort um sé að ræða nýjan stofn af bakteríunni og hvort það geti útskýrt faraldurinn.


Hvað svo sem setti þennan faraldur af stað er verkefnið núna að vinna úr afleiðingunum.
Reynslan hefur sýnt að smitefnið magnast upp í hesthúsunum og einkenni sjúkdómsins verða alvarlegri eftir því sem hestum er haldið meira á húsi. Útigangshrossin veikjast venjulega vægar. Þetta gefur vonir um að vandamálið minnki eftir því sem fleiri hrossum er sleppt út á rúmt land.


Mikilvægast er að koma sem flestum hrossum út en þeir sem telja sig þurfa að hýsa áfram þurfa að hreinsa og háþrýstiþvo húsin, jafnvel sótthreinsa. Einnig er áríðandi að hvíla hross sem sýna einkenni sjúkdómsins. Ef það tekst að fyrirbyggja að smitið magnist upp og hrossin verða aðeins fyrir vægu smiti (eins og gerist úti) styttist tíminn sem hrossin bera einkenni veikinnar og þar með tíminn sem þau missa úr þjálfun.


Auka þarf eftirlit með fylfullum hryssum, nýköstuðum hryssum sem og folöldum og varast að halda þennan hóp á þröngu landi eða við aðrar þær aðstæður sem magna smitið upp. Ef hryssur kasta í mjög sýktu umhverfi aukast líkurnar á naflasýkingum í folöldum sem geta haft slæmar afleiðingar.


Ekki er tryggt að hross myndi ónæmi gegn veikinni og því verður  að minnka smitálagið með því að koma hrossunum í hreint umhverfi. Mælt er með því að hestamenn þrífi hesthús sín vel eftir að hrossum hefur verið sleppt í sumarhaga.


Hægt er að meðhöndla hross ef alvarleg einkenni koma fram en annars er æskilegt að hestarnir vinni sjálfir á sýkingunni. Það eykur mótstöðu þeirra seinna meir.


Sigríður Björnsdóttir
Vilhjálmur Svansson
Eggert Gunnarsson


back to top